Þá nýfæddur Jesús í jötunni liggur fyllast fjárhirðar, vitringar og aðrir viðstaddir lotningu...þótt ýmislegt annað geti líka fangað hugann þegar mikið stendur til.
Þá nýfæddur Jesús í jötunni liggur fyllast fjárhirðar, vitringar og aðrir viðstaddir lotningu...þótt ýmislegt annað geti líka fangað hugann þegar mikið stendur til.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hápunktur aðventunnar í Mýrarhúsaskóla er þegar fjórði bekkur flytur skólasystkinum sínum helgileikinn en í ár var jólaguðspjallið sett á svið í Seltjarnarneskirkju. Myndir: Ernir Eyjólfsson ernir@mbl.is Texti: Bergþóra Njála Guðmundsdóttir ben@mbl.is

Það vantaði ekkert upp á hátíðleikann í Mýrarhúsaskóla á dögunum þegar helstu persónur jólaguðspjallsins stigu á svið í hinum árlega helgileik sem fjórði bekkur skólans flytur.

Þetta var í fyrsta sinn sem helgileikurinn var sýndur í Seltjarnarneskirkju og sömuleiðis í fyrsta sinn sem allur árgangurinn treður upp í einni og sömu sýningunni. Um 50 börn létu ljós sitt skína í leik og söng og voru því ófáir höfuðklútarnir og mittisböndin sem þurfti að hnýta áður en María og Jósef gátu lagt upp í ferðina afdrifaríku til Betlehem.

Meðal listamannanna ungu var 30 barna englakór sem flutti hina fegurstu jólasöngva. Eins og engla er háttur var klæðnaðurinn kjóll og hvítt, nánar tiltekið drifhvítir fermingarkyrtlar sem kirkjan lét í té af þessu tilefni. Þar sem englunum hefur fjölgað töluvert frá fyrri árum þurfti hins vegar að ráðast í nokkuð umfangsmikla geislabaugaframleiðslu í aðdraganda sýningarinnar sem gekk með ágætum – í öllu falli þurfti ekki nokkur engill að líða skort á dýrðarljóma að þessu sinni.

Auk hinna himnesku herskara og ungu hjónanna sem áður var getið voru vitringarnir þrír á sínum stað sem og fríður hópur fjárhirða í litskrúðugum klæðum. Aðalpersónan, sjálft Jesúbarnið, lét sig heldur ekki vanta en hlutverk þess hreppti dúkkan Baby Born í ár, líkt og svo oft áður.

Það var ekki laust við að söngvarar og leikendur fyndu hvorutveggja fyrir tilhlökkun og kvíða fyrir flutninginn, enda meira en að segja það að hafa svo ábyrgðarmiklu hlutverki að gegna – að færa skólafélögunum jól í sál og sinn. Spennan var engu minni hjá áhorfendum sem voru úr 1. til 7. bekk skólans en þeir bíða þess ætíð með óþreyju að sjá þetta hátíðlega leikverk flutt á litlu jólunum.

Þá lagði töluverður hópur foreldra leið sína í kirkjuna í ár til að sjá englana sína troða upp – hvort sem þeir gegndu því hlutverki formlega eða ekki. Má gera því skóna að einhverjir hafi fundið fyrir tári læðast í hvarm og hjarta fyllast af stolti við að sjá barnið sitt og félaga þess fara með rullurnar sínar, enda muna margir eftir þeirri eftirvæntingu sem fylgdi flutningi viðlíka skólasýninga á eigin æskuárum.

Var það mál manna að uppfærslan hefði heppnast einstaklega vel í ár og að með henni hefði markmiðið náðst – að sá fræjum hátíðleika hjá bæði þátttakendum og áhorfendum sem vonandi nær svo að blómstra um jólin.