Karakter Forsíðan sem Brynjar hannaði .
Karakter Forsíðan sem Brynjar hannaði .
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Vöruhönnunarneminn Brynjar Sigurðarson var valinn af þekktum, frönskum vöruhönnuðum, bræðrunum Ronan og Erwan Bouroullec, til þess að hanna forsíðu janúarheftis hönnunartímarits Wallpaper, sérstakrar útgáfu þess sem dreift er í takmörkuðu upplagi til áskrifenda og helgað er efnilegum nemendum ýmissa list- og hönnunargreina, nánar tiltekið, næstu kynslóð eins og það er kallað.

Brynjar útskrifaðist frá vöruhönnunardeild Listaháskóla Íslands vorið 2009 og hélt þaðan í meistaranám í vöruhönnun við lista- og hönnunarháskólann ECAL í Lausanne í Sviss. Þar komu fyrrnefndir hönnuðir auga á hann og leist vel á hönnun hans, en nokkrum verka hans eru gerð skil í tímaritinu.

Viðurkenning

„Þema blaðsins núna er „The Next Generation“ og þeir [sem sjá um Wallpaper] báðu fræga hönnuði og myndlistarmenn að mæla með einum hönnuði, ungum hönnuði sem gæti gert kóverið,“ segir Brynjar. Hönnuðirnir frönsku hafa hannað fyrir stór fyrirtæki á sviði vöruhönnunar, m.a. Vitra, og séð um innanhússhönnun fyrir verslanakeðjur á borð við Camper. Bouroullec-bræður báðu Brynjar að senda sér möppu með myndum af verkum sínum og völdu hann í kjölfarið. En hvað er á forsíðu tímaritsins?

„Ég var beðinn að gera eitthvað sem átti að tákna næstu kynslóðina og mér fannst það hálfkjánalegt, þannig séð, þannig að ég bara lék mér eitthvað. Ég var með skanna og einhvern gervifeld og spýtu sem ég fann úti í garði og raðaði þessu saman í einhvern karakter,“ segir Brynjar. Hann lýkur meistaranáminu næsta vor og segist ekki vita hvað tekur þá við.

– Það hlýtur að vera gott fyrir ferilskrána að hafa fengið þetta verkefni hjá Wallpaper?

„Jú, þetta er náttúrlega svaka virðing og líka að Bouroullec-bræður séu hrifnir af því sem ég er að gera.“

Vefsíða Brynjars: biano.is