8. maí 1994 | Sunnudagsblað | 3893 orð

AUGA GUÐS Árni Kristjánsson píanóleikari talar um tónlist Wagners, námsár sín í

AUGA GUÐS Árni Kristjánsson píanóleikari talar um tónlist Wagners, námsár sín í Þýskalandi og tilveru sína á Íslandi eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttur "WAGNER var erótíker, sú tilfinning litar alla hans músík, hún er öll eins og ástarleikir." Það er Árni...

AUGA GUÐS Árni Kristjánsson píanóleikari talar um tónlist Wagners, námsár sín í Þýskalandi og tilveru sína á Íslandi eftir Guðrúnu Guðlaugsdóttur "WAGNER var erótíker, sú tilfinning litar alla hans músík, hún er öll eins og ástarleikir." Það er Árni Kristjánsson píanóleikari sem mælir þessi orð. Enginn Íslendingur hefur gengið eins vasklega fram í að kynna tónlist Richards Wagners fyrir samlöndum sínum og Árni. Þegar hann var tónlistarstjóri Ríkisútvarpsins lét hann flytja í útvarpinu Niflungahring Wagners, sem fluttur verður styttur á listahátíð í vor, og las skýringar með. Flestar aðrar óperur Wagners lét hann flytja á sama hátt áður en hann lét af störfum sem tónlistarstjóri í árslok 1974. "Ég fékk upptökur á verkum Wagners frá eldri sonarsyni hans, sem þá stjórnaði flutningi á verkum Wagners í Bayreuth. Ég var þá fyrir löngu orðinn óskaplega hrifinn af tónlist Wagners. Hún er töfrandi og dáleiðandi, svo vel saman sett og streymir einhvers staðar að, ég veit ekki hvaðan. Hún er meira en ástríðufull, ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessum áhrifum. Björnstjerne Björnson heyrði Tannhauser í Þýskalandi og varð alveg heillaður, það var reyndar ekki kurteislegt sem hann sagði: "Man bliver opiums-onanert af svinet," en orð hans lýsa þessari kröftugu hrifningu."

g var barn þegar ég heyrði Wagner fyrst nefndan, það þekktu allir brúðkaupsmarsinn hans, hann er úr Lohengrin sem var ein af fyrri óperum hans," segir Árni. "Þegar ég var drengur var komið á fót hljómsveit á Akureyri og hún reyndi eitthvað við óperutónlist Wagners, það þótti nú sumum fremur ruddaleg músík. Akureyringar stóðu framarlega í ýmsu sem að tónlist laut á þessum árum, þar kom fyrst Konservatorium á Íslandi, það var árið 1923. Kennari við skólann spilaði oft Söng pílagrímanna, sem útsett var af Liszt fyrir píanó, það þarf heilmikið til þess."

­ Hvenær fórst þú að spila á píanó? spyr ég. "Ég get ekki sagt að ég hafi byrjað að læra fyrr en ég kom til Þýskalands. Ég var að vísu sem drengur fyrir norðan hjá Sigurgeiri Jónssyni söngmeistara. Ég heyrði þegar foreldrar mínir voru að tala um að það ætti að koma mér til hans og láta hann segja mér til, því ég var alltaf að gutla eitthvað á harmoníum sem pabbi minn átti. Ég var svo skelkaður þegar ég heyrði þetta að ég faldi mig í geysistóru röri uppi hjá Sigurhæðum, húsi Matthíasar Jochumssonar. Rör þetta átti að taka við leysingavatni úr brekkunni á vorin, en það stóð autt á veturna og þar skreið ég inn og faldi mig. Það var leitað að mér og ég fannst, einhver strákskratti hafði séð mig skríða þarna inn og ég var togaður út á fótunum aftur. Þá var Sigurgeir búinn að bíða í klukkutíma. Hann klappaði mér á kollinn og sagði: "Við skulum tala saman góði þegar ég kem næst." Þá varð ég rólegri."

­ Hvers vegna var þér svona illa við að hitta Sigurgeir? spyr ég.

