Auður Óperuefnið kemur best út, oft með glæsibrag, að mati rýnis.
Auður Óperuefnið kemur best út, oft með glæsibrag, að mati rýnis. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
16 sígræn dægurlög og óperettuaríur í útsetningum Sigurðar I. Snorrasonar og Þóris Baldurssonar. Auður Gunnarsdóttir sópran og kammerhópurinn Salon Islandus. Tekinn upp í Stúdíó Sýrlandi Vatnagörðum af Sveini Kjartanssyni og Þóri Baldurssyni. Útgáfa: Adamus10, 2010. Lengd (óuppg.): 58:29.

Titill þessa nýútkomna geisladisks hljóðar Little Things Mean a Lot eftir upphafslaginu, og minnir auðvitað á samnefnt glansnúmer Guðrúnar Á. Símonar heitinnar. Sú fjölhæfa söngkona var með þeim síðustu hérlendu til að glissa á milli tóna af sannfæringu, þótt slíkt þyki nú gamaldags enda hvergi áberandi í meðferð Auðar Gunnarsdóttur. Má samt ímynda sér að heitinu, ásamt dæmigerðu vinsælu efnisvali hljómdisksins (þar af fjórum austurrískum óperettuaríum eftir Kálmán, Stolz og Lehár), sé öðrum þræði ætlað að heiðra eftirminnileg efnistök Guðrúnar á „léttara rólinu“.

Að fara í þann skó er hins vegar hægara sagt en gert, og hefði nálægari söngupptaka og mýkri „ambíens“ en hér er að heilsa eflaust bætt úr skák. Satt að segja furðaði mig stundum hvað orðið hafði af dagfarshlýrri sópranrödd Auðar, sérstaklega í dægurlaga- og söngleikjadeildinni – jafnvel þótt hún, líkt og flestar íslenzkar óperuraddir, hafi sjaldnast til að bera þá þéttu brjósttónafyllingu sem hæfir léttari meirihluta lagavalsins. Fyrir vikið kemur óperettuefnið bezt út – og m.a.s. oft með glæsibrag.

Í ensk-amerísku „musical“-lögunum tekst henni þó víða furðuvel upp af óperumenntaðri söngkonu að vera, þó að frelsi í hendingamótun sé skiljanlega talsvert fra því sem við eigum að venjast frá vestrænum klassakraunurum á við Lindu Ronstadt. Það hefur þó sízt aftrað alþjóðlegum óperustjörnum eins og Renée Fleming o.fl. frá að feta sömu vandrötuðu hjáleið – með að vísu misjöfnum árangri.

Útsetningar skiptast nokkuð jafnt milli Sigurðar I. Snorrasonar (oftast eldri lög og óperettur) og Þóris Baldurssonar (Broadway og önnur klassísk dægurlög) og eru yfirleitt vel útfærðar. Hljóðfæraleikurinn sömuleiðis, enda þótt klassísku sinfóníuspilararnir verki að vonum hálfstirðir í sveiflumestu númerum. T.a.m. er augljóst að Sigrún Eðvaldsdóttir er öllu meiri sígaunafiðlari en djassari, og varla við öðru að búast. En hvað sem því og öðru líður er þessi „easy listening“-diskur almennt hinn áheyrilegasti og mörgum líklegt eyrnayndi.

Ríkarður Ö. Pálsson