Jökulsá á Fjöllum Bólgnar upp í frostum.
Jökulsá á Fjöllum Bólgnar upp í frostum. — Morgunblaðið/RAX
Lögreglan og Vegagerðin fylgjast með krapastíflu sem hefur myndast í Jökulsá á Fjöllum neðan við brúna á hringveginum, skammt norðan við Grímsstaði á Fjöllum.

Lögreglan og Vegagerðin fylgjast með krapastíflu sem hefur myndast í Jökulsá á Fjöllum neðan við brúna á hringveginum, skammt norðan við Grímsstaði á Fjöllum. Áin þarf að bólgna talsvert mikið áður en fer að flæða yfir veginn að sögn Gunnars Bóassonar, vegaverkstjóra.

„Þetta er meinhægt eins og er,“ sagði Gunnar í gærdag. „Við erum að vona að þetta sleppi og fari ekkert upp á veg. Við vöktum hana áfram.“ Áin er stokkfreðin og að hlaupa upp. Hún á þó dálítið eftir áður en hún flæðir upp á veg. Gunnar sagði að ekki væri við því að búast að neitt gerðist skyndilega.

Hann sagði að vel geti verið að áin fari að ryðja sig. Í gær brast á með „hlýindum“ á Fjöllum. „Það er bara sex stiga frost, sem þykir ekki mikið hér á Fjöllum,“ sagði Gunnar þar sem hann var staddur á Grímsstöðum. Spáð er raunverulegum hlýindum á annan í jólum og vonaði hann að þetta slyppi til.

Fylgst verður með ánni áfram, að sögn Gunnars. Lögreglan á Húsavík sagði að ef stíflan væri talin ógna öryggi vegfarenda þá yrði strax gefin út tilkynning um það.