31. janúar 2011 | Innlendar fréttir | 1883 orð | 3 myndir

Blaðamaður DV með réttarstöðu grunaðs manns

„Njósnatölvan“ Er í vörslu lögreglunnar en hún er af gerðinni Asus Eee PC.
„Njósnatölvan“ Er í vörslu lögreglunnar en hún er af gerðinni Asus Eee PC. — Morgunblaðið/Júlíus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður DV, talinn hafa keypt stolin gögn af ungum pilti sem stal gögnum úr tölvu lögmanns • Tölva piltsins sömu gerðar og „njósnatölvan“ svokallaða sem fannst í húsakynnum Alþingis fyrir ári •...
• Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður DV, talinn hafa keypt stolin gögn af ungum pilti sem stal gögnum úr tölvu lögmanns • Tölva piltsins sömu gerðar og „njósnatölvan“ svokallaða sem fannst í húsakynnum Alþingis fyrir ári • Bæði málin uppgötvuðust á nokkurn veginn sama tíma og talin geta tengst

Fréttaskýring

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Meðal þess sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur rannsakað, í sambandi við fundinn á tölvunni dularfullu í húsakynnum Alþingis í Austurstræti 8-10 í febrúarbyrjun í fyrra, sem talið er að hafi verið komið þar fyrir hinn 28. desember 2009, eru tengsl á milli kærðs, kornungs pilts og Inga Freys Vilhjálmssonar, blaðamanns hjá DV, sem vitni hefur borið um að hafi gert drenginn út af örkinni í þeim ólögmæta tilgangi að brjótast inn í tölvur og stela gögnum. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hefur Ingi Freyr stöðu grunaðs manns í rannsóknum lögreglu.

Jafnframt kannar lögreglan tengsl drengsins við uppljóstrunarvefinn WikiLeaks og störf sem hann hafi unnið á vegum vefjarins.

Tölvan sem fannst í húsakynnum Alþingis, og Morgunblaðið greindi frá hinn 20. janúar sl., var af gerðinni Asus Eee PC, er samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, sömu gerðar og tölva, sem ungi maðurinn sem handtekinn var og kærður fyrir réttu ári, fyrir stuld á trúnaðargögnum úr tölvu lögmanns þekktra einstaklinga á borð við Karl Wernersson hjá Milestone hf. og Eið Smára Guðjohnsen knattspyrnumann hafði í fórum sínum. Pilturinn var jafnframt kærður fyrir innbrot í fyrirtæki.

Ungi maðurinn, var ekki orðinn 18 ára gamall þegar hann var kærður fyrir brotin. Hann er talinn hafa selt, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, Inga Frey Vilhjálmssyni, blaðamanni DV, gögn, sem hann hafði hlaðið niður úr tölvu lögmannsins, trúnaðargögn, sem lögreglunni í Reykjavík hefur ekki enn tekist að rannsaka.

Vitni að „viðskiptunum“

Vitnisburður um viðskiptin á milli blaðamanns DV og unga piltsins liggur fyrir hjá lögreglunni, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Jafnframt hefur Morgunblaðið upplýsingar um það að vitni hafi greint lögreglunni frá því að pilturinn hafi lagt stund á tölvuinnbrot, að undirlagi blaðamannsins.

Enn er lögreglurannsókn á meintum gagnastuldi unga mannsins frá því í fyrra ekki lokið, m.a. vegna þess lögreglan hefur ekki getað staðreynt hvaða gögn eru í tölvunni.

Lögreglan handtók unga manninn í febrúar í fyrra, um svipað leyti og WikiLeaks vann hér á landi, í samvinnu við innlenda aðila, að lokafrágangi myndbands um árásir bandarískra hermanna á óbreytta borgara í Bagdad í Írak, og gert var opinbert í apríl í fyrra.

