Tæplega 10% Íslendinga ætla að snæða rjúpu um jólin.
Tæplega 10% Íslendinga ætla að snæða rjúpu um jólin. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samkvæmt nýjustu rannsóknum er rjúpan ekki lengur helsti jólamatur Íslendinga, þann sess skipar nú annar fugl, kalkúninn. Að vísu er rjúpan í öðru sæti, tæplega 10% Íslendinga ætla að snæða rjúpu um jólin.

Samkvæmt nýjustu rannsóknum er rjúpan ekki lengur helsti jólamatur Íslendinga, þann sess skipar nú annar fugl, kalkúninn. Að vísu er rjúpan í öðru sæti, tæplega 10% Íslendinga ætla að snæða rjúpu um jólin. Í þessum pistlum mínum hef ég aðeins minnst á kvæðið „Óhræsið“ eftir Jónas Hallgrímsson. Fræðimenn eru helst á því að kveikjan að þessu kvæði listaskáldsins góða hafi verið að skáldið hafi verið einmana og sett sig í hlutverk rjúpunnar, sem flýr undan fálkanum en er svo snúin úr hálsliðnum af húsmóðurinni á bænum þar sem engan annan mat er að fá. Fyrir um það bil fimm árum benti þýðandinn, veiði- og fræðimaðurinn Gylfi Pálsson mér á athyglisverðar upplýsingar um tilurð kvæðisins Óhræsið. Þessar upplýsingar er að finna í bókinni „Auðnahjón Hildur og Jón“, eftir Hrólf Ásvaldsson frá Ökrum í S-Þingeyjarsýslu. Eftir að hafa gluggað í þessa afar athyglisverðu bók tel ég að þar sé að finna mjög athyglisverðar upplýsingar um þetta fræga kvæði Jónasar Óhræsið. Hjónin Daníel Jónsson og Ingibjörg Eiríksdóttir bjuggu í Láfsgerði, koti á heiðarbrún sunnan og ofan við Einarsstaði í Reykjadal, frá vori 1829 þar til Daníel lést fyrir aldur fram í jólamánuðinum 1838. Ekkjan Ingibjörg bjó í Láfsgerði við þröngan kost með börn sín tvö, Davíð 12 ára og Ingibjörgu níu ára, sárafátæk og matarlítil. Snemma sumars 1839 er Jónas Hallgrímsson þarna á ferð og er á leið til Mývatns til náttúrufræðirannsókna.

Einn af fylgdarmönnum Jónasar var Sigurjón Jónsson frá Einarsstöðum, þá unglingur. Sigurjón mun hafa sagt skáldinu Jónasi þá sögu af Ingibjörgu, að hún hafi um veturinn drepið og étið rjúpu sem flúði undan fálka í hús hennar. Af þessu tilefni mun Jónas síðar hafa ort kvæðið Óhræsið. Gylfi Pálsson segist ekki vera viss um sannleiksgildi þessarar sögu. Að athuguðu máli tel ég þó talsverðar líkur á að þetta sé rétt. Bók Hrólfs Ásvaldssonar frá Ökrum „Auðnahjón, Hildur og Jón“ er einkar vel skrifuð og nákvæm. Margar heimildir eru til um að rjúpur hafi flogið inn í híbýli manna á flótta undan fálka. Mikið var af rjúpu í Þingeyjarsýslum á þessum tíma og voru þær talsvert veiddar. Rjúpurnar voru veiddar í snörur og skotnar með byssum, sem að vísu voru afar frumstæðar á þessum tíma. Rjúpurnar voru snaraðar á þann hátt að tveir menn gengu með kaðal á milli sín, svona fjögurra metra langan. Við kaðalinn voru hengdar snörur, oftast fléttaðar úr hrosshári. Veiðimennirnir reyndu svo að smokra snörunum yfir höfuð rjúpnanna. Þetta voru ekki afkastamiklar veiðar en ef voru mikil frost þá var rjúpan spök og lagnir veiðimenn gátu veitt talsvert af rjúpu með þessum hæti. Snöruveiðar á rjúpu urðu aldrei algengar hér á landi, algengara var að bjargfugl væri veiddur með snöru. Þó eru til heimildir um að rjúpur hafi verið veiddar með snöru vestur á fjörðum upp úr 1930. Hins vegar eru til nokkrar heimildir um að skáldinu Jónasi hafi þótt rjúpur góður matur og er ekki ósennilegt að listaskáldið góða hafi borðað rjúpur á aðfangadagskvöld.