25. febrúar 2011 | Innlendar fréttir | 464 orð | 2 myndir

Farið á svig við dóm Hæstaréttar

• Forseti lagadeildar HÍ telur skipan sömu einstaklinga og urðu hlutskarpastir í stjórnlagaþingskosningunni í stjórnlagaráð ekki hvíla á traustum forsendum • Prófessor við HR hefði viljað uppkosningu

Róbert Spanó
Róbert Spanó
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is „Niðurstaða Hæstaréttar verður ekki skilin með öðrum hætti en svo að kosningin til stjórnlagaþings hafi verið ótraust, að hún hafi byggst á annmörkum á löggjöfinni um stjórnlagaþingið, þ.e.a.s.
Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Niðurstaða Hæstaréttar verður ekki skilin með öðrum hætti en svo að kosningin til stjórnlagaþings hafi verið ótraust, að hún hafi byggst á annmörkum á löggjöfinni um stjórnlagaþingið, þ.e.a.s. að ekki hafi verið fylgt þeim efnisreglum sem gilda um kosningu til stjórnlagaþings,“ segir Róbert Spanó, prófessor og forseti lagadeildar Háskóla Íslands, spurður um það meirihlutaálit samráðsnefndar um stjórnlagaþing að Alþingi skipi stjórnlagaráð með sömu einstaklingum og náðu bestum árangri í stjórnlagaþingskjörinu.

Ekki á traustum forsendum

„Það er ekki hægt að ganga út frá því með réttu að vera þeirra 25 á lista yfir þá sem urðu hlutskarpastir í stjórnlagaþingskosningunum sé byggð á traustum forsendum. Velji stjórnmálamenn á Alþingi að þessir 25 skipi einhverja slíka nefnd eða ráð verður það að vera byggt á öðrum málefnalegum forsendum en þeim að þeir hafi hlotið kosningu í þessum tilteknu kosningum sem voru metnar ógildar. Sú niðurstaða að þeir 25 sem voru í upphaflega hópnum skuli sitja í þessu ráði er ekki traust,“ segir hann og víkur að umsögn nefndarinnar.

„Í tilkynningu frá samráðsnefndinni er það orðað þannig að val á þessum 25 einstaklingum sé ekki í ósamræmi við dóm Hæstaréttar, þar sem af dómnum verði ekki dregnar neinar ályktanir um það að niðurstaða kosninganna sé byggð á einhverju misferli eða því að Hæstiréttur hafi metið það svo að þeir annmarkar sem voru á kosningunni hafi haft áhrif á úrslit þeirra.

Að mínu áliti verður niðurstaða Hæstaréttar ekki skilin með öðrum hætti en svo að þeir annmarkar sem Hæstiréttur taldi vera á stjórnlagaþingskosningunni, sem í tveimur tilvikum voru taldir verulegir, hafi í eðli sínu verið til þess fallnir að hafa áhrif á úrslit kosninganna.“

Löglegt en óheppilegt

Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, vísar einnig til Hæstaréttar.

„Það er í sjálfu sér heimilt að breyta lögunum um stjórnlagaþing og ákveða að það verði skipað með einhverjum öðrum hætti en með kosningu. Mér finnst þetta hins vegar óheppilegt. Hæstiréttur tók, hvort sem menn eru sammála því eða ósammála, ákvörðun um að ógilda þessar kosningar, enda væru ágallarnir það alvarlegir að hann ætti ekki annarra kosta völ. Mér finnst þessi tillaga óheppileg, vegna þess að hún felur í sér að Alþingi setur sitt mat á því hvort það átti að ógilda kosninguna á grundvelli þessara annmarka í stað mats Hæstaréttar.“

– Ætti að fara fram uppkosning?

„Já. Ég hefði verið sáttari við það. Fram fóru almennar kosningar í landinu sem Hæstiréttur er búinn að ákveða að séu ógildar. Engu að síður metur Alþingi það svo að það verði byggt á þeim. Það er ekki heppileg mynd sem þarna er gefin af stjórnskipuninni. Íslendingar myndu segja eitthvað ef þetta væri gert í öðrum löndum.“

Fjórir flokkar
» Fulltrúar VG, Samfylkingar, Framsóknar og Hreyfingarinnar lögðu til að ráðgefandi stjórnlagaráð yrði skipað með þingsályktun en Sjálfstæðisflokkur skilaði séráliti.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.