Olíufélögin Olís og Skeljungur hækkuðu verð á eldsneyti hjá sér í gær. Hækkuðu bæði félögin bensínverð um tvær krónur á lítra og verð á dísilolíu um þrjár krónur á lítrann. Verð á eldsneyti á heimsmarkaði hefur hækkað verulega að undanförnu.

Olíufélögin Olís og Skeljungur hækkuðu verð á eldsneyti hjá sér í gær. Hækkuðu bæði félögin bensínverð um tvær krónur á lítra og verð á dísilolíu um þrjár krónur á lítrann.

Verð á eldsneyti á heimsmarkaði hefur hækkað verulega að undanförnu. Verð á tunnu af hráolíu fór yfir 94 dollara í fyrradag og bensínið hækkaði á þriðjudag um 15 dollara. Þykir þetta óvenjulegt þar sem eldsneytisverð er yfirleitt lægst í desembermánuði.

Kuldakast í Evrópu ástæðan

„Það er óvenjuhátt verð í desember miðað við það sem venja er,“ sagði Magnús Ásgeirsson, innkaupastjóri N1, í samtali við mbl.is um hækkanirnar á heimsmarkaðsverðinu. Meginástæðuna segir hann áreiðanlega vera kuldakastið í Evrópu. Venjan sé sú ef litið sé yfir árið að eldsneytisverð á heimsmarkaði sé yfirleitt lægst í desember. Það hækki svo yfirleitt á ný í janúar. Fram kom í viðtalinu við Magnús að óvissa væri um hvort verðhækkanirnar haldi áfram í janúar. „Það er engan veginn gefið að svo verði. Veðrið hefur áhrif á það. Með fimbulkulda víða í Evrópu eykst olíunotkunin og eftirspurnin verður mjög mikil, sem hefur áhrif á verðið.“