Jóhanna Sigurðardóttir, Svava Jakobsdóttir og Ragnhildur Helgadóttir við þingsetningu '78.
Jóhanna Sigurðardóttir, Svava Jakobsdóttir og Ragnhildur Helgadóttir við þingsetningu '78.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jafnvel að forsætisráðherra yrði kosinn beint sem hún hefur ekki nefnt eftir að hún sjálf komst á tindinn.

Jóhanna Sigurðardóttir nú forsætisráðherra var fyrst kjörin á Alþingi 1978. A-flokkarnir svonefndu, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag, unnu stórsigur í kosningum þetta sumar. Ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar, sem sat árin fjögur þar á undan, var hart gagnrýnd meðal annars fyrir stöðuna í efnahagsmálum, auk þess sem á fleiri afmörkuðum málum þótti ekki það skikk sem vera skyldi. Má þar nefna Geirfinnsmál og byggingu Kröfuvirkjunar sem Vilmundur Gylfason gerði sér mat úr. Hann var vonarstjarna krata í þessum kosningum og það var Jóhanna Sigurðardóttir einnig. Hún hafði þá þegar látið að sér kveða með ýmsu móti, til að mynda sem formaður Flugfreyjufélags Íslands og fulltrúi í stjórn Verslunarmannafélags Reykjavíkur.

Í bráðum 33 ár hefur Jóhanna setið óslitið á Alþingi. Fyrstu ár sín á þingi lét hún að sér kveða í baráttunni fyrir félagslegum réttindum, t.d. réttindamálum fatlaðra, húsnæðismálum auk þess að hafa tekið ýmsar snerrur þegar maðkar hafa virst í mjöli. Jóhanna sat sem félagsmálaráðherra frá 1987 til 1994 þegar hún yfirgaf Alþýðuflokkinn og stofnaði Þjóðvaka. Var því flokksbroti ætlað að vera upptaktur að sameiningu vinstrimanna.

Í Morgunblaðinu á gamlársdag 1994 reifaði Jóhanna helstu stefnumál Þjóðvaka og verkefnin sem framundan voru á kosningaári. Þar nefndi hún að breyta yrði stjórn fiskveiða og leggja á veiðileyfagjald, skoða aðild að ESB, breyta skattkerfinu, spara í ríkisrekstri og fækka ráðuneytum. Ekki er ofsagt að samhljómur sé meðal þeirra atriða sem þarna eru nefnd og viðfangsefna núverandi ríkisstjórnar.

Eftir efnahagshrunið haustið 2008 breyttust viðhorf í íslenskri pólitík. Samfylking og VG tóku höndum saman um stjórnarsamstarf og Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra, skv. tillögu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttir sem hætti afskiptum af stjórnmálum vegna veikinda. Segja má að ferill Jóhönnu sem oddvita ríkisstjórnarinnar hafi markast mjög af þeim viðfangsefnum sem ríkisstjórnin hefur þurft að glíma við. Eftir hrikalega atburði líka hruninu hefur þurft að grípa til margvíslegra ráðstafana sem margar hafa ekki verið til vinsælda fallnar. Og í sumum efnum hafa ríkisstjórninni verið mislagðar hendur, svo sem í kosningum til stjórnlagaþings sem Hæstiréttur ógilti á dögunum. Viðbrögð Jóhönnu þá voru harkaleg eins og sást á frægri Morgunblaðsmynd.

Er Jóhanna rétt kona á réttum stað og tíma og vel að embætti komin? Um slíkt getur aðeins sagan dæmt. Hitt er rétt að hafa í huga að 1994 nefndi Jóhanna að hugsanlega kæmi til greina að ráðherrar afsöluðu sér þingmennsku og jafnvel að forsætisráðherra yrði kosinn beint sem hún hefur ekki nefnt eftir að hún sjálf komst á tindinn.

Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is