Upplýsingar bárust um svipað leyti um að drengurinn hefði ekki einvörðungu átt í viðskiptasambandi við blaðamann DV, heldur einnig við WikiLeaks. Hann starfar nú á vegum WikiLeaks í London, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, en mun vera væntanlegur til Íslands á næstunni, vegna lögreglurannsóknarinnar. Fullyrt er af heimildamönnum Morgunblaðsins að ungi maðurinn hafi reynt að selja tölvugögn til annarra aðila, en DV.

Töldu tölvuna vera þýfi

Við handtöku í fyrirtæki sem pilturinn fór inn í með ólögmætum hætti, með því að nota kóðun föður síns, var lagt hald á tölvuna sem pilturinn var með í fórum sínum, þar sem lögreglan taldi þá að um þýfi væri að ræða. Hann var, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, á leið úr fyrirtæki því sem faðir hans starfaði hjá, með fleiri tölvur, en þá sem hald var lagt á.

Um sömu tölvu var að ræða og drengurinn hafði notað til þess að hlaða gögnum niður á, af tölvu lögmannsins, og á síðan að hafa selt gögn úr henni til Inga Freys Vilhjálmssonar, blaðamanns á DV, samkvæmt vitni sem kveðst hafa verið viðstatt þegar „viðskiptin“ áttu sér stað.

Fréttavefurinn Vísir.is greindi frá því fyrir tæplega ári að pilturinn hefði reynt að selja fréttastofu Stöðvar 2 hin illa fengnu gögn en fréttastofan hefði neitað að greiða fyrir gögnin. Vísir hélt því jafnframt fram að í gögnunum væri að finna upplýsingar um Sjóvá, eignarhaldsfélögin Vafning, Þátt, Svartháf og Skeggja ehf.

Í Fréttablaðinu 2. febrúar í fyrra, sama dag og tölvan grunsamlega fannst á Alþingi, kom fram að ungur piltur, sem starfaði við uppsetningu öryggiskerfis fyrir tölvur hjá fyrrverandi lögfræðingi Milestone, væri grunaður um gagnastuld. Fram kom að hann hefði notað öryggiskóða frá fyrrverandi starfsmönnum Milestone til að komast inn í höfuðstöðvar félagsins. Þannig hefði hann ítrekað brotist inn í fyrirtækið og fyrir það var hann einnig kærður.

Guðmundur Ólason, framkvæmdastjóri Milestone ehf. á þessum tíma, staðfesti að gagnastuldur hefði verið kærður til lögreglunnar, en ljóst þótti að DV hefði nýtt sér gögnin í fréttaflutningi sínum.

Morgunblaðið fékk það staðfest nú um helgina að umrædd tölva, þ.e. tölva unga piltsins, væri í vörslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og hún væri sömu gerðar og tölvan sem fannst í húsakynnum Alþingis. Lögreglan teldi líklegt að tölvan sem fannst hjá Alþingi, hefði verið seld hjá fyrirtækinu Tölvutek, en þar sem hún hefði verið staðgreidd, lægi ekkert fyrir um hver kaupandinn var.

Jafnframt hefur Morgunblaðið upplýsingar um að Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður DV, sem skrifað hefur mikið við málefni tengd Milestone, Vafningi, Þætti og fleiri aðilum, er talinn hafa keypt umrædd gögn af unga manninum. Í skrifum Inga Freys komu fram ýmsar upplýsingar sem útilokað var talið að hefði verið aflað með lögmætum hætti.

Komast ekki inn í tölvuna

Tölvan er, eins og áður segir, sömu gerðar og tölvan sem fannst á fimmtu hæð Austurstrætis 8-10 hinn 2. febrúar í fyrra og hafði verið komið þar fyrir og tengd tölvukerfi Alþingis, að líkindum í þeim tilgangi að brjótast inn í tölvur einstakra þingmanna og tölvukerfi Alþingis.

Af þeim sökum er, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, til rannsóknar hjá lögreglu, hvort þessi tvö tölvumál tengist. Til grundvallar í þeirri rannsókn eru, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, tengsl og viðskiptasambönd piltsins við DV og WikiLeaks.

