Framkvæmdastjóri Kjöríss hf, Guðrún Hafsteinsdóttir, er ekki nema 24 ára að aldri. Hún segist hafa haft áform um annað en að setjast í framkvæmdastjórastólinn þegar örlögin gripu í taumana.

Framkvæmdastjóri Kjöríss hf, Guðrún Hafsteinsdóttir, er ekki nema 24 ára að aldri. Hún segist hafa haft áform um annað en að setjast í framkvæmdastjórastólinn þegar örlögin gripu í taumana. "Ég var búin að skrá mig til háskólanáms en pabbi lagði hart að mér að koma hér til starfa haustið 1992. Ég sló til og hann setti upp skrifborð fyrir mig gegnt sínu skrifborði."

SALAN

FYLGIR SÓLINNI

eftir Guðna Einarsson

Guðrún Hafsteinsdóttir framkvæmdastjóri Kjöríss hf. er fædd 1970 og uppalin í Hveragerði. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi 1991. Guðrún tók við framkvæmdastjórastarfinu að föður sínum, Hafsteini Kristinssyni, látnum. Hún hefur starfað við fyrirtækið meira og minna frá unga aldri. Einnig starfaði Guðrún hjá Búnaðarbanka Íslands um tíma. Hafsteinn stofnaði Kjörís hf. í Hveragerði 1968 og sendi fyrstu framleiðsluna til verslana 31. mars 1969. Við þann dag er upphaf starfseminnar miðað og er fyrirtækið því nýorðið 25 ára.

jörís hf. er fjölskyldufyrirtæki og var stofnað af bræðrunum Hafsteini, Guðmundi og Sigfúsi Kristinssonum ásamt bræðrunum Gylfa og Braga Hinrikssonum. Gylfi Hinriksson átti þátt í uppbyggingu Dairy Queen-ísbúðanna í Reykjavík og var mjög áhugasamur um stofnun Kjöríss hf. Í dag er Kjörís hf. í eigu Laufeyjar S. Valdimarsdóttur, ekkju Hafsteins, og bræðranna Guðmundar og Sigfúsar Kristinssona. Þau skipa stjórn fyrirtækisins og er Laufey stjórnarformaður. Hafsteinn Kristinsson var forstjóri Kjöríss hf. frá stofnun til dauðadags, en hann lést skyndilega 18. apríl 1993.

Skóli reynslunnar

Framkvæmdastjóri Kjöríss hf. er ekki nema 24 ára að aldri. Guðrún segist hafa haft áform um annað en að setjast í framkvæmdastjórastól Kjöríss hf. þegar örlögin gripu í taumana. "Ég var búin að skrá mig til háskólanáms en pabbi lagði hart að mér að koma hér til starfa haustið 1992. Ég sló til og hann setti upp skrifborð fyrir mig gegnt sínu skrifborði," segir Guðrún þar sem hún situr í smekklega búinni skrifstofu sinni.

"Fram að þessu hafði pabbi haft öll fjármál á sinni könnu, séð um innkaup og allan daglegan rekstur. Hann veitti mér innsýn í reksturinn, setti mig inn í fjármálin og kynnti mig fyrir viðskiptavinum og gestum. Það var ekki hægt að fá betri skóla en að starfa með pabba." Þessi samvinna varaði ekki nema þennan vetur. Síðastliðið vor lést Hafsteinn af völdum heilablóðfalls. "Þetta bar svo ótrúlega brátt að," segir Guðrún. "Hann hafði aldrei misst dag úr vinnu vegna veikinda og svo var hann dáinn. Þetta var mikið áfall. Það var ekki aðeins að ég missti pabba minn og nánasta samstarfsmann. Ég missti líka besta vin minn."

Guðrún segist búa vel að því veganesti sem hún fékk hjá föður sínum. Þótt mikil ábyrgð legðist á herðar hennar við skyndilegt fráfall Hafsteins hefur hún aldrei verið rög við að axla þá ábyrgð. "Það sat í mér að standa mig og halda merkinu á lofti," segir hún. Guðrún telur að rekstur fyrirtækisins hafi gengið ágætlega síðastliðið ár. Veltan jókst á milli ára og var rúmar 200 milljónir árið 1993. Til marks um stöðuna sýnir Guðrún hvernig veltufjárhlutfall hefur batnað ár frá ári undanfarin fimm ár. Veltufjárhlutfall er fundið með því að deila skammtímaskuldum í veltufjármuni. Árið 1989 var hlutfallið 0,6 og var í fyrra komið í 1,2. "Við höfum mjög gott starfsfólk og það hafa allir lagt sitt af mörkum til að þetta gengi."

