Gunnar Thoroddsen var kallaður „silkitunga íhaldsins.“ Það hljómar ekki eins og hrós, en var það. Gunnar var fremstur pólitískra ræðumanna á sinni tíð. Og sú tíð var ekkert blíðalogn í baráttunni.

Gunnar Thoroddsen var kallaður „silkitunga íhaldsins.“ Það hljómar ekki eins og hrós, en var það. Gunnar var fremstur pólitískra ræðumanna á sinni tíð. Og sú tíð var ekkert blíðalogn í baráttunni. Stormarnir voru harðir og stórudómarnir fylgdu þeim veðragný. En Gunnar hélt sínu lagi og náði samt athygli. Kurteisi hans og háttvísi var viðbrugðið en röksemdir hans náðu betur í gegn en þeirra sem fóru geyst. Það sást að mikils mætti af Gunnari vænta. Hann var afburðamaður. Kristján Eldjárn og hann „dúxuðu“ á lokaprófi í menntaskóla. Tæpum fjórum áratugum síðar tókust þeir á um hvor skyldi sitja á hefðarstóli Bessastaða og svo útsmogin voru örlögin að síðasta verk Kristjáns forseta var að skipa Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra í ríkisstjórn, sem ýmsum þótti illa til stofnað.

Nýleg ævisaga Gunnars Thoroddsen eftir Guðna Jóhannesson er athyglisverð, ekki einvörðungu vegna þess hlutverks sem Gunnar hafði í íslenskum stjórnmálum, heldur vegna þess að Gunnar leggur til sögunnar minnisbrot og dagbókarfærslur sem varpa ljósi á sögu, sem var önnur en ætlað var. Þau skrif staðfesta margt af því sem menn höfðu gefið sér um tilgang Gunnars og metnað. En metnaðurinn hefur frá fyrstu tíð verið afl hans og drifkraftur. Sá metnaður uppfylltist um margt vegna gáfna Gunnars og hæfileika, en einnig vegna staðfestu. Hann missti aldrei sjónar á markmiðum sínum. En aldrei verður vitað til fulls hvað hefði orðið hefði þjóðin fengið að njóta hæfileika Gunnars við bestu skilyrði.

Forsetakosningar í landinu 1952 fylgdu Gunnari alla tíð. Forystumenn stærstu flokka þjóðarinnar höfðu ákveðið að styðja sr. Bjarna Jónsson, þjóðfrægan höfuðborgarprest, til embættisins. Þótti það val sýna að hinum allsráðandi foringjum þætti lítið til „puntembættisins“ koma og ákvörðun þeirra væri neikvæð viðbrögð við framboði Ásgeirs Ásgeirssonar. Gunnar, þá vinsæll borgarstjóri, fór gegn ákvörðun Ólafs Thors og studdi tengdaföður sinn sem forseta. Sumir töldu það svik sem aldrei yrðu fyrirgefin. Til þeirra atburða má rekja síðari ágreining við Gunnar og einnig að nokkru það afhroð sem hann beið í forsetakosningum 1968. Þar kom þó einnig til farsæll mótframbjóðandi, viðreisnarstjórnin var í andbyr og róttækir straumar fóru um þjóðfélagið.

Gunnar var þá sendiherra í Danmörku. Þangað fór hann til að skapa fjarlægð frá löngu stjórnmálavafstri, segja upp löngum vinskap við Bakkus og til að undirbúa forsetakjör. Gunnar vildi nú heim og varð ýmsum órótt og til ófriðar dró. Sviplegt fráfall Bjarna Benediktssonar 1970 breytti stöðunni og Gunnar sá leið opnast inn í íslensk stjórnmál á ný. Jóhann Hafstein axlaði forystuhlutverkið í flokknum. „Varaformennska var laus,“ eins og Gunnar orðaði það. Því embætti hafði hann gegnt og því sjálfsagt að sækjast eftir því á ný. En í millitíðinni hafði Geir Hallgrímsson mætt til leiks, virtur borgarstjóri í Reykjavík sem margir horfðu til sem framtíðarleiðtoga flokks. Allt rétt, sagði Gunnar, hans tími kemur, hann getur beðið, en ég ekki. Geir vann varaformannskjörið, þar sem hart var tekist á. En munurinn varð svo naumur að ljóst þótti að Gunnar hlyti að sitja nærri öndveginu hvað sem þessum úrslitum liði. Hófust því deilur og átök víða innan flokks. Gunnar varð ráðherra á ný og þegar örlögin blésu enn til breytinga fékk hann loks varaformannsembættið. Stórsigur virtist blasa við Sjálfstæðisflokknum haustið 1979 eftir einhverja verstu vinstristjórn sem setið hafði. En stefnumörkun flokksins sem var skýr og skynsamleg hentaði illa til kosninga og frambjóðendur flokksins hlupu frá henni hver sem betur gat. Vonirnar brugðust og skilyrði til skaplegrar stjórnarmyndunar urðu afleit. Togstreita innan stærsta flokksins bætti ekki úr.

Svo fór eftir langt stjórnarmyndunarþref, sem þótti orðið stjórnarkreppa, að Gunnar bauðst til að leggja með sér nokkra félaga úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins og sjálfan sig í forsæti ríkisstjórnar. Steingrímur Hermannsson, Ólafur Ragnar og Svavar Gestsson töldu að yrði þetta látið eftir Gunnari myndi Sjálfstæðisflokkurinn sundrast og aldrei ná sér. Það væri tilvinnandi, þótt þjóðarhagur væri í veði. Allir vita hvernig fór. Verðbólga varð 80 prósent á einu ári og 120 prósent miðað við þrjá mánuði.

Sjálfstæðisflokkurinn engdist með formanninn sem leiðtoga stjórnarandstöðunnar og varaformanninn sem forsætisráðherra. En hann klofnaði ekki. Geir lét ekki undan kröfum um að víkja „svikurunum“ úr flokknum. Gunnar studdi myndarlega sinn flokk í borgarstjórnarkosningum 1982 þar sem hreinn meirihluti vannst á ný.

Gunnar náði því takmarki að verða forsætisráðherra. En hann hafði engan raunverulegan bakstuðning í þinginu. Hann var því sem fundarstjóri í ríkisstjórn og talsmaður út á við fremur en leiðtogi landsins. Virðingar naut hann og vinsælda. En þjóðin fékk aldrei að sjá til þess mikla hæfileikamanns, Gunnars Thoroddsen, í hlutverki forsætisráðherra, með óskoraðan stuðning flokks síns. Og það er eftirsjá að því. Gunnars er á þessum degi minnst með hlýju.