"Ég var svo hræddur við allt, ég var svo feiminn við alla hluti, bæði við að láta heyra í mér, og eins þegar gestir komu og maður var sýndur, þetta var afskaplega þvingandi. Ég var óvenjulega feiminn, og faldi mig þegar ég gat fyrir gestum. Ég átti yngri bróður sem Gunnar hét, hann var miklu kátari og léttlyndari en ég. Hvorugt foreldra minna, þeirra Kristjáns Árnasonar og Hólmfríðar Gunnarsdóttur, var svona, það var mikill gestagangur heima, mikið um námsmenn, piltar úr sveitinni fengu að vera þar meðan þeir voru í skólanum á Akureyri. Pabbi rak verslun á Akureyri en hafði byrjað sem verslunarstjóri hjá Magnúsi á Grund. Áður var þar Garðar Gíslason. Magnús lét pabba eins og Garðar byrja á að mala skít á túnið. Þetta gerði hann til að athuga hvort þeir væru nógu hlýðnir og settu ekki allt fyrir sig. Pabbi stóðst prófið og flutti með fjölskyldu sína að Grund, þar er ég fæddur og þaðan á ég mína fyrstu endurminningu. Þá var ég tveggja ára og fékk að fara með þegar pabbi var að spila á orgelið í Grundarkirkju, hann var organisti þar. Ég sat á bæjarhellunni og nagaði kleinu sem húsmóðirin hafði gefið mér. Ég var sæll og glaður og horfði á þegar hún fór að gefa hænsnunum sem þarna voru líka. Í hópi þeirra var geysilega stór hani og voðalega rembingslegur. Hann sá að ég var að eta eitthvað og spígsporaði í áttina til mín. Ég sá hann nálgast og varð óskaplega hræddur. Þegar hann var kominn að mér svipti hann sér til og kippti af mér kleinunni. Þetta var algert sjokk, heimur minn hefur ekki verið mér samur síðan, þetta var svo ógurleg reynsla. Ég var óttalegur vonarpeningur eftir þetta, þoldi ekki þoku, var astmatískur og svo mætti lengi telja. Pabbi tók við verslun Magnúsar á Akureyri. Hún var byggð fyrir tengdason Magnúsar. Hann missti konu sína og fór til Reykjavíkur en pabbi fór í búðina og eignaðist hana með tímanum."

Fór í tónleikaferð tólf ára

Wagner og tónlist hans kemur til umræðu á ný: "Ég fór í tónleikaferð til Húsavíkur og víðar með Benedikt Elfar þegar ég var tólf ára. Benedikt var undarlegur maður, menntaður guðfræðingur, síðan lærði hann söng í Danmörku. Um tíma var hann söngkennari en settist svo að í Reykjavík sem leikfangasmiður. Hann spilaði vel á harmoníum og lék t.d. mjög vel verk eftir Bach. Eg var lítið farinn að spila hann þá og Wagner kunni ég ekki að meta fyrr en seinna. Beethoven kom fyrst til mín og Mozart - svo Chopin þegar ég fór að verða rómantískari. Þegar ég kom til Þýskalands varð ég alveg gagntekinn af rómantíkinni, bæði í tónlist og bókmenntum. Ég var fimmtán ára þegar ég kom þangað, þá byrjaði ég að læra. Frændi minn Stefán Pétursson, seinna ritstjóri Alþýðublaðsins og þjóðskjalavörður, var þá kominn til náms í Þýskalandi. Þetta var 1921 og það var mjög ódýrt fyrir námsmenn að vera í Þýskalandi þá. Verðbólgan var voðaleg, markið féll og féll, menn höfðu ekki við að prenta, það var meira að segja prentað yfir gamla seðla, allt var notað. Fólkið flýtti sér á hverjum degi að nota peningana sína því þeir urðu helmingi minna virði daginn eftir. Fyrst hækkaði markið um þúsundir á dag en það endaði með því að það hækkaði um milljarða á dag áður en það var stabílíserað árið 1924. Við fórum með peningana í töskum og alla vasa fulla til þess að kaupa brauð og mat. Ég var í námi hjá einkakennurum. Ég samdi við kennarann minn í hljóðfræði um að greiða honum sem svaraði einu kílói af margaríni fyrir hvern tíma, ég þurfti alltaf að byrja á því að fara inn í búð til þess að vita hvað margarínið kostaði áður en ég fór í hljóðfræðitíma. Píanónámið stundaði ég hjá Isolde, dóttur Xavers Scharwenka, tónskálds og píanósnillings. Hann var prófessor við frægt konservatoríum, frábær kennari og kompónisti. Hann tók mér svo vel, þessum feimna sveitapilti ofan af Íslandi."

Slátraði átta konum

"Lífið var brjálað í Þýskalandi á þessum tíma. Það var mikil reynsla fyrir viðkvæma sál að koma þarna og fá heiminn strax inn á sig. Fyrsta sem ég las þegar ég kom þangað var að frægur morðingi hafði hengt sig í fangaklefa í axlaböndunum sínum. Hann hafði slátrað átta konum og selt þær í pylsur. Svona var stemmningin. Morð voru framin og vændi stundað, allt slíkt var í hámarki - en tónlistarlífið stóð líka á hátindi. Til Berlínar komu allir sem eitthvað höfðu að segja í músík. Þrjú óperuhús voru í Berlín þegar ég kom þangað og voru orðin fimm þegar yfir lauk. Mörg konservatoríum voru þar, allt sem hugsast gat - ég lenti þarna mitt í hringiðu tónlistarinnar og lífsins. Ég hlustaði eins mikið á músík og ég gat. Waldrómantíkin þýska er fræg, ég mætti Lorelei, hexinni, í einum skóginum og hef ekki síðar fundið leiðina út úr honum. Í Þýskalandi er rómantíkin öll bundin í skóga. Í Niflungahring Wagners er þetta augljóst. Strax í Valkyrjunni er komið inn í skóginn. Ég sá margar óperur Wagners í Berlín, heyrði meira að segja Pétur Jónsson syngja í Lohengrin. Ég þekkti Pétur og kom oft heim til hans. Seinna kom hann heim og söng í Iðnó.

Veran í Þýskalandi þroskaði mig, ég fór á alla mögulega staði þar, enda fylgdi ég íslensku stúdentunum hvert sem þeir fóru. Ég sá margt, kannski of margt, en það skemmdi mig ekki, ég lærði að sjá hlutina díalektískt. Lífið hefur fallegar og ljótar hliðar, það heyrir saman illt og gott. Ég taldi mig vera guðleysingja á þessum árum, gaf mig þannig fram, en eigi að síður trúði ég á kölska, hann var andhverfa þess góða í lífinu. Ég fór í kirkjur til þess að hlusta á tónlistina þar. Landflótta Rússar, sem allt var fullt af í Berlín komu sér upp k irkjum og líka knæpum með balalaika strengjaleik. Þeir drógu líka til sín mikla listamenn austan að, svo sem Horowitz, Rakhmaninoff og Karsavina. Þá má ekki gleyma leiklistarlífinu sem líka var á hátindi þegar þetta var. Menn eins Max Reikhart og Wassermann stjórnuðu uppfærslur leikhúsanna. Ég sá sýningar með frægum leikurum, t.d. Jannings og Palenberg, Fritzy Massany og Marilene Dietrich."

Höndin bilaði

"Námið var mér erfitt af því að ég þoldi það eiginlega ekki. Það bilaði á mér höndin og ég hef átt í stríði við það alla mína tíð. Liðpokinn utan um úlnliðinn fylltist af vökva svo stór kúla myndaðist á liðnum. Læknar vildu skera þetta en það vildi ég ekki, þá hefði ég verið búinn. Þetta byrjaði reyndar á Íslandi. Þá fór ég til lækna í Reykjavík sem töldu þetta vera berkla. Ég fór norður á Akureyri og var þar í ljósum hjá Steingrími Matthíassyni lækni, síðar tengdaföður mínum. Þegar til kom reyndust þetta ekki vera berklar."

