24. desember 1899 Hátíðasöngvar séra Bjarna Þorsteinssonar tónskálds voru fluttir í fyrsta sinn við aftansöng í Dómkirkjunni í Reykjavík, en bók með söngvunum kom út um sumarið.
24. desember 1899
Hátíðasöngvar séra Bjarna Þorsteinssonar tónskálds voru fluttir í fyrsta sinn við aftansöng í Dómkirkjunni í Reykjavík, en bók með söngvunum kom út um sumarið. Áður höfðu hátíðasöngvarnir verið fluttir í kirkjunni á Siglufirði og í Eyrarbakka- og Stokkseyrarkirkjum.
24. desember 1930
Útvarpað var frá aftansöng í Dómkirkjunni í Reykjavík í fyrsta sinn. Prestur var séra Bjarni Jónsson. Þessi hefð hefur haldist og einnig það að hafa hlé á undan.
24. desember 1932
Lestur jólakveðja hófst í Ríkisútvarpinu. Kveðjurnar voru „til almennings og einstakra manna“. Á Þorláksmessu árið eftir var gefinn kostur á kveðjum fluttum „af sjálfum þeim er senda“. Í jólakveðjunum máttu þá vera, auk jólaóska, „stuttar frásagnir um heimilishag og aðra einkahagi“.
24. desember 1967
Ljóðið „Ó, helga nótt“ eftir Sigurð Björnsson verkfræðing var frumflutt við aftansöng í Garðakirkju á Álftanesi. Ljóð Sigurðar við lag Adams hefur á síðustu árum orðið einn vinsælasti jólasálmurinn.Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson.