Listamaðurinn Shawn Corey Carter, sem heimsfrægur eru undir nafninu Jay-Z; rímnasmiður og rithöfundur.
Listamaðurinn Shawn Corey Carter, sem heimsfrægur eru undir nafninu Jay-Z; rímnasmiður og rithöfundur.
Rapparinn Jay-Z lætur sér ekki nægja að vera einn vinsælasti tónlistarmaður í sögu Bandaríkjanna, hefur komið ellefu plötum á topp breiðskífulistans þar vestan hafs, heldur hefur hann haslað sér völl sem rithöfundur og á nú bók á metsölulista New York...

Rapparinn Jay-Z lætur sér ekki nægja að vera einn vinsælasti tónlistarmaður í sögu Bandaríkjanna, hefur komið ellefu plötum á topp breiðskífulistans þar vestan hafs, heldur hefur hann haslað sér völl sem rithöfundur og á nú bók á metsölulista New York Times – sjálfsævisögulega textabók. Árni Matthíasson arnim@mbl.is

Shawn Corey Carter, sem tók sér listamannsnafnið Jay-Z, hefur náð lengra í tónlistarmetasögunni en flestir aðrir og nægir að benda á það að fyrir síðustu jól sló hann sjálfum Elvis Presley við á bandaríska breiðskífulistanum, kom elleftu breiðskífunni á toppinn, en Elvis náði aðeins tíu. Hann ruddi svo enn nýjar brautir þegar ný bók hans, Decoded , skaust inn á metsölulista New York Times fyrir stuttu og situr þar nú í níunda sæti.

Jay-Z átti erfiða æsku, ólst upp við ömurlegar aðstæður í Bedford-Stuyvesant-hverfinu í Brooklyn og leiddist út í glæpi eins og flestir jafnaldrar hans, margoft handtekinn fyrir ofbeldisbrot og eiturlyfjasölu og -dreifingu. Tónlistin togaði í hann alla tíð, rímurnar, og hann var byrjaður að semja rímur barn að aldri og fór líka mjög snemma að troða upp sem rappari. Hann sendi frá sér fyrstu breiðskífuna 1996 og neyddist til þess að stofna eigin útgáfu til að koma henni út. Platan, Reasonable Doubt, fékk frábæra dóma og seldist afskaplega vel og segja má að saga Jay-Z hafi verið nánast samfelld sigurganga síðan.

Hipphopprímur eru ljóð

Í Decoded segir Jay-Z nokkuð frá þessum hluta ævi sinnar, en eins og nafnið ber reyndar með sér byggist bókin að mestu á því að Jay-Z tekur nokkrar rímur eftir sjálfan sig, greinir þær með tilliti til merkingar og segir sögur af sjálfum sér, lífinu og tilverunni, rekur einnig sögu hipphopps í gegnum árin, hverjar helstu hetjur hans hafi verið og hvaða áhrif þau hafa haft á hann.

Í bókinni segir Jay-Z að fyrir honum hafi vakað þrennt; í fyrsta lagi að sýna fram á það að hipphopprímur væru ljóð, þá að segja sögu kynslóðar sinnar og þess vals sem hún hafi staðið frammi fyrir í gegnum árin og loks að sýna það hvernig hipphopp hefur gefið honum og fleiri leið til að snúa sögum sínum á það form að allir geti meðtekið þær. Að því sögðu þá er bókin býsna ævisöguleg, enda hefur saga Jay-Z verið samofin sögu hipphopps frá því á áttunda áratugnum að hann sá stráka standa saman í hring á götuhorni og rímnasmið inni í hringnum.

Hann lýsir bókinni svo á vefsetri Amazon: „Þegar einhver frægur segist vera að skrifa bók búast allir við sjálfsævisögu; ég fæddist hér, ólst upp þar, þoldi eitt, elskaði annað, tapaði öllu og vann það aftur að lokum. En bókin er ekki um það. Ég hef aldrei getað hugsað línulega eins og má reyndar sjá á rímunum mínum. Þær fylgja rökum ljóðrænu og tilfinninga, ekki beinni línu vandaðs texta, og þannig er bókin.“