Morgunkaffi hjá mömmu

Fyrirtækið hefur verið stór þáttur í lífi fjölskyldu Laufeyjar og Hafsteins. Rekstur Kjöríss hf. var bæði ástríða og atvinna húsbóndans sem var vakinn og sofinn yfir þessu afkvæmi sínu. Börnin fóru ekki varhluta af tilveru Kjöríss hf. Það var ekki aðeins að þau fengju oftar ís en aðrir krakkar, þau voru ekki há í loftinu þegar þau fóru að hjálpa til við reksturinn. Systurnar Aldís og Guðrún starfa nú báðar við fyrirtækið. Aldís annast öll innkaup og Guðrún sér um daglega stjórnun. Bróðirinn Valdimar er í námi í Reykjavík og yngsta systirin Sigurbjörg í skóla á Selfossi. Valdimar býr í Hveragerði og þegar hann kemur heim úr skólanum liggur leiðin fyrst í Kjörís. Þau Valdimar og Sigurbjörg vinna bæði við fyrirtækið í skólafríum.

"Við hittumst á hverjum morgni í morgunkaffi hjá mömmu," segir Guðrún. Þar er lagt á ráðin um reksturinn og stjórnarformaðurinn hellir upp á könnuna. Það leynir sér ekki að fjölskyldan er samhent og ætlar ekki að láta deigan síga, þótt upphafsmannsins njóti ekki lengur við. "Þetta er ævistarf pabba og það var ekki í eðli hans að gefast upp," segir Guðrún. Í vor tekur Valdimar við stjórntaumnum þegar Guðrún fer í barneignafrí. "Ég er samt ekkert að hætta," segir hún. "Ég mun koma hér daglega auk þess sem ég held áfram að mæta í morgunkaffið!"

Erfið upphafsár

Hafsteinn Kristinsson lærði mjólkurfræði og stundaði framhaldsnám í faginu í Noregi og Danmörku. Að námi loknu gerðist hann ráðunautur í mjólkuriðnaði og hjá Búnaðarfélaginu. Hafsteinn vissi að ostaneysla Íslendinga var þá miklu minni en nágrannaþjóða og ákvað að setja upp ostagerð í Hveragerði í samvinnu við nokkra bændur í Ölfusi. Þar framleiddi Hafsteinn meðal annars camenbert, port salut og Ölfusjógúrt. Nokkru eftir að þessi einkarekna ostagerð hóf starfrækslu setti Framleiðsluráð landbúnaðarins niðurgreiðslur á allar gerðir osta nema svonefnda sérosta eins og þá sem Hafsteinn framleiddi. Grundvellinum var kippt undan ostagerðinni og tækin seld Mjólkurbúi Flóamanna.

Hafsteinn stóð uppi atvinnulaus en átti húsnæði ostagerðarinnar. Hann stofnaði Kjörís hf. 1968 og hóf framleiðslu rjómaíss úr smjöri veturinn 1969. Þremur mánuðum eftir að Kjörís hf. hóf ísframleiðslu í beinni samkeppni við ísgerð Mjólkursamsölunnar barst Hafsteini aftur bréf frá Framleiðsluráði landbúnaðarins. Nú hafði verið tekin ákvörðun um að hætta niðurgreiðslu smjörs og rjóma til ísgerðar. Hafsteinn lét ekki beygja sig öðru sinni og hélt áfram ísgerð, en úr jurtafitu í stað mjólkurfitu. Nokkru síðar var aftur farið að niðurgreiða mjólkurfitu til ísgerðar. Eitt helsta hráefni í Kjörís er íslensk landbúnaðarframleiðsla, en það er undanrennuduft.

