Baráttukona „Þetta eru lokaskrefin í þessari syrpu minni sem hófst með Náttúrutónleikunum í Laugardal fyrir tveimur árum,“ segir Björk.
Baráttukona „Þetta eru lokaskrefin í þessari syrpu minni sem hófst með Náttúrutónleikunum í Laugardal fyrir tveimur árum,“ segir Björk. — Morgunblaðið/Kristinn
Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is Björk Guðmundsdóttir, aðstandendur síðunnar orkuaudlindir.

Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

Björk Guðmundsdóttir, aðstandendur síðunnar orkuaudlindir.is og margir fleiri með „hjálparhendur, hyggjuvit og hugmyndaflæði“, eins og segir í tilkynningu, munu standa fyrir þriggja daga karaókímaraþoni í Norræna húsinu dagana 6., 7. og 8. janúar.

Tilefnið er sú áskorun á stjórnvöld að koma í veg fyrir söluna á HS Orku en áskorunin hangir uppi á orkuaudlindir.is. Þar er jafnframt skorað á Alþingi að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á orkuauðlindum Íslands og nýtingu þeirra.

„Jóhanna Sigurðardóttir sagði að ef 15 % kosningarbærra þegna skrifaði undir væri varla hægt að líta framhjá því,“ sagði Björk í stuttu fréttaspjalli í gær. „Okkur vantar bara 15.000 undirskriftir í viðbót og við ætlum að knýja á þær í þessu maraþoni.“

Björk segir hugmyndina hafa verið þá að færa áhersluna frá sér, sem hefur staðið í mikilli baráttu varðandi þessi málefni síðustu tvö ár eða svo, yfir á sjálfa þjóðina.

„Ég er að gefa boltann yfir á þjóðina. Þetta eru lokaskrefin í þessari syrpu minni sem hófst með Náttúrutónleikunum í Laugardal fyrir tveimur árum þar sem ég söng fyrir þjóðina. Nú er komið að henni. Ég vil líka setja smá-stuð í þetta. Þetta getur líka verið gaman, það þarf ekki að rexa og pexa út í eitt.“

Sjálfspilandi pípuorgel

Hún segir að fólk geti komið í Norræna húsið, skráð sig og sungið lag.

„Við verðum með karaókívélar, sjálfspilandi pípuorgel og líka píanó ef fólk vill gera þetta með gamla laginu. Ég lýsi líka hér með eftir íslenskum karaókílögum. Það er mikill skortur á þeim. Það vantar fleiri lög með Mannakornum og svona, jafnvel Purrki Pillnikk. Nei, ég segi svona...“

Björk segir að enn sé verið að skipuleggja viðburðinn og nánari upplýsingar verði gefnar upp innan skamms. „Það verða engin jólalög sungin enda allir komnir með ógeð á þeim á Þrettándanum. Ætli „Þorparinn“ verði ekki vinsæll? Sjálf er ég hrifnust af Gunna Þórðar, ég er svona að smíða minn lagalista núna. Það verða veitingar þarna þannig að það á ekkert að væsa um fólk. Það getur mætt á svæðið, skellt í sig einu brennivínsstaupi og rúllað upp einu lagi. Vonandi endum við svo öll saman í Ölveri, Glæsibæ. Það væri klassískt.“

Þeir sem vilja aðstoða Björk við að búa til banka með íslenskum karaókílögum geta sent henni „midi“-skrár af lögum sínum á stafraena@gmail.com eða sent póst í gegnum vefsíðuna orkuaudlindir.is.