Helga Sigríður Þorsteinsdóttir fæddist á Öxl í Austur-Húnavatnssýslu 30. apríl 1915. Hún lést 7. febrúar 2011.

Útför Helgu var gerð frá Melstaðarkirkju í Miðfirði 19. febrúar 2011.

Helga á Bessastöðum hefur kvatt þennan heim. Hún náði háum aldri – varð tæplega 96 ára. Það er margt sem kemur fram í hugann þegar hennar er minnst. Eftirminnileg eru mér árin um 1950. Þá vorum við systurnar á Söndum að nálgast fermingu. Við vorum oft hjá Helgu haust og vor við hreingerningar eða sláturgerð. Einn dag að vori kom Helga: „Stína mín, nú vantar mig hjálp.“ Mamma svarar: „Hverja viltu?“ Helga hló sínum hvella hlátri: „Helst tvær.“ Daginn eftir löbbuðum við Dóra yfir háls og leiddist það ekki. Ávallt var glaðværð og gott að vera á Bessastöðum.

Þær voru miklar vinkonur mamma og Helga. Jafnan fylgdu þær hvor annarri eftir heimsóknir áleiðis, upp á Grensbarð eða Kattarhryggi, þurftu mikið að spjalla, voru drifkraftar kvenfélagsins og fóru saman í alls kyns ferðalög. Þær fóru m.a. að Arnarvatni í veiðiferðir með Jón Sveinsson á Hnausakoti sem leiðsögumann. Hann var síðar spurður hvað þær stöllur væru að gera frammi við vatn, „spila marías og tína fjallagrös“, svaraði Jón.

Mannmargt var á Bessastöðum, systkinin Ingunn, Bjarni og Einar, Helga og börnin sex. Eldri strákarnir, Björn, Högni og Bjarni Þór, fóru snemma að hjálpa föður sínum við útiverkin. Ekki voru þeir háir í loftinu þegar von var á vörubíl frá Hvammstanga. Hafði snjóað mikið í sneiðinginn en þeir höfðu fengið nýjar skóflur og mokuðu þeir hálfan daginn með pabba sínum. Eitt haustið vorum við í slátri með Helgu, það var snjór og kalt. Það var lúga á kjallaraglugga í eldhúsinu. Högni rak höfuðið inn um lúguna og kallaði: „Ingunn mín, fáðu mér ullarvettlingana mína, mér er svo gríðarlega kalt á höndunum.“ Þetta var gjarnan þeirra orðatiltæki. Ingunn sá jafnan um allt prjónles á bænum.

Eitt sinn eftir áramót gengum við mamma í Bessastaði. Helga segir að nú þurfi saumakonu og auðvitað var farið að vinna strax í því. Ásta á Mýrum, sem þá var saumakona í Kápunni í Reykjavík, fékk snarlega frí og kom í Sanda. Hún dvaldi hjá okkur í tvær vikur og var sniðið og saumað. Ásta vafði föður mínum um fingur sér, sem lét venjulega ekki vel að stjórn, og fékk hann til að smíða ermabretti sem kom næsta dag. Það var skemmtilegur hávaðinn í bænum þessa daga. Börn og unglingar voru ævinlega í sveit hjá Einari og Helgu á þessum árum. Við hittumst krakkarnir á berjamó eða í útreiðartúrum. Þá beið okkar kakó og pönnukökur á Bessastöðum. Eins man ég eftir þegar Sigurður póstur frá Jaðri kom, þá voru settar upp svuntur, lagað gott kaffi og þeir Einar sögðu sögur. Helga dvaldi í Nestúni á Hvammstanga í þó nokkur ár en nú síðast á sjúkrahúsinu eftir að heilsunni fór að hraka. Þar var mjög vel hugsað um hana hjá frábæru starfsfólki sem þar hefur unnið árum saman, það þekki ég af eigin raun. Helga er ein af mestu kvenstólpum sem ég hef kynnst um ævina, óskaplega heilsteypt og hreinlynd manneskja, alltaf tilbúin að styrkja og styðja aðra ef með þurfti.

Við Sigfús, börnin okkar og systkini mín þökkum Helgu samfylgdina öll þessi ár. Samúðarkveðjur til stórfjölskyldunnar. Guð geymi ykkur öll.

Valgerður Þorvarðardóttir.