Fimm tonna risafílaselur rís upp og ygglir sig ´á ströndinni.
Fimm tonna risafílaselur rís upp og ygglir sig ´á ströndinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ljósmyndir og texti: Ragnar Axelsson rax@mbl.is Að standa á ströndinni á Suður-Georgíueyju er undarleg tilfinning, það er eins og að vera í öðrum heimi. Við erum á leið til suðurheimskautsins og menn klípa sig í handlegginn til að athuga hvort þá sé örugglega ekki að dreyma. Allt er svo undarlegt.

Það er eitthvað undarlegt í loftinu, skringileg hljóð eins og í þokulúðrum hljóma í gegnum þokuna. Það glittir í ströndina og fleiri hljóð blandast við lúðrahljóminn. Sæljón og fílaselir 6 til 7 metra langir eins og risalirfur liggja og flatmaga á ströndinni, minni selir og mörgæsir dreifa sér út um allt. Lúðrasveitin sem gefur frá sér þessi vinalegu blásturshljóð sem óma úr öllum áttum koma frá kóngamörgæsum sem vagga um fjöruna langt upp í hlíðar lágra fjalla undir jöklinum.

Það er eins og fólk sé á gangi eins langt og augað eygir, þær eru um fjögur hundruð þúsund mörgæsirnar í þessari litlu fjöru á Suður-Georgíueyju. Fleiri en allir Íslendingar.

Við lendum gúmmíbátnum í fjörunni og göngum á land. Það er eins og að vera kominn í Jurassic Park (Júragarðinn) eftir Spielberg. Dýrin virða fyrir sér aðkomumenn og eru forvitin en láta sér fátt um finnast. Selirnir kíkja upp og gapa út í loftið, sumir þeirra hafa aldrei séð menn áður. Þeir leggjast til svefns aftur og stóru risalirfurnar eða fílaselirnir rétt gjóa augunum í átt til okkar, klóra sér letilega og gefa frá sér hrotuhljóð, varirnar frussa heil ósköp og þeir stynja og rymja og sofna aftur.

Liggja í gufuskýi

Þessir risa fílaselir sem geta orðið 5 til 6 tonn að þyngd og geta kafað niður á 1.600 metra dýpi í allt að tvo tíma í senn og þurfa því að hvílast eftir langa djúpköfun. Það rýkur úr þeim og þeir liggja í gufuskýi. Sæljónin gefa frá sér svolítinn vælutón eins og þau séu að kvarta yfir einhverju, af og til kastast í kekki milli karldýranna og þau höggva hvert til annars. Að standa á ströndinni er undarleg tilfinning, það er eins og að vera í öðrum heimi. Maður hugsar til Íslands, efri hluti landslagsins er eins og hér, fjöll og jöklar, en hvaðan kemur neðri hlutinn eiginlega? Það eru allt önnur dýr. Maður klípur sig í handlegginn til að athuga hvort mann sé örugglega ekki að dreyma. Allt er svo undarlegt.

Við erum fjarri allri byggð manna. Þetta er heimur dýranna á suðurhveli jarðar, á Suður-Georgíueyju, við erum á leið til suðurheimskautsins. Þessi skrýtni heimur sem er okkur flestum algjörlega framandi er laus við ógn af mannavöldum og dýrin skynja ekki grimmd mannsins, hér eru þau alfriðuð. Maðurinn sem er í raun eitt mesta rándýr jarðarinnar og efstur í píramídanum skelfir þau því ekki. Á þessum slóðum eru öll skotvopn bönnuð og það er bannað að koma nær dýrunum en 5 metra. Það er þó ekkert sem segir dýrunum að þau megi ekki koma nær manni en 5 metra.

