[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Una Sighvatsdóttir una@mbl.is Íslenskum námsmönnum erlendis fer nú fjölgandi á nýjan leik eftir að fækkaði í þeim hópi fyrst eftir bankahrun.

Fréttaskýring

Una Sighvatsdóttir

una@mbl.is

Íslenskum námsmönnum erlendis fer nú fjölgandi á nýjan leik eftir að fækkaði í þeim hópi fyrst eftir bankahrun. Enn fleiri virðast stefna út næsta haust því aldrei hafa fleiri tekið hið alþjóðlega stöðupróf í ensku, TOEFL, sem krafist er í flestum skólum þar sem kennt er á ensku.

Fyrst eftir bankahrun bjuggu íslenskir námsmenn erlendis við gríðarlega óvissu vegna gengisfalls krónunnar. Sáu sumir sér ekki kleift að halda áfram námi og sneru heim. Haustið eftir hrun treystu færri en áður sér í nám utan landsteinanna og má ætla að margir hafi slegið slíkum áætlunum á frest vegna kreppunnar.

Kreppan virðist hins vegar ekki lengur halda aftur af metnaði Íslendinga til að mennta sig á erlendri grund, jafnvel þótt fæstir komist undan því að steypa sér í miklar námslánaskuldir.

Fleiri úti en fyrir kreppu

Ekki eru til tölur yfir aðra nema erlendis en þá sem þiggja námslán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Á árunum 2008 til 2009 fækkaði lánþegum í erlendum háskólum úr 2.380 í 2.129. Þeim hefur nú fjölgað að nýju og eru skólaveturinn 2010-2011 orðnir 2.485, fleiri en veturinn fyrir hrun, 2007-2008 þegar 2.341 fékk lán vegna náms erlendis.

Ætla má að þessi þróun haldi áfram á næsta ári ef marka má fjölgun þeirra sem taka TOEFL-stöðuprófið í ensku. Aðsókn í prófið sló öll met nú í haust að sögn Guðmundar Pálmasonar, framkvæmdastjóra Tölvuskólans Þekkingar sem hefur umsjón með prófunum hér á landi.

Metaðsókn í erlend stöðupróf

„Það kom okkur á óvart, 2009 varð mjög mikil fjölgun frá árinu á undan en í haust virtist sem það yrði ekki mikill fjöldi. Svo tók þetta við sér og það fylltist í öll sæti.“ Aðeins einn prófdagur var áætlaður í desember en ákveðið var að bæta öðrum við vegna aðsóknar. Samt komust ekki allir að og þurfa sumir að bíða fram í janúar með að taka prófið, en þá fer líka óðum að líða að því að umsóknarfrestur í skólum renni út vegna náms haustið 2011. Í ár og í fyrra hafa samtals um 1.100 manns tekið prófið hjá Tölvuskólanum. Guðmundur segir að flestir virðist stefna til útlanda í nám, en þó séu einhverjir inni á milli sem taka það vegna vinnu úti.

Flestir komast í góða skóla

„Ég held að margir hafi örvænt fyrst og ákveðið að bíða með að fara út en nú er eins og fólk sjái tækifæri til að drífa sig af stað,“ segir Hjördís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra námsmanna erlendis. Hún segir að svo virðist sem margir treysti því að kreppan hafi náð lágmarki og bjartara sé framundan.

„Það hlýtur að teljast jákvætt að fólk sæki í að mennta sig erlendis. Íslendingar komast líka almennt inn í flotta skóla og verða eftirsóttir vinnukraftar. En þetta fólk kemur náttúrlega ekki til baka ef aðstæður bjóða ekki upp á það, þótt Ísland togi mikið í þá þurfa stjórnvöld að hugsa hvað við getum gert til að lokka fólk til baka að loknu námi.“

FÆST NÁMSLÁN ENDA MEÐ INNHEIMTUAÐGERÐ

Horfur á að útlánasafn LÍN hækki um 10 milljarða króna á þessu ári

Lánþegar LÍN eru alls 29.595 talsins og nam útlánasafn sjóðsins 136 milljörðum í árslok 2009 en horfur eru fyrir að það verði 10 milljörðum hærra í árslok 2010. Íslenskir námsmenn skulda að meðaltali 3,3 milljónir króna við útskrift úr háskóla og að jafnaði skulda þeir sem nema erlendis mest en þetta getur verið mjög mismunandi eftir því hvar fólk er í námi og hversu lengi það hefur verið í námi. Til umræðu hefur komið hjá LÍN að koma til móts við niðurskurðarkröfur með því að hækka viðmið um sjálfsfjármögnun stúdenta upp í 30%. Samband íslenskra námsmanna erlendis hefur áhyggjur af því að verði þessi hækkun að veruleika gæti það leitt til þess að nám erlendis verði aðeins raunhæfur möguleiki fyrir þá sem eiga efnaða foreldra.

Það sem af er þessu ári er búið að innheimta um 95,1% af gjalddögum samkvæmt upplýsingum frá LÍN, bróðurhluti þeirra sem eru með námslán greiða þau því áður en til innheimtu kemur en um 1,5% af kröfum LÍN fara að meðaltali áfram í löginnheimtu. Í mars á þessu ári var samþykkt að bjóða frystingu námslána til þriggja ára sem tímabundið úrræði fyrir lántaka sem komnir eru í vanskil og eru þegar með fyrstingu á lánum sínum hjá viðskiptabanka eða eru í greiðsluaðlögun. Skv. upplýsingum frá LÍN hafa 518 sótt um þetta úrræði síðan í mars og þar af 356 fengið samþykkt frystingu námslána. Þetta úrræði verður áfram í boði á næsta ári.