Helgi K. Hjálmsson
Helgi K. Hjálmsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksviðs Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Forsvarsmenn samtaka eldri borgara segja marga þeirra vera afar uggandi um sinn hag. Þeir hafa krafist leiðréttingar á kjörum sínum, en segjast engin svör hafa fengið.

Baksviðs

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Forsvarsmenn samtaka eldri borgara segja marga þeirra vera afar uggandi um sinn hag. Þeir hafa krafist leiðréttingar á kjörum sínum, en segjast engin svör hafa fengið. Á sama tíma er aldurslágmark þeirra sem fá frítt í sund og strætó í Reykjavíkurborg hækkað.

„Í öllu góðærinu fyrir hrun mátti aldrei leiðrétta kjör eldri borgara, en stjórnvöld stálu þó ekki af okkur. En það gerir núverandi ríkisstjórn. Hún jók skerðingarnar,“ segir Helgi K. Hjálmsson, formaður Landssambands eldri borgara. „Skrefið var stigið til fulls 1. júlí í fyrra þegar grunnlífeyrir eldri borgara var tekjutengdur. Við lítum á það sem hreinan þjófnað, við vorum búin að greiða til þessara eftirlauna.“

Allar forsendur brostnar

Helgi segir að forsendur fyrir áætlunum fólks um afkomu sína á efri árum hafi brostið. „Það er litið á vexti og verðbætur sem hreinar tekjur. Ef Tryggingastofnun telur sig hafa greitt of mikið, fær fólk bakreikning. Fólk tekur við bótum frá Tryggingastofnun í góðri trú og býst alls ekki við því að þurfa að greiða þær til baka.“

Frítekjumark vegna fjármagnstekna er nú 8.220 krónur á mánuði. Helgi segir að það sé krafa eldri borgara að fá að eiga að minnsta kosti fimm milljónir á bankareikningum án þess að til skerðinga komi.

Landssamband eldri borgara lagði fram ályktun og kjarakröfur í október. Helgi segir að engin svör hafi borist við þeim. „Við krefjumst þess að þegar samið verður um lægstu laun gleymist eldri borgarar ekki. Við vorum búin að neita okkur um ýmislegt svo við værum ekki upp á aðra komin í ellinni.“

Verðtrygging er gleðiefni

Unnar Stefánsson, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík, segir að verðtrygging bóta, sem taka á gildi um áramótin, sé vissulega gleðitíðindi. „En okkur þykir það ekki vera stórmannlegt af borginni að hækka þann aldur, sem fær frítt í strætó og sund, úr 67 í 70 ára,“ segir Unnar og segist þess fullviss að sundiðkun eldri borgara leiði til umtalsverðs sparnaðar í heilbrigðiskerfinu. „Við erum að tala um nokkur hundruð manns á aldrinum 67-70 ára sem stunda sund reglulega, þetta geta varla verið háar upphæðir og alveg með ólíkindum að borgin skuli láta sig þetta varða,“ segir Unnar.

Frítekjumark

10.000

krónur á mánuði vegna tekna

úr lífeyrissjóði eru skattfrjálsar

8.220

krónur á mánuði í fjármagnstekjur eru undir skerðingarmörkum TR