Við læðumst varlega um ströndina á milli dýranna til að styggja þau ekki og virðum þau fyrir okkur. Það er eins og hópur af frímúrurum sé á fundi í kjólfötum eða lögreglukórinn á æfingu. Allt í einu stoppar fundurinn og ræðuhöldum lýkur, svo strunsa tignarlegar kóngamörgæsir af stað og stefna á aðkomumenn í einfaldri röð.

Við stöndum grafkyrr og horfum á þar sem hópurinn nálgast okkur gangandi eins og menn og veifar af og til litlum vængjum. Í einfaldri röð stoppa þær í eins metra fjarlægð og virða fyrir sér aðkomumenn, halla hausnum til vinstri, svo til hægri áður en þær ganga í burtu og hleypa næstu mörgæs að til að skoða þessa nýju tegund á ströndinni.

Virðing og umhyggja

Mörgæsirnar humma vinalega framan í okkur, gogga í stígvélin og virðast gefa samþykki sitt fyrir veru okkar á ströndinni. Þær eru að spjalla við Michel Rochard, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands og núverandi sendiherra pólanna. Michel stendur grafkyrr og spjallar við þær og bros liggur yfir andliti hans, það er greinilegt að hann ber umhyggju og virðingu fyrir dýrunum og umhverfi þeirra. Hljóðin frá dýrunum blandast saman og þau hljóma eins og kliður í stórborg, bara aðeins vinalegri.

Í hópnum á ströndinni eru vísindamenn sem hafa rannsakað hlýnun á norðurslóðum í nær 30 ár. Vísindamennirnir segja að suðurskautið sé líka að bráðna, hlýnun austan megin en vestari hlutinn heldur í horfinu. Fyrir tveimur árum brotnuðu tveir risaflekar úr ísbreiðunni, um 40 kílómetrar á kant, flutu burt og bráðnuðu.

Þetta er eins og að vera í teiknimynd. Lífið er einhvern veginn einfaldara, en samt búa þessi dýr við einhver verstu veðurskilyrði á jörðinni.

Skyndilega klýfur skerandi angistarvein loftið „Víííííííííííí, vííííííííí, úúúúú, víííííííí.“ Við lítum snögglega við og sjáum japanskan mann á harðahlaupum og þrjú karlkyns sæljón á eftir honum, maðurinn hafði hætt sér of nálægt þeim og þau voru að verja svæðið sitt. Japaninn hljóp í allar áttir, þó aðallega í norður, við erum svo sunnarlega á hnettinum, fyrst til vinstri, svo til hægri og svo eina þrjátíu metra beint með mengandi óhljóðum í eyrum dýranna. Sæljónin hlupu á eftir honum þar til hann komst í var undan þeim. Þá lulluðu þau hálfbrosandi til baka á yfirráðasvæðin sín. Eitt af því sem alls ekki má gera er að hlaupa undan sæljónum, það á að standa kyrr og slá saman tveimur steinum eða klappa saman höndunum. Þá stoppa sæljónin rétt hjá manni og hörfa á ný. Bit frá þessum dýrum getur valdið mikilli sýkingu og langt er að sækja læknishjálp á þessum slóðum.

Ný tegund af óhljóðum

Það kom fljótt ró á hópinn eftir þessa uppákomu en þetta var alveg ný tegund af óhljóðum á ströndinni. Það var alveg ljóst. Mörgæsirnar flautuðu nokkrar góðar rokur á Japanann sem var hálfskömmustulegur að sjá. Við erum í heimi dýra sem hræðast okkur ekki, fuglar koma meira að segja og kíkja á okkur. Skúmurinn, sem er sennilega eini fuglinn á Íslandi sem hefur drepið mann, kemur gangandi og goggar aðeins í myndavélina, hristir hausinn og gengur í burtu.

