Þjóðgarðsvörðurinn María segir jólalegt um að litast á Samóaeyjum, t.d. séu strætisvagnarnir skreyttir. Fyrir utan kaþólsku kirkjuna í Apia er fæðingar Jesúbarnsins minnst í skemmtilegri jólaskreytingu.
Þjóðgarðsvörðurinn María segir jólalegt um að litast á Samóaeyjum, t.d. séu strætisvagnarnir skreyttir. Fyrir utan kaþólsku kirkjuna í Apia er fæðingar Jesúbarnsins minnst í skemmtilegri jólaskreytingu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jónas Margeir Ingólfsson jonasmargeir@mbl.is María Markovic Skagstrendingur er nú stödd á Samóaeyjum en þar starfar hún sem þjóðgarðsvörður. Af öllum heimsins löndum sest sólin síðast á Samóaeyjum.

Jónas Margeir Ingólfsson

jonasmargeir@mbl.is

María Markovic Skagstrendingur er nú stödd á Samóaeyjum en þar starfar hún sem þjóðgarðsvörður. Af öllum heimsins löndum sest sólin síðast á Samóaeyjum. Hverjum degi lýkur því síðast, samkvæmt okkar dagatali, á Samóaeyjum. Þannig verður María síðasti Íslendingurinn til að hringja inn jólin í ár en þegar klukkan slær sex hjá henni í kvöld verður klukkan orðin fjögur að nóttu til heima á Íslandi.

María ákvað að flytja til Samóaeyja eftir að hafa hlotið kynningu um landið þegar hún var stödd í fríi á Havaí. „Eftir kynninguna labbaði ég upp að manninum, sem hét Creasepaul, og sagði: „Hæ, ég vil flytja til Samóa, hvar gæti ég búið?“ Hann sagði mér að ég gæti bara búið hjá mömmu sinni og fjölskyldu.“ Stuttu síðar var hún á leið út til Samóaeyja. „Ég hugsaði að það hlyti að vera best að vera sjálfboðaliði í þjóðgarði, því það hlyti að vera fallegasti staðurinn í hverju landi. Svo ég skrifaði þjóðgarðinum tölvupóst og spurði hvort ég mætti ekki koma og starfa sem sjálfboðaliði fyrir þau í sex mánuði. Þau voru ánægð með það og sögðu mér að skella mér til Samóa!“

Við megum vera stolt

María segist hafa lært mjög mikið af því að búa á Samóaeyjum enda sé það samfélag töluvert frábrugðið Skagaströnd. „Klisjan um það hvað við erum miklir víkingar hætti alveg að vera klisja. Við erum ótrúlega sterk þjóð og við vanmetum okkur allt of oft. Ég og þú erum aðeins nokkrum kynslóðum frá fólki sem bjó í torfbæjum, fólki sem þurfti að búa sig allt árið undir hvern einasta vetur og lifa af á hörkunni. Ef þú vilt vera þakklátur fyrir eitthvað þessi jólin, vertu þakklátur fyrir að vera alinn upp af íslenskum konum!“

María kveður jólin allt öðruvísi á Samóaeyjum en á Íslandi. „Þar fá börnin eina jólagjöf ef þau eru þæg og hjón senda hvort öðru jólakort. Jólatré eru skreytt í kirkjum og matvæli sett undir tréð sem fólk getur haft með sér úr messu. Á aðfangadag fer fólk í kvöldmessu og eftir messu er margt fólk á götunum að kasta jólakveðjum sín á milli.“

María kveður eyjaskeggja í miklum tengslum við jólaandann. „Ég mun ekki hafa 100 jólakort að lesa áður en ég opna pakkana, ég mun ekki fara á jólahlaðborð, ég mun ekki stressa mig á jólahreingerningunni og síður en svo borga mig inn á jólatónleika en ég mun syngja jólalög með kórnum mínum í fallegu kaþólsku kirkjunni minni og ég mun vera umkringd fólki sem man ennþá sanna meiningu jólanna.“