Guðlaugur Victor Pálsson
Guðlaugur Victor Pálsson
Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Bikarmeistarar FH í knattspyrnu hafa rætt við Guðlaug Victor Pálsson, leikmann Liverpool og 21-árs landsliðsins, með það fyrir augum að fá hann í sínar raðir fyrir næstu leiktíð.

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Bikarmeistarar FH í knattspyrnu hafa rætt við Guðlaug Victor Pálsson, leikmann Liverpool og 21-árs landsliðsins, með það fyrir augum að fá hann í sínar raðir fyrir næstu leiktíð. Guðlaugur staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið í gær.

„FH hefur rætt við mig en ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég útiloka ekki neitt. Ég ætla mér að vera með á Evrópumótinu í sumar og verð að vera í góðu formi þegar það byrjar,“ sagði Guðlaugur Victor við Morgunblaðið í gær. Guðlaugur sagði að fleiri lið á Íslandi hefðu rætt við sig en hann vildi ekki nafngreina þau.

Fer aftur til Liverpool

Guðlaugur er samningsbundinn Liverpool fram á sumar en frá því í byrjun nóvember hefur hann verið í herbúðum enska C-deildarliðsins Dagenham & Redbridge þar sem hann er í láni. Lánssamningurinn rennur út 4. janúar og þá snýr Guðlaugur aftur til Liverpool.

„Þeir hjá Dagenham hafa spurt mig hvort ég vilji framlengja samninginn en ég hef ekki áhuga á því. Ég ætla að fara aftur til Liverpool og sjá svo til hvað gerist í framhaldinu,“ sagði Guðlaugur, sem hefur tekið þátt í tveimur deildaleikjum og einum bikarleik með Dagenham & Redbridge.

Guðlaugur og félagar eiga að taka á móti toppliði Brighton á öðrum degi jóla en Guðlaugur segir óvíst hvort hægt verði að spila á leikvangi félagsins, Victoria Road, vegna veðurs.