Eiríkur Tómasson, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands, sagði í samtali við Morgunblaðið hinn 3. febrúar í fyrra, að keyptu fjölmiðlar stolin gögn og birtu þau, stæðu þeir annars vegar frammi fyrir sjónarmiði um friðhelgi einkalífsins og hins vegar tjáningarfrelsinu, en meta þyrfti hagsmuni þegar fjölmiðlar ættu í hlut.

„Hagsmunamat á sér alltaf stað þegar um fjölmiðla er að ræða,“ sagði Eiríkur. Legðu fjölmiðlar á ráðin og stuðluðu að stuldi væru þeir almennt séð brotlegir, en sama ætti ekki endilega við tækju þeir við upplýsingum, jafnvel þó að þeir vissu að þær hefðu fengist með ólögmætum hætti, og birtu þær. Það færi eftir eðli upplýsinganna hverju sinni.

Álit lagaprófessorsins um að þeir sem leggi á ráðin og stuðli að stuldi, séu almennt séð brotlegir, er sagt vera meginskýringin á kæru forsvarsmanna Milestone, þ.e. að þeir telja að DV og/eða blaðamaður þess, hafi gert ólögráða dreng út af örkinni, til þess að stela gögnum, en pilturinn var einungis 17 ára gamall þegar meint brot áttu sér stað.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill lítið tjá sig um rannsóknir sínar og mögulega tengingu þessara tveggja óupplýstu tölvumála. Staðfest fékkst þó að báðar tölvurnar eru í vörslu lögreglunnar, en hvað varðar tölvuna sem lögreglan lagði hald á, með ofangreindum gögnum um Milestone og fleiri aðila, þá hefur Morgunblaðið upplýsingar um það að tölvusérfræðingum lögreglunnar hefur enn ekki tekist að rannsaka þau gögn sem sú tölva hefur að geyma.

Neitar að gefa upp lykilorð

Ungi pilturinn hefur neitað að upplýsa lögregluna um lykilorð, hvernig farið skuli inn í gagnagrunn hennar og sérfræðingum lögreglunnar hefur enn ekki tekist að brjótast í gegnum þær hindranir sem hann hefur sett upp.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur pilturinn haldið því fram við yfirheyrslur að þýðingarmikil og fréttnæm gögn séu í tölvunni, en hann hefur neitað að veita aðgang að þeim gögnum. Hann hefur boðist til þess að opna tölvuna sjálfur fyrir lögreglunni, en samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hefur lögreglan ekki viljað þekkjast það boð, þar sem allt eins er talið líklegt að ungi maðurinn myndi gangsetja gagnaeyðingarforrit, kæmist hann á annað borð í tæri við tölvuna, sem myndi draga úr líkum á sakfellingu yfir honum vegna kæru um gagnastuld.

Því hefur lögreglan valið þann kostinn að hleypa stráknum hvergi nærri tölvunni og leitar enn leiða til þess að brjóta sér leið inn í hana.

Þar sem öll auðkenni höfðu verið afmáð af tölvunni sem fannst í húsakynnum Alþingis í febrúar í fyrra og engin fingraför fundust á henni, eins og greint var frá hér í Morgunblaðinu fyrir tíu dögum er rannsókn málsins í einskonar sjálfheldu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir þó að rannsókn málsins sé hvergi lokið og það eina sem skrifstofustjóra Alþingis hafi verið greint frá hinn 9. febrúar í fyrra hafi verið það að fingrafararannsókn á tölvunni hefði ekki skilað neinni niðurstöðu. Margvíslegar yfirheyrslur og rannsóknir hafi síðan átt sér stað, án þess að nokkur niðurstaða hafi fengist.