­ Þú varst heppinn að þetta var vinstri höndin, segi ég. "Nei, það var ekki heppni, ég hefði þurft að vera betri í vinstri hendinni en þeirri hægri," segir Árni og brosir. "Sú vinstri þarf að gera svo miklar hreyfingar þegar maður spilar. Þeir sem eru örvhentir geta spilað Byltingaretýðuna eftir Chopin alveg eins og ekkert sé. Best væri að vera jafnvígur á báðar hendur.

Ég er svo díalektískur í mér að ég sá frá upphafi eitthvað gott í því að þurfa að stríða og líða, af því lærir maður og veit að hverju ber að stefna. Ég lærði margt gott af þessum veikindum en ýmislegt ljótt líka. Læknir, sem sagði að ég væri með berkla og vildi fá mig á sanatorium, lét mig ganga með spíritusbindi og drekka eitt staup af eggjakoníaki á dag. Mér þótt þetta svo hryllilega vont og komst alls ekki upp á það þá. Það gerðist löngu síðar að mér fór að þykja vín gott. Nú er ég hættur að geta drukkið og þykir það mjög miður.

Í Þýskalandi bjó ég á pensjónati og fékk þar kvöldmat, brauð og súpu. Við fórum oft félagarnir á restaurant til þess að fá okkur baunir með spiki sem kostuðu 50 pfenninga. Eftir að verðlag var stabílíserað í Þýskalandi var svo dýrt að vera þar að ég fór til Kaupmannahafnar. Dóttir þýska prófessorsins, sem hafði kennt mér fyrst meðan ég var byrjandi, útvegaði mér sem kennara einn af nemendum prófessorsins. Eftir fyrsta árið hjá þeirri þýsku gat ég spilað með henni C dúr konsertinn eftir Beethoven. Ég þurfti að æfa mig klukkustundum saman þar ytra svo það var ekki nema að von að illa gengi með höndina. Ég var í sambandi við allra handa lækna út af þessum vandræðum, það voru teknar röntgenmyndir af hendinni á mér og ég var sýndur læknastúdentum, hvað þá annað. Þá var ég hættur að vera feiminn við fólk - ég var hins vegar feiminn við að spila og hef alltaf verið."

Hin sveitalega Kaupmannahöfn

"Það var skemmtilegt að koma til Kaupmannahafnar, þetta var eins og að koma út í sveit eftir að hafa verið í Berlín. Mér fannst Danir ákaflega vinalegir. Pósturinn var í rauðum stökkum og gardistarnir eða lífverðirnir, sungu slagara; "Elsie med det röde haar", það var annar tónn í hermönnunum í Þýskalandi. Þar var allt svo hart. Ég get sagt dæmi um það. Ég fór að hlusta á níundu sinfóníu Beethovens, sem er það stærsta sem ég hef upplifað og fékk svo á mig að ég vissi ekki af mér um tíma. Í síðasta þættinum, kórþættinum þar sem hann syngur til gleðinnar og tónarnir verða æ voldugri, þá fannst mér allt blóðið streyma út úr líkamanum. Á eftir skjögraði ég út og fékk mér titrandi sígarettu, ég var farinn að tíðka það að reykja. Þá komu til mín lögreglumenn með hjálma og í stígvélum og bönnuðu mér að reykja. Þjóðverjar voru voðalega óþolandi þá. Þeir bönnuðu allt, það var meira að segja bannað að kyssa konur á bekkjunum við höfnina."

Kvæntist árið 1932

"Í Kaupmannahöfn þurfti ég stundum að hvíla höndina mánuðum saman, námið gekk því skrykkjótt og ég var oft örvæntingarfullur. En ég gat ekki hugsað mér að leggja neitt annað fyrir mig en tónlist, hún var allt mitt líf. Ég lærði af þessu að láta hverjum degi nægja sína þjáningu og sætta mig við að áætlanir brygðust. Þetta mjakaðist þó áfram og árið 1929 kom ég heim til Íslands ásamt Kristjáni Kristjánssyni söngvara og við héldum tónleika, þá fyrstu sem ég hélt hér. Árið 1932 flutti ég heim og kvæntist það ár Önnu dóttur Steingríms læknis Matthíassonar. Við höfðum vitað hvort af öðru frá æskuárum en sumarið 1931 fórum við að vera saman. Við fórum svo út til Þýskalands og ætluðum að vera þar um tíma, en þá var Hitler að komast til valda og ástandið uggvænlegt. Við vorum að koma af tónleikum hjá Wilhelm Kempff þegar Hitler var veittur kanslaratitillinn af Hindenburg marskálki sjálfum. Við sáum hann standa úti á svölum kanslarahallarinnar í Wilhelmstrasse ásamt Hindenburg, það var söguleg stund og allt var krökkt af fólki og stormsveitum nasista. Skömmu síðar yfirgáfum við Þýskaland og fórum heim. Þá var ég atvinnulaus og allslaus og hafði fyrir konu að sjá og brátt fæddist okkur sonur. Þá vildi mér til að mér bauðst kennarastaða við tónlistarskólann í Reykjavík, sem þá var nýlega tekinn til starfa."

