Verðmæti „Tölur frá Bretlandi sýndu að virðisauki starfsmanns í UT-geiranum er 2,5 meiri en hjá meðalstarfsmanni yfir alla geira,“ segir Arnheiður og bendir á að borgi sig því að hlúa vel að UT-geiranum.
Verðmæti „Tölur frá Bretlandi sýndu að virðisauki starfsmanns í UT-geiranum er 2,5 meiri en hjá meðalstarfsmanni yfir alla geira,“ segir Arnheiður og bendir á að borgi sig því að hlúa vel að UT-geiranum. — Morgunblaðið/Sigurgeir S
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

„Þegar félagið var stofnað árið 1968, sem félag áhugamanna um upplýsingatækni, þá held ég að engan hafi órað fyrir því hvernig tölvutæknin myndi verða alls staðar og allsráðandi í lífi okkar,“ segir Arnheiður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Skýrslutæknifélags Íslands. Skýrslutæknifélagið, eða Ský eins og það er kallað dagsdaglega, er félagsskapur einstaklinga og fyrirtækja sem starfa á sviði upplýsingatækni. Félagið stendur fyrir fundum og ráðstefnum og er samstarfs- og samráðsvettvangur fyrir UT-geirann.

Og upplýsingatæknigeirinn er sko engin smásmíði: „Í tölum sem teknar voru saman árið 1998 af Hagstofu Íslands töldust um 150 fyrirtæki hér á landi vera upplýsingatæknifyrirtæki og í dag eru þau að nálgast 300. Inni í þeirri tölu eru þó ekki fyrirtæki sem reka sérstakar upplýsingatæknideildir sem hluta af sinni vöruþróun og þjónustu, eins og t.d. framleiðendur véla fyrir fiskiðnaðinn,“ útskýrir Arnheiður. „Fjöldi starfsmanna hjá upplýsingatæknifyrirtækjum hefur þróast á sama tíma frá því að vera um 1.500 og upp í um 2.700.“

Stæðilegir öldungar og sprækir sprotar

Mörg af stöndugustu fyrirtækjum landsins starfa á sviði upplýsingatækni og koma upp í hugann nöfn eins og Skýrr, Nýherji og CCP. „Við höfum aðila á borð við Frisk, fyrirtæki Friðriks Skúlasonar, sem byggir á gömlum grunni og vann frumkvöðlastarf í útflutningi hugbúnaðar frá Íslandi, og leikjafyrirtæki eins og CCP sem er í dag með yfir 300.000 áskrifendur um allan heim. Upp úr kreppuárinu 2008 sjáum við svo spretta fjölda sprotafyrirtækja sem einbeita sér að hugbúnaði fyrir snjallsíma.“

Arnheiður segir þróunina árið 2008 hafa verið athygliverða fyrir margra hluta sakir. Margir hafi átt von á því versta en raunin hafi orðið sú að upplýsingatæknigeirinn styrktist ef eitthvað er. Hluta skýringarinnar segir Arnheiður að sé að leita í því að samkeppni við bankana um hæfileikafólk hafi minnkað. „Og þegar kreppa skellur á fer fólk einfaldlega að reyna að bjarga sér og finna upp eitthvað nýtt,“ segir hún.

Bagalegur skortur á fólki

Þrátt fyrir þann vöxt sem Arnheiður talar um stendur upplýsingatæknigeirinn frammi fyrir alvarlegum hindrunum í dag og segir Arnheiður störfum í geiranum fara fækkandi vegna minnkandi framboðs á tölvu- og tæknimenntuðu fólki. Vandinn er ekki bundinn við Ísland og segir Arnheiður að spár hljóði upp á að árið 2015 muni í Evrópu einni og sér skorta um 400.000 sérfræðinga til að mæta þörfum upplýsingatæknigeirans. „Við erum að sjá æ færri fara þessa leið í námi sínu og mjög erfitt yfirhöfuð að fá fólk í UT-geirann,“ segir Arnheiður og bætir við að þess séu farin að greinast merki að fjármálageirinn sé farinn á ný að yfirbjóða hugbúnaðarfyrirtækin á vinnumarkaði.

