Kristján Pétursson, fv. deildarstjóri Tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli, fæddist á Steini á Reykjaströnd í Skagafjarðarsýslu l7. maí l930. Hann andaðist á Landspítalanum 4. janúar 2011.

Útför Kristjáns fór fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík 13. janúar 2011.

Kveðja vil ég vin minn Kristján Pétursson. Við kynntumst fyrir hálfum öðrum áratug og áttum síðan margar góðar og eftirminnilegar stundir á golfvöllum og í skíðabrekkum. Kristján átti þá að baki langan og merkilegan feril sem lögreglumaður og síðar deildarstjóri Tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli. Hann var þekktur fyrir rannsóknir sínar á sakamálum sem sum hver voru þau stærstu á þeim tíma. Hann var einnig þekktur fyrir baráttu sína gegn innflutningi á fíkniefnum til landsins. Vegna rannsóknanna og skrifa í dagblöð var oft stormasamt um hann. Valdamenn og þeir sem í hlut áttu í sakamálum sóttu að honum. Titillinn á bókinni „Margir vildu hann feigan“ sem hann skrifaði árið 1990 segir sína sögu. Fjórum árum síðar skrifaði hann bókina „Þögnin rofin“. Í bókunum segir hann frá glímu sinni við sakamenn og embættismenn og lýsir þeim lífsháska sem hann lenti stundum í við störf sín. Kristján lét verulega að sér kveða í þjóðfélagsmálum. Eftir hann liggja fjölmargar greinar í dagblöðum. Síðustu árin hélt hann úti eigin bloggsíðu.

Hann gekk snemma til liðs við Alþýðuflokkinn og fylgdi samherjum sínum í þeim flokki síðar í öðrum samtökum þeirra. Kristján var mikill íþróttamaður alla sína tíð. Um tvítugsaldur var hann meðal fremstu frjálsíþróttamanna í Keflavík. Hans besta grein var kringlukastið. Árið 1950 bætti hann Suðurnesjametið í 40,37 m. og árið eftir í 41,88 m. Hann var ágætur skíðamaður. Um árabil stóð hann fyrir hópferðum á skíðaslóðir erlendis og kenndi þá mörgum. Oft bauð hann mér með sér í Skálafell eða í Bláfjöllin. Þótt hann væri kominn vel á áttræðisaldurinn renndi hann sér niður brekkurnar af slíkri djörfung að mér þótti stundum nóg um. Og til þess að þurfa ekki að sjá hann geysast fram úr mér á leiðinni niður brekkurnar kaus ég venjulegast að láta hann fara á undan mér niður. Kristján stundaði líka golfíþróttina áratugum saman. Hann var frumkvöðull að stofnun Golfklúbbs Suðurnesja árið 1964. Síðar gekk hann í Golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar og lék sitt golf á velli klúbbsins svo til daglega yfir sumartímann, a.m.k þau ár sem við áttum samleið. Á vetrum æfði hann sig innanhúss því alltaf var hann að bæta sveifluna og púttin. Hann var góður kylfingur og síðasta áratug eða svo í hópi bestu kylfinga landsins á hans reki.

Næsta sumar verður Kristjáns saknað á golfvellinum af mörgum félögum hans. En minningin um spennandi viðureignir mun lifa. Það var gaman að spila við hann. Keppnisgleðin var mikil. Bestur var hann þegar mikið lá við, t.d. þegar hann þurfti að ná góðu innáhöggi eða setja niður langt pútt til að tapa ekki holu eða leik. Þá gat hann verið ótrúlega seigur.

Kristján kunni tök á fleiru en íþróttum. Hann var hagmæltur og mælti fram kveðskap sinn við ýmis tækifæri. Þegar konan hans átti merkisafmæli fyrir nokkrum árum orti hann ljóð til hennar á ensku og samdi fallegt lag við það! Honum var ekki fisjað saman. Hans verður lengi minnst.

Ingimar Jónsson.