Hægur vöxtur

Hafsteinn bryddaði upp á ýmsum nýjungum í ísgerðinni. Hann bauð upp á úrval af íspinnum sem strax nutu mikilla vinsælda. Auk þess var boðið upp á pakkaís til heimilisnota. Vöxtur fyrirtækisins hefur verið jafn fram á þennan dag. Sjö sinnum hefur verið byggt við gömlu ostagerðina sem var 250 fermetrar að stærð. Húsnæðið er af af sumum uppnefnt "Bútapest" og er nú 3500 fermetra stórt.

Hjá Kjörís hf. eru nú unnin 27 ársverk og gegna þeim um 30 einstaklingar. Öll starfsemi fyrirtækisins er nú í Hveragerði en um tíma var söludeildin staðsett í Reykjavík. Við flutning söludeildarinnar austur árið 1991 sköpuðust þar 8 störf auk þess sem mikil hagræðing fylgdi því að hafa fyrirtækið allt undir einu þaki. "Eftir flutninginn fengum við miklu betri yfirsýn yfir reksturinn og sterkari tengsl við sölumennina. Nú hittum við þá kvölds og morgna en áður hitti pabbi þá jafnvel ekki nema einu sinni í viku," segir Guðrún.

Fjölbreytt framleiðsla

Framleiðsla Kjöríss hf. skiptist í nokkur meginsvið. Fyrst er að nefna ís til heimilisnota sem seldur er í eins og tveggja lítra pakkningum og ýmsar gerðir af ístertum. Í þessum vöruflokki er einnig framleiddur ís fyrir vörumerkið Bónus. Mikið úrval er af pinnaís, bæði jurtaís og klökum. Kjörís framleiðir ísblöndu fyrir ísvélar sem víða er að finna í söluturnum og ísbúðum. Fyrirtækið stærir sig af því að geta boðið allt sem þarf til íssölu. Bæði ísvélar, brauðform og pappírsform, íssósur, munnþurrkur auk þess að annast viðhald á ísvélum. Einnig eru framleiddir tugir bragðtegunda af svonefndum kúluís, sem seldur er í ísbúðum.

Stöðugt er unnið að vöruþróun hjá Kjörís hf. og stýrir Margrét Reynisdóttir matvælafræðingur því starfi. Vikulega hittist vöruþróunarhópur og þar eru ræddar nýjar hugmyndir. Í þessum hópi eru auk þeirra Guðrúnar og Margrétar fólk úr söludeild og framleiðsludeild. Guðrún segir að starfsfólkið sé ófeimið við að koma með nýjar hugmyndir. Vakandi auga er haft með því sem gerist í íssölumálum erlendis. Guðrún segir að um næstu mánaðamót sé að vænta nýjunga hjá Kjörís, en hún vill ekki fara nánar út í þá sálma.

Ánægjuleg samvinna

Nýjasta varan hjá Kjörís hf. eru lítil súkkulaðihúðuð ísstykki og komu þau á markað fyrir síðustu jól. Þessi vara er framleidd í samvinnu við sælgætisgerðina Nóa og Síríus og er hjúpurinn úr Síríus-súkkulaði. Guðrún segir að samstarf þessara fyrirtækja hafi byrjað fyrir jólin 1992 með framleiðslu svonefndrar konfektístertu. Samstarfið gat einnig af sér sælgætisbitana og í bígerð eru fleiri nýjungar þar sem Kjörís og Nói-Síríus leggjast á eitt. Guðrún segir sérlega ánægjulegt að tvö íslensk iðnfyrirtæki skuli geta unnið sameiginlega að vöruþróun og framleiðslu líkt og hér hefur gerst.

Hörð samkeppni

Samkeppnin á ísmarkaðnum er hörð. Allt frá byrjun hefur Kjörís hf. keppt við ísgerð Mjólkursamsölunnar, sem er hluti af umfangsmiklu afurðastöðvakerfi landbúnaðarins. "Til skamms tíma var Mjólkursamsalan ríkisstyrkt og samkeppnin ekki á jafnréttisgrundvelli," segir Guðrún. Kjörís hefur haldið velli þrátt fyrir samkeppnina og nú er fyrirtækið annað tveggja sem eru ráðandi á markaðinum. Til viðbótar eru nokkrar ísbúðir sem framleiða eigin ísblöndu.