Í brumi

"Íslenskt tónlistarlíf var í brumi þegar ég kom til starfa í Tónlistarskólanum árið 1933. Verið var að útskrifa fyrstu fjóra nemendurna. Stundum komu gestir að utan og héldu tónleika, ég lék undir fyrir marga erlenda gesti. Konsertar, bæði á sviði og í útvarpi, voru hluti af starfsskyldum mínum auk kennslunnar. Þeir sem stóðu fyrir skólanum voru peningalitlir svo svigrúm til launagreiðslna var ekki mikið, skólinn var líka á hrakhólum með húsnæði, stundum rigndi svo inn í kennsluherbergið að við lá að ganga þyrfti um það á skóhlífum, og oft var kalt. En ég fékk góða nemendur, Rögnvaldur Sigurjónsson var einn af þeim fyrstu og síðan komu þeir hver af öðrum sem lengst hafa náð hér og auðvitað margir fleiri. Á sumrin vann ég hitt og þetta á Akureyri, kenndi, gaf út ljóðmæli Matthíasar Jochumssonar og hitt og annað.

Það var lítill gróðavegur að vera píanóleikari og tónlistarkennari á þessum tíma. Eigi að síður sá ég aldrei eftir að hafa lagt út á tónlistarbrautina. Þótt lífið væri stundum erfitt hafði ég alltaf ánægju af músíkinni sjálfri. Ég eignaðist góða vini í sambandi við hana, svo sem Pál Ísólfsson hollvin minn. Ég varð með tímanum hans hægri hönd við skólastjórnina. Björn Ólafsson var líka góður vinur minn, við héldum saman konserta í mörg ár, það var alltaf gaman að spila með góðum mönnum. Eðlilega átti ég flesta vini meðal listamanna, enda tók þátt í lífi þeirra og félagsskap. Ég átti þátt í stofnun Félags íslenskra tónlistarmanna og Kammermúsíkklúbbsins svo eitthvað sé nefnt, því raunar tók ég þátt í nánast öllu sem viðkom músík hér. Ég var þó ekki einn af postulunum tólf sem stofnuðu tónlistarfélagið, þar var Ragnar í Smára fremstur í flokki eins og víðar, hann var góður vinur minn."

Fimmtíu krónur í húsbyggingarfélag

"Efnahagur okkar hjóna var ekki sérlega glæsilegur þegar við byggðum húsið okkar hér á Hávallagötunni og margar ferðirnar þurfti ég að gera mér til skattayfirvalda til þess að semja um greiðslur. Fyrst bjuggum við Anna með drengina í kjallara á Smáragötunni og svo í íbúð á Vesturgötu 41, þar sem Árni Thorsteinsson tónskáld hafði búið í 30 ár. Það var gömul íbúð með kolaofni og maskínu en hafði verið settur í hana miðstöðvarofn. Einn sunnudag var ég niður við tjörn að gefa öndunum, þá koma tveir glæsilegir sjálfstæðismenn þarna gangandi, þeir voru vinir mínir. Þeir segja við mig: "Svona, komdu með okkur, við erum að fara í húsakaup." Ég átti fimmtíu krónur sem áttu að vera húspeningar fyrir vikuna. Það var verið að stofna þarna húsbyggingarfélag og vinir mínir tveir sögðu við mig: "Hana, láttu bara þennan fimmtíu kall, þú þarft að eignast hús." Ég kom staurblankur heim en með kvittun um að ég væri komin í þetta húsbyggingarfélag. Þetta var á stríðsárunum og þá földu stríðsgróðamenn peningana sína með því að lána þá út í alls konar svona starfsemi. Við fengum 70 prósent byggingarkostnaðarins lánuð hjá ríkinu og svo þetta lán hjá hinum. Þannig hafðist þetta, en það liðu mörg ár frá því ég borgaði fimmtíukallinn þangað til við fluttum inn í húsið."