Kristján Pétursson var einn af stofnendum Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar (GKG). Hann var ákaflega ötull golfari og það voru ekki margir dagar á sumri sem féllu úr hjá honum á golfvellinum. Hann kom venjulega á golfbílnum sínum og spilaði gjarnan mestan hluta dagsins. Þeir voru margir sem hann var búinn að leiðbeina í golfinu og hann virtist bæði hafa yndi og næga þolinmæði til að kenna öðrum sem styttra voru komnir í íþróttinni. Kristján hafði mikinn áhuga á innra starfi klúbbsins og á fundum kom hann oft með athyglisverða punkta og hugmyndir um hvernig hlutirnir gætu verið með öðrum hætti. Þannig eiga menn að vera og slíkir menn eru öllum félögum dýrmætir. Það er mikill sjónarsviptir að Kristjáni af golfvellinum og vitaskuld munum við félagar hans sakna vinar í stað.

En það eru fleiri sem munu sakna Kristjáns, því hann var mikill náttúruunnandi og bar mikla umhyggju fyrir fuglunum sem á vellinum voru. Endurnar á vellinum þekktu greinilega bílinn hans því þær komu alltaf kjagandi til hans þegar hann kom á vissar brautir vallarins, enda var hann gjarnan með einhverja brauðmola til að gefa þeim. Það verða því ekki bara við félagar hans í GKG sem söknum hans heldur líka fuglar himinsins sem sjá á eftir góðum vini og félaga.

Ég vil með þessum fáu orðum færa Kristjáni bestu þakkir fyrir samveruna í GKG og sendi fjölskyldu hans allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðmundur Oddsson,

formaður GKG.

Fallinn er frá Kristján Pétursson, fyrrverandi deildarstjóri á Keflavíkurflugvelli, eftir stutt veikindi. Kynni okkar hófust eftir að ég réðst til starfa hjá bæjarfógetanum í Keflavík árið 1971 en þrátt fyrir að við störfuðum ekki hjá sama embættinu lágu leiðir okkar víða saman næstu árin þar á eftir. Að sjálfsögðu hafði ég heyrt mannsins getið áður enda ekki hjá því komist þar sem hann var áberandi í opinberri umræðu og þá sérstaklega þegar kom að fíkniefnamálum. Kristján hafði opinberlega varað við þeirri hættu sem af þessu nýja efni stafaði og taldi ástæðu til að sinna forvörnum og leggja áherslu á rannsókn fíkniefnamála. Segja má að á brattann hafi verið að sækja fyrir hann og þá sem þannig töluðu þar sem almennt var litið svo á, ekki síst af mörgum stjórnmálamönnum, að engin hætta væri á ferðinni hér á landi enda íslensk ungmenni að upplagi skynsöm. Menn töldu að nægilegt væri að beina sjónum að áfenginu þegar kom að forvörnum. Kristján hafði hins vegar rétt fyrir sér þarna eins og síðar kom á daginn og það ekki aðeins í þessu sambandi.

Í starfi mínu í Keflavík varð ekki komist hjá því að dást að sífelldri baráttu Kristjáns við að uppræta spillingu og óheiðarleika í kringum sig. Og af nógu var að taka á Keflavíkurflugvelli í þá daga. Þá var gaman að fylgjast með Kristjáni síðari árin sérstaklega vegna þess að hann fór aldrei út af sporinu heldur hélt sínu striki án þess að hvika. Þannig hafa margir orðið vitni að því að aðilar, sem vitað var að reyndu allt til að komast að kjötkötlunum og taka þátt í dansinum í kringum gullkálfinn, voru fyrstir og harðastir til að fordæma allt eftir hrun bankanna. Slíkt er ekki merki um mikla stórmennsku. Þarna var Kristján hins vegar heill að vanda. Engu skipti þótt hans nánustu væru að gera það gott á þessum árum. Skyndigróði hugnaðist honum einfaldlega ekki. Samhengi átti að vera á milli launa og vinnu. Og hann varð aldrei þreyttur á því að hneykslast og fjalla um þessa hluti svo að stundum þótti mönnum nóg um. En svona var Kristján og þegar upp er staðið var þetta í raun hans aðalsmerki enda ávallt trúr sinni sannfæringu.

Það er sjónarsviptir að Kristjáni og ég veit að ættingjar og vinir munu sakna hans og hans ævarandi festu. Ég votta eftirlifandi eiginkonu Kristjáns og börnum hans mína innilegustu samúð.

Valtýr Sigurðsson.