Guðrún telur að Kjörís hf. hafi 35­40% markaðshlutdeild í heimilisís og pinnaís en nær 50% hlutdeild í sölu ísblöndu og efna til ísbúða. Hún segir að þessi hlutföll hafi haldist nær óbreytt undanfarin fjögur til fimm ár. Salan er nokkuð árstíðabundin og fylgir sólinni, eins og Guðrún segir. Sumarið er aðalsölutími pinnaíss og ísblöndu, fyrir stórhátíðir taka heimilispakkningarnar og ísterturnar kipp.

Hveragerði kjörinn staður

Guðrún telur mjög heppilegt að reka fyrirtæki sem Kjörís í Hveragerði. Höfuðborgarsvæðið með Suðurnesjum er stærsti markaður landsins og þangað er innan við klukkutíma akstur frá Hveragerði. Í bænum fæst ódýr hitaorka, vinnuaflið er mjög stöðugt og mikil samkennd meðal íbúanna. "Í jafn litlu samfélagi og hér skiptir 30 manna vinnustaður máli," segir Guðrún.

Samkeppnin innanlands hefur verið hörð og um næstu áramót telur Guðrún að vænta megi samkeppni frá erlendum ísframleiðendum. Hún segir að Kjörís hf. muni mæta aukinni samkeppni með öflugri vöruþróun. En er ekki hægt að flytja ís til útlanda?

Guðrún segir föður sinn hafa átt samstarf við færeyska ísgerð og selt þangað íssósur og umbúðir. Þau hjá Kjörís hf. hafa ekki stigið nein skref í þá átt að undirbúa útflutning en segjast vera vel samkeppnisfær í verði við það sem gerist á Norðurlöndum, að minnsta kosti í pinnaísum. Þar sé aftur meiri breidd í heimilispakkningum, bæði hægt að fá ódýrari og dýrari ís.

Víðtækt dreifingarnet

Fyrirtækið dreifir sjálft framleiðslu sinni allt austur til Víkur í Mýrdal og vestur á Snæfellsnes og á svæðið þar á milli. Við dreifinguna eru notaðir fimm flutningabílar með frystigeymslum sem aka daglega með framleiðsluvöur frá Hveragerði. Kjörís hf. hefur umboðsmenn í Vestmannaeyjum, á Reyðarfirði, Akureyri og Ísafirði. Þeir dreifa vörum fyrirtækisins á sölustaði þannig að vörur Kjöríss fást um allt land. Ísblandan er send frosin til ísbúða úti á landi. Að sögn Guðrúnar sker ekkert landsvæði sig úr varðandi markaðshlutdeild Kjöríss hf. nema þá helst Hveragerði en þar er ekki hægt að fá ís úr vél nema frá Kjörís.

Hollt góðgæti

Guðrún heldur því fram að jurtaís sé hollmeti. "Það er mesti misskilningur að ís sé fitandi," segir hún brosandi og bendir sannfærandi á Valdimar bróður sinn til sannindamerkis. Valdimar er tágrannur og kvikur á fæti þrátt fyrir að hann leggist ekki á koddann fyrr en hann er búinn að borða þrjá Lúxus-íspinna, eftir því sem Guðrún fullyrðir. Hún tekur það fram að vissulega sé hóf best á öllu, en til dæmis um hollustuna nefnir hún að í jurtaís sé ekkert kólesteról og efnainnihald íssins heilsusamlegra en flestra tegunda sælgætis. Guðrún segist ekki fá leið á ís, en vera vandlát. Hennar uppáhald er vanilluís með bönunum og súkkulaðisósu, henni þykir líka svonefndur ananas-hlunkur hið mesta góðgæti. Guðrún segir að sér finnist góðri máltíð ekki lokið fyrr en búið er að bera fram ís. Í þessari miklu ísfjölskyldu er þó gerð undantekning frá reglunni á aðfangadagskvöld. "Þá býr mamma til sítrónubúðing, en við fáum okkur ís á jóladag!"

Morgunblaðið/Þorkell Þorkelsson

"Maður fær aldrei leið á ís," segir Guðrún Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Kjöríss hf. í Hveragerði.

Systkinin Aldís, Valdimar og Guðrún Hafsteinsbörn fyrir framan fjölskyldufyrirtækið Kjörís. Systir þeirra Sigurbjörg og Laufey móðir þeirra voru fjarverandi þegar myndin var tekin.