Einar Örn Gíslason einarorn@mbl.is Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) hefur ákveðið að aðhafast ekki frekar vegna fjármála Kópavogs, að því er fram kemur í tilkynningu frá sveitarfélaginu.

Einar Örn Gíslason

einarorn@mbl.is

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) hefur ákveðið að aðhafast ekki frekar vegna fjármála Kópavogs, að því er fram kemur í tilkynningu frá sveitarfélaginu. Í ágústlok sendi EFS Kópavogsbæ erindi og tíundaði áhyggjur sínar af fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

Þau áhyggjuefni sem sérstaklega voru til tekin voru mikil skuldastaða, framlegð (EBITDA) undir viðmiðunarmörkum og veltufé frá rekstri, sem ekki stæði undir afborgunum langtímalána. EFS miðar við það að heildarskuldir og skuldbindingar séu undir 150% af heildartekjum sveitarfélags og að framlegð frá rekstri sé á bilinu 15-20%. Framlegðarhlutfall A-hluta Kópavogsbæjar á árinu 2009 var töluvert undir því viðmiði eða 6,7%. Séu A og B-hlutar teknir saman er hlutfallið hærra, 12,2%, en samt sem áður undir viðmiðinu. Í lok árs 2009 voru heildarskuldir og skuldbindingar A og B-hluta sveitarfélagsins tæpir 43 milljarðar, en tekjur á árinu tæpir 18 milljarðar.

Milljarði varið í lækkun skulda 2011

Í tilkynningu Kópavogsbæjar kemur fram að skuldsetningarhlutfallið verði 248% vegna ársins í ár, en verði komið niður í 214% á næsta ári. Reksturinn eigi að skila einum milljarði til greiðslu skulda, „og svo áfram næstu árin.“ Til langs tíma er markmiðið að skuldir sem hlutfall af tekjum komist undir 200% árið 2014, þ.e. í lok yfirstandandi kjörtímabils.

Í kjölfar erindis EFS átti Kópavogsbær í samskiptum við nefndina og fundaði með henni 23. nóvember síðastliðinn um fjárhagsstöðuna. Sú vinna hefur nú borið árangur.

Guðríður Arnardóttir, formaður bæjarráðs, segir ljóst að ekkert megi út af bregða og halda þurfi stíft í taumana. „Stjórnendur bæjarins hafa sett sér skýr markmið og vandað til áætlanagerðar næstu þriggja ára. Það er afar brýnt að okkur takist að vinda ofan af miklum skuldum bæjarins sem mun létta reksturinn til lengri tíma,“ segir Guðríður í tilkynningu.