Sænska skáldkonan Maria Ernestam.
Sænska skáldkonan Maria Ernestam.
Eftir Mariu Ernestam Salka 2010, 384 bls.

Aðalpersónan í skáldsögu Mariu Ernestam er Eva sem lifði æsku sína hjá móður sem gerði líf hennar að helvíti. Sautján ára ákveður Eva að drepa móður sína og fjörutíu árum síðar rifjar hún upp liðna tíma.

Ernestam hefur vissulega hæfileika til að segja sögu, en því miður hefur hún lítið úthald, byrjar vel en endar illa.

Í upphafi er ákveðin spenna í sögunni. Setningin: „Ég var sjö ára þegar ég ákvað að drepa mömmu. Ég var sautján ára þegar ég lét til skarar skríða“ vekur áhuga og væntingar. Sannarlega er í þessari bók nóg af átökum, ást og hatri. Persónur eru ekki sérlega geðþekkar og virðast til alls líklegar. Móðirin er framan af áhugaverðasta persóna sögunnar og vel tekst að lýsa hinum margslungnu tilfinningum sem Eva ber til hennar. Allt virðist í nokkuð góðum gír hjá höfundi og lesandinn sér ekki fram á annað en að eiga eftir að una nokkuð glaður við sitt. En þá fer að síga á ógæfuhlið. Ástarsagan sem sögð er reynist vera óskaplega klisja, en enn verri er játning móðurinnar seint í verkinu. Þar með fellur bókin niður á billegt plan og festist þar. Höfundinum mistekst að skapa trúverðugt verk. Því miður, því þetta er bók sem byrjar ágætlega en reynist síðan allt of löng og klisjukennd.

Kolbrún Bergþórsdóttir