Nýfæddur Jóel Færseth Einarsson
Nýfæddur Jóel Færseth Einarsson
Jóel Færseth Einarsson, sem fæddist á Indlandi nýlega og Alþingi veitti ríkisborgararétt á laugardag, hefur ekki enn fengið íslenskt vegabréf.

Jóel Færseth Einarsson, sem fæddist á Indlandi nýlega og Alþingi veitti ríkisborgararétt á laugardag, hefur ekki enn fengið íslenskt vegabréf. Ljóst er að hann mun verja fyrstu jólunum á Indlandi ásamt foreldrum sínum, þeim Einari Þór Færseth og Helgu Sveinsdóttur.

„Við vorum að berjast fyrir því að komast heim því pabbi minn lést á meðan við vorum úti. Hann var jarðsettur í gær. Eftir niðurstöðu Alþingis með drenginn okkar síðastliðinn laugardag vorum við mjög vongóð um að komast heim í jarðarförina hjá föður mínum. Það var ekki svo gott,“ segir Einar Þór.

Í forsætisráðuneytinu fengust þær upplýsingar að forsetinn hefði skrifað undir lögin í fyrradag. Þau voru síðan send til birtingar í Stjórnartíðindum.

Í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu fengust þær fregnir að málið væri í hefðbundnu ferli líkt og fjöldi laga sem samþykkt og staðfest hafa verið. Staðfesting laganna um veitingu ríkisborgararéttar barst fyrir hádegi í gær. Líklegt var talið að lögin yrðu birt milli jóla og nýárs.