Gullvægt handbragðið stendur fyllilega fyrir sínu á úrvalsdiski Kammerkórsins Carmina.
Gullvægt handbragðið stendur fyllilega fyrir sínu á úrvalsdiski Kammerkórsins Carmina.
Hymnodia sacra. 23 íslenzk og erlend sálmalög frá endurreisnar- og barokktíma. Kammerkórinn Carmina og kammerhópurinn Nordic Affect. Stjórnandi, handritarýnir og útsetjari: Árni Heimir Ingólfsson. Hljóðritað í Langholtskirkju 29.6./6.-8.7. 2009.

Hymnodia sacra. 23 íslenzk og erlend sálmalög frá endurreisnar- og barokktíma. Kammerkórinn Carmina og kammerhópurinn Nordic Affect. Stjórnandi, handritarýnir og útsetjari: Árni Heimir Ingólfsson. Hljóðritað í Langholtskirkju 29.6./6.-8.7. 2009. Upptaka og eftirvinnsla: Sveinn Kjartansson. Heildartími: 63:45 mín. Útgefandi: Smekkleysa SMK 74.

Á aðeins sex ára ferli hefur kammerkórinn Carmina („ Kvæði (flt.) á latnesku) þegar verið hlaðinn lofi, m.a. frá plötutímariti plötutímaritanna Gramophone, fyrir undangenginn 33 laga hljómdisk sinn úr íslenzka 17. aldar sálmalagahandritinu Melodia (2007; SMK 56). Eftir nýjustu erlendu fregnum að dæma ætlar þessum diski sízt að farnast verr en hinum fyrri. Er hann líka vel að því kominn, því sönggæði hins tólf manna kórs (4-2-4-2 frá sópran til bassa) eru hvarvetna í toppflokki, hvort heldur allra radda í senn eða allt niður í sóló. Sömuleiðis eru fimm útsetningar kórstjórans, með ýmist bassalútuundirleik eða strengja, stílrænt smekklegar og hefðu vel mátt vera fleiri, enda spilgæðin í ágætu samræmi við sönginn.

Né heldur fæ ég betur heyrt en að upptökur Sveins Kjartanssonar uppfylli ströngustu kröfur um tærleika og jafnvægi, og heildarútkoman því erlendum þjóðhöfðingjum hin „sendilegasta“ gjöf, líkt og Einari Þveræingi þótti forðum íslenzkir haukar og hestar. Í fáum orðum sagt bráðþarft sýnishorn úr um hundrað laga handriti vestmannaeyska prestsins Guðmundar Högnasonar frá 1742 er nær allt frá 15. öld til samtímans.

Látum vera þótt mörg lög – e.t.v. flest – séu af erlendum toga, hvað þá raddsetningar þeirra (m.a. eftir Hans Leo Hassler (1564-1612)). Ef trúa má fróðlegum bæklingi Árna Heimis benda líkur til að flest lög disksins hafi samt hljómað sem næst þannig hér á landi áður en söngmennt lagðist af á ofanverðri 18. öld, og gefi sem slík trúverðuga mynd af tónlistarlífi landsmanna unz allt fór í kalda kol upp úr Móðuharðindum. Auðvitað að viðbættri listrænni upphafningu seinni og betur tónkunnandi tíma, enda ósennilegt að íslenzkir samtímasöngvarar Kirkjubæjarklerksins hafi t.d. náð óaðfinnanlegri inntónun þeirra Carminufélaga.

Heildarsvipurinn er að öðru leyti afar sannfærandi. Þar svífur yfir vötnum kristileg einlægni í samræmi við alvarlegri lífsviðhorf en við þekkjum í dag. Ugglaust hefði til fjölbreytniauka mátt velja staka viðfangsefni af glaðlegri toga – t.d. eitthvað í líkingu við meistaralega útsetningu Jóns Sigurðssonar bassaleikara á Immanúel oss í nátt fyrir Þrjú á palli á breiðskífunni „Hátíð fer að höndum ein“ (1971). En hér vó greinilega þyngra sagnréttur niður fyrri alda, og gullvægt handbragðið stendur fyllilega fyrir sínu á þessum úrvalsdiski.

Ríkarður Ö. Pálsson