Eru jólin ekki alveg að fara að koma? spyrja börnin gjarnan stóreyg á aðventunni. Til að stytta þeim biðina, sem stundum virðist engan enda ætla að taka, er slegið upp jólaböllum í skólum, leikskólum og á vinnustöðum mömmu og pabba. Böllin hafa lítið breyst í gegnum tíðina. Grýla kíkir gjarnan í heimsókn og ekkert ball er nú án jólasveinsins. Bræðurnir íslensku kunna að kæta krakka enda hafa þeir marga mánuði til að undirbúa skemmtilegheitin.
Ómissandi á hverju balli er svo að syngja jólalögin. Þá ríður á að kunna textana en þegar upp er staðið er það þó ekki aðalatriðið, heldur að vera með og rugga sér kannski eilítið í lendunum.