Xavier Desmier, franskur ljósmyndari, sem hefur dvalið mánuðum saman á Suðurskautslandinu í litlum kofa og myndað dýralífið segir mér sögur af lífinu á eyjunni. Hann var á Croiseyju í 4 mánuði og kafaði innan um dýrin og myndaði. Xavier var fyrstur manna til að kafa og mynda háhyrninga í kafi. Hann lýsir því þannig að þegar þeir sáu hann hafi hvalurinn komið æðandi að honum með opinn kjaftinn og staðnæmst aðeins hálfan metra frá honum. Hvalirnir héldu honum í sjónum í þrjá klukkutíma áður en þeir samþykktu hann. Þeir voru ekki vissir hvort þeir ættu að éta hann eða sleppa honum. Hlébarðaselirnir komu og færðu honum mörgæsir að éta og móðguðust ef hann hafnaði bráðinni. Sæljónin voru hin ljúfustu þegar þau voru í sjónum en gátu verið illvíg á landi.

Komst ekki út á morgnana

Eftir að hafa búið með dýrunum í fjóra mánuði var Xavier farinn að þekkja karakterana eins og um fólk væri að ræða. Það voru vinsamleg dýr sem hann gat komið til, klappað og talað við. Svo voru grimm dýr af sömu tegund sem ekki var komandi nálægt. Þeim var ekki treystandi. Ætli það sé ekki eins og hjá okkur mannfólkinu.

Suma morgna komst Xavier ekki út úr kofanum sínum vegna þess að 5 tonna þungur og 6 metra langur fílaselur, sem hann hafði vingast við, lagðist fyrir framan útidyrnar. Það gat tekið á að bíða í þrjá til fjóra klukkutíma eftir því að selurinn færði sig. Allt sem Xavier sagði gat vel staðist.

Á leið af ströndinni er selur orðinn ástfanginn af myndavélatöskunni minni sem ég hafði skilið eftir við bátinn til að vera léttari á göngu um fjöruna. Hann liggur brosandi og heldur utan um töskuna sem var komin á hvolf og öll útötuð í sandi. Það var eins og að slíta úr honum hjartað að reyna að losa töskuna. Selurinn eltir mig smástund og horfir bænaraugum á mig: „Ekki taka töskuna.“ Það var engu líkara en hann hefði krækt sér í fegurðardrottningu. Með lítilli gleði tek ég af honum töskuna en það er algjörlega bannað að skilja nokkurn skapaðan hlut eftir á suðurskautinu.

Ég geng áfram og gái ekki að mér því allt í einu rís upp fyrir framan mig rymjandi risi á hvolfi, ég hafði næstum stigið ofan á afturhreifana á honum. Yfirleitt snúa þeir sér stirðbusalega við, opna kjaftinn og rymja á mann til að sýna að maður sé nú ekkert sérlega velkominn en í þetta skiptið snýr hann upp á sig og horfir rauðeygður á mig á hvolfi. Við horfumst í augu smástund, báðir grafkyrrir. Hvorugur lítur undan. Ég smelli af honum nokkrum myndum vitandi að ég fer hraðar yfir en hann og mun því sleppa ef hann gerir árás. Þetta fór betur en á horfðist, annar risaselur kemur of nálægt og þeir fara að kýtast um kerlingarnar sínar, urra og höggva hvor í annan þar til annar þeirra flýr af hólmi.

Þar sem Endurance brotnaði

Við siglum áfram á aðrar strendur á þessari ævintýraeyju, eyjuna sem Shackleton gekk yfir ásamt tveimur öðrum til að bjarga mönnum sínum sem hírðust undir árabátum á Fílaeyju á Suðurskautsskaganum og biðu í von og óvon eftir því að þeim yrði bjargað eftir að skip þeirra, Endurance, brotnaði þar sem það fraus fast í ísnum. Við siglum um Wedel-haf á slóðir Endurance og litlir ísjakar og stórir mæta okkur þegar nær dregur heimskautaskaganum. Litlar mörgæsir eru í hópum hlaupandi um jakana og einstaka selir liggja og hvíla sig.