Í "kompu" Árna

Heimili Árna og Önnu hefur yfir sér þann hlýlega menningarblæ sem áralöng umhyggja ein getur skapað. "Allt hér er Önnu verk, hún hefur skapað þetta heimili og haldið því við, meira að segja útbjó hún garðinn og sinnir honum enn, ég er bara hér og hef reynt að vinna svolítið," segir Árni þegar talið berst að heimilinu. "Anna hefur alltaf verið heima og hugsað um mig og börnin okkar þrjú, Yngva Matthías, Kristján og Kristínu. Nú eru þau öll löngu farin en við búum hér enn. Anna hefur verið mín stoð í lífinu." Niðri í stofunni þar sem við sitjum fyrst eru ýmsir fallegir munir og málverk en vinnuherbergi Árna er á efri hæð hússins. "Viltu sjá kompuna mína," spyr hann og vísar mér upp á loft. "Kompan" er stórt og bjart herbergi þar sem inni er viðamikið bókasafn og stór flygill. "Ég átti lengi vel ekki hljóðfæri, varð að notast við ræfil sem ég fékk lánaðan. Svo gáfu þeir pabbi minn og Davíð Stefánsson mér lítinn, amerískan Steinway-flygil. Þegar ég átti stórafmæli, líklega þegar ég varð fimmtugur, þá tóku tíu vinir mínir hann og færðu mér þennan stóra flygil í staðinn, hann er þýskur Steinway. Það var gott að spila á hann, en nú er það búið. Ég spila ekki lengur, hætti fyrir tveimur árum, það hefur allt sinn tíma. Ég er líka hættur að fara á konserta. Ekki vantar að við séum boðin, en ég fer bara ekki. Elli kerling stjórnar daglegu lífi mínu."

Á heilsuhæli

Við flygilinn eru fjölmargar myndir af listafólki, sumar áritaðar. "Þetta eru gamlir vinir og samstarfsmenn. Með þessari konu hef ég haldið marga konserta, Pína Carmírelli, hún er ítalskur fiðluleikari, ég hafði voðalega gaman af að spila með henni," segir Árni. Þarna er líka mynd af Davíð Stefánssyni. "Við vorum miklir vinir, við Davíð," segir Árni. "Við sameinuðumst bæði í gleði og þjáningu. Við vorum meira að segja samtímis á heilsuhæli. Þá var ég búinn að ganga fram af mér andlega og líkamlega eftir Beethovensútgáfuna. Ég gat ekki staðið heldur skreið á gólfinu. Ég var lagður á hæli og fékk þar alls kyns pillur. Einn morguninn eftir ægilega þjáninganótt fór ég fram og fannst ég ekki orka meira. Þetta var í desember og ennþá dimmt úti. Þá heyrði ég sungna morgunmessu í útvarpinu og um leið kom svolítill geisli inn um gluggann. Ég leit út, þetta var á Sjálandi og ég sá til Kaupmannahafnar. Þá var sólin að koma upp, eldrauð upp úr dimmunni. Ég hugsaði með mér: "Þetta er auga Guðs sem lítur inn til mín. Ég er ekki að deyja." Ég staulaðist út og sofnaði þar vært. Þegar ég vaknaði voru tvö dádýr yfir mér og horfðu forvitnislega á mig. Mér fannst þetta góðs viti og í stað þess að fara heim fór ég á knæpu sem var þarna rétt hjá, það eru alltaf knæpur við hæli fyrir þá syndugu sem vilja brjóta reglurnar. Þegar maður er sjúklingur verður maður alltaf að brjóta reglur til þess að lifa af. Þetta var sunnudagur 13. desember, Lúsíudagur sem álitinn var sólstöðudagur. Ég keypti mér kaffi og koníak, fór að fletta Sunday Times og rakst á kvæði eftir enska skáldið John Donne, um líf og dauða, sól og sorta. Þar sagði að þegar myrkrið væri hvað mest væri ljósið mest, þá færi sólin að rísa. Á fékk ég lífslöngunina aftur, endurfæddist undir auga Guðs og hef aldrei óttast dauðann eftir það."