Stór hluti alþingismanna lítur það mjög alvarlegum augum að tölvu skuli hafa verið komið fyrir í húsakynnum Alþingis í þeim tilgangi að njósna um þingmenn og þeirra tölvugögn. Hafa þeir gagnrýnt það harðlega í samtölum við Morgunblaðið að málið sé óupplýst ári eftir að tölvan fannst. Sú gagnrýni kemur ekki hvað síst frá þingmönnum Hreyfingarinnar og Sjálfstæðisflokksins, sem eru allir með tölu með skrifstofur sínar í Austurstræti 8-10, en einnig frá öðrum þingmönnum, óháð því hvort um stjórnar- eða stjórnarandstöðuþingmenn ræðir.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, var gagnrýnin á það í viðtali við Sunnudagsmoggann nú um helgina, að hafa ekki verið upplýst um það fyrir ári að tölvan hefði fundist. Hún hefði augljóslega legið undir grun, vegna tengsla sinna við WikiLeaks, án þess að hafa nokkurn tíma geta varið sig. Hún og aðrir þingmenn hefðu vitanlega viljað vita af tölvufundinum, til þess að geta brugðist við og þar af leiðandi telur hún að yfirstjórn Alþingis hafi brugðist.

Þingmenn sem rætt var við um helgina eru svipaðrar skoðunar og Birgitta. Þeir telja að það sé með ólíkindum að heilu ári eftir tölvufundinn skuli ekkert hafa verið upplýst um hver eigi tölvuna, hvers vegna henni hafi verið komið fyrir í auðu herbergi varaþingmanns Hreyfingarinnar eða í hvaða tilgangi.

„Ef þetta er rétt sem þú segir mér um tölvutegundina og viðskiptasambönd unga mannsins, bæði við DV og WikiLeaks, þá tel ég einfaldlega að um reginhneyksli sé að ræða,“ sagði þingmaður. Aðrir þingmenn taka í sama streng. Þeir spyrja m.a. hvort rannsakað hafi verið hvort ungi pilturinn hafi verið með öðrum starfsmönnum WikiLeaks í heimsóknum hjá Birgittu Jónsdóttur á fimmtu hæðinni í Austurstræti 8-10 um það leyti sem tölvunni var komið fyrir. Heimildir Morgunblaðsins herma að það hafi verið rannsakað; lögreglan telji miklar líkur á að svo hafi verið, en enn hefur ekki tekist að færa sönnur á það.

Lögreglan telur að sér sé þröngur stakkur sniðinn til rannsókna og yfirheyrslna, vegna þess að lögreglan hafi engar lagalegar heimildir til forvirkra rannsóknaraðgerða, eins og það er nefnt, heldur verði ávallt að liggja fyrir rökstuddur grunur um tiltekið brot.

Viðmælendur úr lögreglunni benda á að í öðrum löndum, t.d. Danmörku og Noregi, sem Íslendingar bæru sig gjarnan saman við, gilti annað, þegar um væri að ræða njósnir, skipulagða glæpastarfsemi og hryðjuverk. Þá hefðu lögregluyfirvöld forvirkar heimildir til þess að grípa til, en Alþingi hefði hafnað því að lögregluyfirvöld hér á landi fengju slíkar lagalegar heimildir.

Asus Eee PC
» Það allra nýjasta í fartölvum í dag. Ótrúlega nett og fyrirferðarlítil fartölva með innbyggðu þráðlaustu neti, fjölda forrita, kortalesara o.fl....“
» Þannig er Asus Eee fartölvunni lýst á heimasíðu Tölvuteks, sem selur slíkar tölvur.
» Þar kemur jafnframt fram að hún hafi einungis 7 tomma skjá og vegi aðeins 0,9 kíló. Sem sagt, mjög nett og fyrirferðarlítil.
» Auðvelt sé að komast á netið með innbyggðu WiFi 802.11 b/g sem finni og tengist heitum reitum og netkerfum.
» Asus Eee PC komi með uppsettum hugbúnaði fyrir t.d tölvupóst og ritvinnslu.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.