Siglt er á gúmmíbátnum undir traustri stjórn heimskautafarans og ævintýramannsins Nikolais Dubreuil sem er öryggið uppmálað. Við lendum á litlum ísjaka með litlum adelie-mörgæsum. Þær eru minni en kóngamörgæsir, svolítið örar í hreyfingum en vinalegar. Við getum ekki stoppað lengi því vindinn er að herða.

Við Brown Bluff-klettinn á að reyna að fara í land, Nikolas siglir á land þar og kannar aðstæður en líst ekki á blikuna. Reynsla hans af veðrinu og innsæi segja það ekki öruggt. Eftir nokkrar mínútur á ströndinni, þegar vindhraðinn var kominn í hátt í 60 m/s hraða, kallaði Nikolas til mín og bað mig að taka myndir strax og þær margar. „Við getum ekki stoppað hér. Það er að gera vitlaust veður.“

Gestkvæmt á ströndinni

Snjórinn rýkur á ströndinni og mörgæsir koma kjagandi til að kíkja á okkur í einfaldri röð, selur skríður á land og leggst til svefns. Mörgæsirnar vagga til hans og kíkja á selinn eftir að hafa skoðað okkur. Það er gestkvæmt á ströndinni þennan dag, en það herðir bara veðrið. Við rjúkum í bátana og siglum á móti vindinum í um tuttugu mínútur, það gefur yfir bátinn og Frakkarnir fagna þegar einhver einn þeirra fær meiri gusu yfir sig en annar. Það er ekki þurr þráður á mönnum þegar um borð í skipið er komið en létt yfir öllum. Frakkarnir eru greinilega afkomendur mikilla sægarpa, það er varla hægt að vera með öruggari mönnum við þessar aðstæður.

Vísindamaður sem var í rannsóknarstöð í fjórtán mánuði á suðurskautinu rifjaði upp að það var nánast aldrei farið út fyrir rannsóknarhúsin, ekki einu sinni niður í fjöru sem var í 300 metra fjarlægð, því sterkur fallvindurinn af jöklinum gat skollið á frá logni yfir í 200 m/s vindhraða á tveimur til þremur mínútum. Hafís brotnaði upp á sjónum og fauk eftir haffletinum eins og servíettur og eirði engu. Um leið og veðrinu slotaði fraus sjórinn um leið á ný.

Jean Babtiste Strobel, franskur náttúrufræðingur, lýsir einverunni þannig að hann hafi fengið hálfgerðar martraðir í fimm ár eftir þessa einveru og aðstæður svona lengi. Upp í hugann koma heimskautafararnir sem kepptust við að verða fyrstir á pólinn. Þvílíkt þrekvirki það hefur verið. Sumir komust á pólinn, eins og Scott, en týndu lífi á leiðinni til baka. Það hlýtur að hafa verið nöturlegt að hafa rekist á búðir Roalds Amundsens sem sýndu að hann kom fyrstur á pólinn. Aðrir sluppu með skrekkinn eftir miklar þrekraunir eins og Sir Ernest Shackleton sem sneri við til að bjarga mönnum sínum þegar hann sá fram á það skammt frá pólnum fyrstur manna að þeir mundu ekki ná til baka á lífi. Shackleton valdi lífið og sneri við. Pólfarar á þessum tímum urðu að treysta á sjálfa sig. Það var enginn til að bjarga þeim.

Sama afrek og áður

Íslendingar hafa keyrt þar á jeppum en einungis þrír Íslendingar hafa gengið suðurpólinn. Þeir Ólafur Örn Haraldsson, Haraldur Örn, sonur hans, og Ingþór Bjarnason. Ganga þeirra, 1.086 kílómetrar, var sama afrek og fyrri pólfara í stöðugum stormi, beint í fangið í 51 dag, í einhverju fjandsamlegasta umhverfi sem hægt er að hugsa sér. Í næstu grein förum við í fótspor Shackletons, þess merka manns, og ævintýra hans.