Öflugir Pálmi Freyr Sigurgeirsson og samherjar í Snæfelli hafa unnið tíu leiki af ellefu í deildinni í vetur.
Öflugir Pálmi Freyr Sigurgeirsson og samherjar í Snæfelli hafa unnið tíu leiki af ellefu í deildinni í vetur. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfuboltinn Kristján Jónsson kris@mbl.is Íslands- og bikarmeistarar Snæfells í Stykkishólmi tróna á toppi Iceland Express-deildar karla þegar jólahátíðin gengur í garð.

Körfuboltinn

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Íslands- og bikarmeistarar Snæfells í Stykkishólmi tróna á toppi Iceland Express-deildar karla þegar jólahátíðin gengur í garð. Árangur þeirra er frábær fyrri hluta vetrar, því í annars jafnri deild hafa þeir aðeins tapað einum leik af fyrstu ellefu.

Árangur Snæfells er ekki síst áhugaverður í ljósi þeirra breytinga sem urðu á liðinu. Hjartað var eiginlega rifið úr liðinu þegar Hlynur Bæringsson gerðist atvinnumaður í Svíþjóð. Einnig er Sigurður Þorvaldsson horfinn úr meistaraliðinu auk Martins Berkis sem stal senunni á köflum í úrslitakeppninni í vor. Ingi Þór Steinþórsson kom í Hólminn í fyrra og gerði gott lið að meistaraliði sem var fjöður í hans hatt. Hann sýnir nú aftur hversu snjall þjálfari hann er en undir öðrum kringumstæðum.

Afar jöfn deild

Rétt eins og í fyrra er deildin afskaplega jöfn og í raun með ólíkindum hversu lítill getumunur er í raun og veru á efstu og neðstu liðunum. Neðsta lið deildarinnar, KFÍ, er sem dæmi afskaplega vel mannað þótt það hafi ekki náð að sýna sínar bestu hliðar. Rétt eins og í fyrra verður baráttan um sæti í úrslitakeppninni gríðarlega spennandi. Í fyrra náðu Tindastóll og ÍR inn í úrslitakeppnina en Hamar og Fjölnir sátu eftir með sárt ennið en bæði liðin áttu ágætt tímabil. Slík staða gæti hæglega komið upp aftur að mörg lið verði að berjast um síðustu sætin inn í úrslitakeppnina. Þau gætu ennfremur verið að forðast fall á sama tíma.

Njarðvík í 10. sæti

Ef maður veltir því fyrir sér hvaða lið hefur komið mest á óvart þá er því fljótsvarað. Slæmt gengi Njarðvíkinga hefur komið mest á óvart enda eiga körfuknattleiksunnunnendur öðru að venjast en að sjá Njarðvík í 10. sæti í stigatöflunni. Liðið er með mjög öfluga leikmenn innanborðs og einn sigursælasti þjálfari landsins heldur um stjórnartaumana. Það hefur tekið tíma fyrir Njarðvíkinga að finna taktinn og kannski nýttist undirbúningstímabilið þeim ekki sem skyldi. Undirritaður efast um að Njarðvíkingar haldi áfram að koma á óvart og reiknar með því að þeir klifri hratt og örugglega upp töfluna.

Ágúst Björgvinsson og lærisveinar hans í Hamri hafa komið mjög á óvart og miklar breytingar á leikmannahópnum í Hveragerði komu ekki í veg fyrir góða byrjun liðsins í haust. Darri Hilmarsson og Ellert Arnarson hafa sýnt að það voru mistök hjá KR-ingum að nýta krafta þeirra ekki betur en raun bar vitni. Þeir félagar hafa látið verkin tala.

Frumraun Helga gengur vel

Einnig ber að hrósa Grindvíkingum en þeir hafa aðeins tapað tveimur leikjum. Slíkt hefði ekki komið á óvart í fyrra eða árið þar áður en að þessu sinni eru Grindvíkingar ekki með eins mikla breidd í hópi sínum. Auk þess er þjálfarinn, Helgi Jónas Guðfinnsson, að þreyta frumraun sína. Helgi og forveri hans, Friðrik Ragnarsson, hafa unnið í því að auka agann í leik Grindvíkinga með góðum árangri. Grindvíkingar gátu verið manna skemmtilegastir með þriggja stiga sýningar sínar á árum áður. Ekki er hins vegar líklegt til að skila titlum í hús að taka skot um leið og körfuhringurinn er í sjónmáli.

Ef nefna á fleiri lið sem hafa staðið sig vel þá hafa nýliðar Hauka spjarað sig og eru í 6.-7. sæti. Ef fram heldur sem horfir þá geta þeir barist um að komast í úrslitakeppnina en fyrirfram var ekki reiknað með öðru en að liðið yrði í fallbaráttu. Sauðkrækingar hafa á undanförnum vikum gert lítið úr spá forráðamanna þar sem þeim var spáð neðsta sætinu. Tindastóll er kominn á gott skrið og þar á bæ eru menn líklega ekki ánægðir með að þurfa að fara í frí. Frábært hjá þeim að ná sér á strik eftir skelfilega byrjun á leiktíðinni.

Staðan

Úrvalsdeild karla, IE-deildin:

Snæfell 111011096:98220

Grindavík 1192970:85818

Keflavík 1174963:92714

KR 11741066:95014

Stjarnan 1165963:94612

Haukar 1156934:97910

Hamar 1156889:92110

Tindastóll 1147868:9368

Fjölnir 1147976:9988

Njarðvík 1147853:9198

ÍR 1138976:10346

KFÍ 1129981:10854

*Átta efstu liðin að loknum 22 umferðum komast í úrslitakeppnina en tvö þau neðstu falla.