[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
The Box – Günter Grass **** Undanfarin ár hefur Günter Grass unnið að ævisögu sinni, byrjaði á Beim Häuten der Zwiebel fyrir fjórum árum, þá kom Die Box 2008 og síðasta bindið, Grimms Wörter, kom svo út á þessu ári.

The Box – Günter Grass ****

Undanfarin ár hefur Günter Grass unnið að ævisögu sinni, byrjaði á Beim Häuten der Zwiebel fyrir fjórum árum, þá kom Die Box 2008 og síðasta bindið, Grimms Wörter, kom svo út á þessu ári. Ensk þýðing á Die Box kom út í haust.

Í bókinni rekur Grass söguna frá sjöunda áratugnum og fram á þann níunda, en segir söguna þó ekki beint. Hann leggur nefnilega börnum sínum orð í munn, lætur þau segja söguna hvert á sinn hátt, átta börn úr ólíkum hjónaböndum og samböndum. Með þessu nær Grass að segja sögu sína óbeint, segja sögu pólitískrar baráttu, bókaskrifa, ferðalaga og fjölskrúðugra kvennamála. Leiðistef í gegnum bókina er Marie, eða Mariechen, eins og börnin kölluðu hana, fylginautur Grass öll árin með myndavélina sína, gamla Agfa-kassamyndavél frá kreppunni miklu, sem tók myndir af fortíð og framtíð. Eins og börnin rekja söguna var Mariechen gamla hægri hönd Grass, notaði töfravélina sína til að taka myndir af sögusviði bóka hans, hvort sem hún þurfti að skyggnast aftur áratugi eða aldir; Agfa-kassinn náði öllu. Var hún ein af ástkonum hans? Einhver varpar því fram en þeirri spurningu er aldrei svarað þótt Mariechen sé eina konan sem fylgdi Grass að segja alla ævi. Kannski varð hún móðurmynd, enda heldur eldri en hann – eitt barnanna hefur það eftir henni að ekki þurfi öll ást að vera líkamleg.

Við fáum líka að heyra hvernig það var að eiga föður sem var alltaf að – ég leik við ykkur á eftir, ég þarf bara að klára smávegis, var viðkvæðið alla tíð. Líka sjáum við hvernig hugmyndirnar urðu að bók, rotta varð að Rottunni, spraka að Sprökunni og svo má telja. Forvitnileg og ævintýraleg frásögn sem má kannski kalla ýkjur, en réttara þó að nota orðið skáldaleyfi.

Rosamund Lipton – Sister **½-

Þessi reyfari, sem mér skilst að sé fyrsta bók höfundar, hefur vakið mikla athygli í Bretlandi á árinu og selst mjög vel. Hún segir frá ungri konu sem snýr heim til Bretlands eftir margra ára dvöl í Bandaríkjunum þegar systir hennar týnist. Hún kemst snemma að því að þótt þær systur hafi verið samrýndar vissi hún ekki eins mikið um ævi systur sinnar og hún hélt. Þegar systirin finnst svo látin, eins og vofði yfir, veit hún þó nóg til að neita að trúa því að hún hafi svipt sig lífi og fer að leita að morðingjanum.

Fléttan í sögunni er býsna snúin, fátt, eða nokkuð, sem það sýnist og við sjáum ekki bara sífellt nýjar hliðar á systrunum, heldur líka á fólkinu sem þær umgangast. Lupton heldur vel á spöðunum að segja út bókina og meira að segja á síðustu metrunum, þegar enn einn snúningurinn verður á öllu saman, snúningur sem gerbreytir bókinni, gengur fléttan fyllilega upp.

Árni Matthíasson arnim@mbl.is