Leifur Sveinsson lögfræðingur hefur sagt í mín eyru: „Ef saga er góð, þá er hún sönn.“ Þetta er ekki fjarri lagi.

Leifur Sveinsson lögfræðingur hefur sagt í mín eyru: „Ef saga er góð, þá er hún sönn.“ Þetta er ekki fjarri lagi. Stundum eru sögur um einstaklinga ekki nauðsynlega sannar í strangasta skilningi, en þær veita hins vegar ómetanlegar upplýsingar um þá mynd, sem mótast hefur af fólki.

Sumar sögurnar, sem sagðar eru af Tómasi skáldi Guðmundssyni, eru til dæmis alþjóðlegar flökkusögur. En ástæðan til þess, að þær eru heimfærðar upp á Tómas, er, að þær eru eins og sniðnar fyrir hann. Þær eru Tómas, ef svo má segja.

Ein sagan er af því, þegar Tómas var nýkominn af sjúkrahúsi, horaður, fölur og tekinn. Hann hitti Harald Á. Sigurðsson leikara á förnum vegi, en Haraldur var í góðum holdum. Haraldur sagði glaðhlakkalega: „Þegar maður sér þig, hvarflar að manni, að það hljóti að vera hungursneyð í landinu.“ Tómas svaraði að bragði: „Og þegar ég lít á þig, finnst mér, að hún hljóti að vera þér að kenna.“

Þetta er vitanlega flökkusaga, sem hefur verið sögð um marga fræga menn, til dæmis Alfred Hitchcock (sem var afar gildvaxinn) og George Bernard Shaw (sem var mjög grannur).

Ef til vill hefur það verið í aðdraganda þessarar sjúkrahússvistar skáldsins, sem vinur þess sagði áhyggjufullur: „Þú ert þó ekki að deyja, Tómas?“ Tómas svaraði: „Nei, það skal verða það síðasta, sem ég geri!“ Það skemmir ekki söguna, að hið sama er haft eftir Palmerston lávarði, sem var forsætisráðherra Breta á nítjándu öld.

Ég kannast hins vegar ekki við neina erlenda fyrirmynd þriðju sögunnar af Tómasi. Læknir einn hafði sýnt honum ljóð eftir sig. Tómas sagði: „Ekki hafði ég hugmynd um, að þú fengist líka við að yrkja.“ Læknirinn sagði hógvær: „O, ég geri það svona til að drepa tímann.“ Tómas var snöggur til svars: „Jæja, hefur þú enga sjúklinga?“ Gaman væri að vita, hvort einhverjir lesendur vita frekari deili á þessari sögu. Og hver skyldi læknirinn hafa verið?

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesg@hi.is