Mótsetningar heimsins

Við höldum áfram að skoða myndirnar í "kompunni". "Hérna sérðu Gerd Grieg, hún var mikil leikkona," segir Árni. "Hér er svo mynd af Matthíasi Jochumssyni, hann var mjög geníal maður, hann skrifaði Sigurði Nordal þessi orð: "Veistu hvað, skeptiskara kvikindi og um leið trúhneigðara held ég að muni vart finnast á þessu landi", og átti þá við sjálfan sig. Hann sagðist trúa á einhvern virkileika eftir Thanatos, eftir dauðann, en annars tryði hann engu ákveðnu, undir þessi orð get ég tekið," segir Árni. Loks bendir hann mér á gipsmynd af Chopin og segir: "Hann er minn heillavinur."

Við förum aftur niður í stofu. "Heimurinn er samsettur af mótsetningum," segir Árni. "Maður getur aldrei fengið bara allt það góða, hið illa fylgir með. Þannig erum við samsett líka. Það hefur aldrei verið friður í heiminum, það er alltaf stríð og alltaf berjast tveir og tveir, norðurpóllinn á móti suðurpólnum. Þó maður geri ekki annað en dansa vínarvals þá verður maður að passa sig, þar takast á tvö öfl, aðdráttaraflið og miðflóttaaflið. Ef það væri bara það síðarnefnda myndi maður henda dömunni út í hafsauga, aðdráttaraflið kemur í veg fyrir það. Það eru alls konar demonar í mér eins og öðrum, og þeir fá sitt. Svo iðrast maður, situr grátandi á sínu rúmi og nagar á sér handarbökin. Ég viðurkenni að ég er breyskur maður og líka það að ég bið bænir. Ég segi þetta óhikað, svona er ég og þarf ekki að punta mig neitt til."

Þegar ég er að tygja mig til farar spyr ég Árna hvort hann ætli að sjá sýningu listahátíðar í Þjóðleikhúsinu á Niflungahring Wagners. "Ég á boðsmiða og ég ætla fara, ef Elli kerling leyfir mér það," svarar Árni og hjálpar mér í kápuna. "Ég fór til Bayreuth árið 1974 til þess að heyra og sjá uppfærslur á óperum Wagners og fannst það stórkostlegt. Átakanlegast af allri Wagnersmúsík sem ég hef heyrt er tvennt, dauði Siegfrieds þegar hann var veginn. Þá ferst heimurinn í ragnarökum og Brynhildur gengur á bálið. Sorgarmarsinn eftir Siegfried situr í mér eins og galdur. Maður veit miklu meira um hvað sorg er, hvers konar tilfinning þetta er, þegar sorginni hefur verið breytt í músík. Ég las fyrir löngu bók um ungan danskan sjómann sem Þjóðverjar tóku af lífi. Kvöldið áður en átti að taka hann af lífi skrifaði hann unnustu sinni og móður og segir þar: "Eftir sorg kemur dýpt, eftir dýpt kemur gleði." Þetta segir Beethoven líka: "Durch Leider Freude." Gleðin sprettur af þjáningunni."

Bernskumynd.

Benedikt Elfar og Árni fóru

saman í tónleikaferð.

Brúðkaupsmynd af Árna og Önnu sem Árni kallar kjötsúpumyndina. "Handleggurinn á mér er eins og kindarleggur sem ekki hefur enn verið brotinn til mergjar."

Árni við flygilinn.

F.v. Árni og Björn Ólafsson fiðluleikari.

Morgunblaðið/Kristinn

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.