Helga Sigríður Þorsteinsdóttir fæddist á Öxl í Austur-Húnavatnssýslu 30. apríl 1915. Hún lést 7. febrúar 2011.

Útför Helgu var gerð frá Melstaðarkirkju í Miðfirði 19. febrúar 2011.

Góð vinkona og traustur félagi er fallinn frá. Við leiðarlok finnum við þörf fyrir að tjá þakkir okkar og minnast þess sem við áttum með henni. Mörg góð augnablik eða stundir sem í minningunni eru dýrmætar.

Helga á Bessastöðum var ein fyrsta konan sem nýi presturinn hitti og kynntist þegar ég kom í Miðfjörðinn, og betri manneskju hefði varla verið hægt að velja. Hún sagðist vera vön að umgangast presta, sem var alveg rétt, því hún var lengi í sóknarnefnd og tengdadóttir hennar organisti, og svo átti hún til presta að telja ættir. En eftir á að hyggja var hún kannski að hugsa um það að hún passaði alveg upp á það að maður væri ekki of alvarlegur of lengi í einu. Fyrir ungan prest var það gott að hitta þessa ráðagóðu konu sem lét sér annt um málefni kristindómsins og kirkjunnar, hollráð og velviljuð, en jafnframt glettnisleg til augnanna og spaugsöm í tali. Það fór varla framhjá neinum að hún virti vel forn minni, sögu staðanna og ekki síst forfeðranna, og miðlaði því til þeirra sem þiggja vildu. Eins og góð ættmóðir stóð hún vörð bæði um minningar fortíðarinnar og drauma framtíðarinnar. Um leið voru fáar sem báru betur virðingar- og heiðurstitilinn húsmóðir á íslensku sveitaheimili, þar sem gestrisni er veitt í hvívetna. Við hjónin kynntumst því bæði, og síðari árin líka börnin okkar, að gott var að setjast niður með henni og ræða málin, því þótt hún hefði reynt ýmislegt í lífinu sá hún alltaf björtu hliðina og var aldrei niðurdregin, óánægð eða leið. Hafi hún átt það til sá maður það aldrei. Alltaf gaf hún sér tíma til að spjalla, og ekki síst var hún örlát á tíma sinn við ungu kynslóðina, sem lærði margt af henni og minnast hennar með þökk og virðingu. Viðhorf hennar til lífsins var smitandi og eftirminnilegt. Ákveðin og fylgin sér, sagði sína meiningu, og mörgu kom hún til leiðar sem við njótum nú ávaxtanna af. Það er gott að minnast hennar og áreiðanlega verður henni best þakkað með því að standa nú áfram vörð um þau gildi sem hún virti, og allt það og öll þau sem henni þótti vænt um. Helga dó södd lífdaga, en samt kemur kallið aldrei á góðum tíma. Við biðjum Guð að styrkja fjölskyldu hennar í þeim erfiðu verkefnum sem þau nú þurfa að kljást við. Guð blessi minningu Helgu Þorsteinsdóttur.

Guðni og Guðrún Lára,

Melstað.

Tengdamóðir mín, Helga Þorsteinsdóttir, var jarðsungin laugardaginn 19. febrúar frá Melstaðarkirkju i Miðfirði. Við erum komin öll fjölskyldan frá Tromsö, Noregi, til að fylgja henni til grafar og til að vera með stórfjölskyldunni á þessari stund.

Elsku Helga, móðir, tengdamóðir og amma! Ég var kannski ekki mjög ung, en feimin og óörugg þegar Steini, íslenski kærastinn minn, bauð mér árið 1979 með heim til Bessastaða í Hrútafirði, þar sem hann ólst upp. Helga, móðir hans, lét ekki feimni mína stoppa sig, en opnaði faðm sinn af áhuga og bauð mig hjartanlega velkomna í fjölskylduna. Síðan hefur hún alltaf verið mèr og okkur öllum afar góð og skemmtileg, til hjálpar og stuðnings, ekki síst börnum okkar Einari Braga, Helgu Björk og Jóhannesi Erni.

Það var alltaf gaman og gott fyrir börnin okkar að koma á Bessastaði, til ömmu, Lóu og hins fólksins sem alltaf tók vel á móti og var gott og skemmtilegt við þau. Síðan höfum við heimsótt hana á Hvammstanga, í Nestún og á sjúkrahúsið, og alltaf hefur hún verið jákvæð og tekið á móti okkur með gestrisni og glaðværð.

Helga kom út og heimsótti okkur mörgum sinnum. Við ferðuðumst saman í Norður-Noregi, líka í Danmörku. Henni fannst gaman að sjá aðra lífshætti en hún var vön, og við höfum oft tekið eftir hæfileika hennar til að vera í samskipum við manneskjur sem töluðu annað tungumál en hennar. Hún bara talaði og hlustaði, og náði alltaf mjög góðu sambandi við fólkið.

Helga amma var vitur og lífsreynd manneskja sem sá ljósu hliðar lífsins. Við sem vorum í kring um hana fengum að njóta lífsgleði hennar og reynslu. Ég er þakklát fyrir að Helga var tengdamóðir mín og amma barnanna okkur. Ég bið Guð að blessa minningu hennar.

Kari Nedgaard.