Það kann að virðast skjóta skökku við en loftslagsfræðingar segja að mikla kulda í Evrópu á þremur af síðustu tíu vetrum megi að miklu leyti rekja til hlýnunar jarðar.

Það kann að virðast skjóta skökku við en loftslagsfræðingar segja að mikla kulda í Evrópu á þremur af síðustu tíu vetrum megi að miklu leyti rekja til hlýnunar jarðar.

Samkvæmt nýrri rannsókn er helsta ástæðan sú að ísþekjan í norðurhöfum hefur minnkað og er það talið þrefalda líkurnar á slíkum vetrarhörkum í Evrópu og norðanverðri Asíu þegar fram líða stundir.

Óvenjumiklar frosthörkur gerðu usla víða í Evrópu veturinn 2005-2006, einkum í Mið- og Austur-Evrópu, auk þess sem mjög snjóasamt var á Norður-Spáni. Síðastliðinn vetur var sá kaldasti í Bretlandi í 14 ár og snjókoma og grimmdarfrost hefur víða sett samgöngur úr skorðum í álfunni á síðustu vikum.

Við fyrstu sýn virðast vetrarhörkurnar stangast á við kenningar loftslagsfræðinga um hlýnun jarðar og efasemdamenn segja harðindin staðfesta að full ástæða sé til að draga spár vísindamannanna í efa. Loftslagsfræðingar svara því til að með slíkum fullyrðingum sé verið að blanda saman langtímabreytingum á loftslagi og skammtímaduttlungum í veðri, auk þess sem hafa þurfi í huga staðbundin frávik frá áhrifum loftslagsbreytinga.

Stefan Rahmstorf, sérfræðingur við loftslagsrannsóknastofnun í Þýskalandi, segir nýja rannsókn benda til þess að hlýnun jarðar hafi stuðlað að vetrarhörkunum. Hlýnunin hafi orðið til þess að ísþekjan í norðurhöfum hafi minnkað um 20% á síðustu þremur áratugum. Það hafi orðið til þess að minna sólarljós endurspeglist, þannig að heimshöfin hlýni. Hlýr loftmassi raski loftstraumum og þrýsti mjög köldu heimskautalofti til Evrópu.

Skýrt er frá rannsókninni í tímaritinu Journal of Geophysical Research . bogi@mbl.is