Ekki er auðvelt að finna skýringu á því hvers vegna ungt fólk í dag hefur ekki meiri áhuga á tölvunarfræði en raun ber vitni. Sjálf skýrir Arnheiður hlæjandi frá því að hennar heimili sé engin undantekning. Bæði eru hún og maðurinn hennar UT-fólk en unglingurinn á heimilinu hafi ekki minnsta áhuga á að feta í fótspor foreldranna. „Ein ástæðan held ég að sé sú að krakkar hreinlega vita ekki um hvað tölvunarfræði snýst og hafa ranghugmyndir um starfið. Tölvunarfræði felst ekki í því að vera úti í horni allan daginn að leysa óskiljanlegar forritunarþrautir. Auðvitað eru áherslunar mismunandi eftir verkefnum en starfið kallar í mörgum tilvikum mikið á samskipti og greiningu á þörfum viðskiptavina, og atriði eins og hönnun útlits og viðmóts,“ segir hún. „Kannski væri eitt skref í rétta átt að gera námið fjölbreyttara hér á landi, en efnistökin eru nokkuð svipuð við HÍ og HR.“

Gott starf en ekki í tísku?

Tölvunarfræðin var mjög „kúl“ fyrir um áratug, og segir Arnheiður það m.a. hafa verið vegna þess að starfið þótti þá bjóða upp á há laun. Meira að segja hafði starf tölvunarfræðingsins yfir sér ákveðinn ævintýrablæ sem rataði inn í kvikmyndirnar. Er hægt að nefna persónur Angelinu Jolie, Juliu Roberts og svo auðvitað Matrix-kempuna Keanu Reeves sem dæmi um forritarahetjur Hollywood í kringum aldamótin.

Tölvunarfræðingar hafa enn góð laun og atvinnuleysi þekkist varla hjá þeim, en eftir netbóluna færðist áhugi unga fólksins yfir í viðskiptafræði og lögfræði í takt við vöxt fjármálageirans. „Stelpurnar hafa t.d. nær alveg horfið úr upplýsingatæknináminu,“ segir Arnheiður.

Skorið niður á röngum tíma

Hluta af styrkleika upplýsingatæknigeirans vill Arnheiður skýra með sterkri stefnu ríkis, stofnana og sveitarfélaga um aukna tölvuvæðingu og rafræna þjónustu. „Alls kyns þjónusta hefur verið þróuð til að vera aðgengileg með rafrænum hætti. Nú síðast hafa áætlanir um rafrænar sjúkraskrár og innleiðing rafrænna skilríkja verið vítamínsprauta fyrir hluta upplýsingatæknigeirans.“

Í því ljósi veldur það áhyggjum að fjárfesting hins opinbera hér á landi í upplýsingatækni hefur dregist verulega saman síðustu tvö árin. „Samdrátturinn nam 16,5% árið 2009 og 18% árið 2010. Á meðan við erum að reyna að fá fleiri nemendur til að leggja fyrir sig tölvunám er menntamálaráðuneytið að draga úr framlögum til menntunar í upplýsingatækni.“

Hvað varðar fjárfestingu í upplýsingatækni kveðst Arnheiður óttast að sparnaðaraðgerðir þar geti reynst dýrari þegar upp er staðið. „Í Danmörku var m.a. mælt að rafrænir reikningar bara hjá opinberum aðilum spöruðu ríkinu um 24 milljarða á ári og fyrirtækjunum aðra 8 milljarða til viðbótar,“ segir hún. „Hvað snýr að menntun í upplýsingatækni þá sýndu nýlegar tölur í Bretlandi að virðisauki starfsmanns í UT-geiranum er 2,5 sinnum meiri en hjá meðalstarfsmanni yfir alla geira. Þetta hlýtur að segja okkur að í kreppu ætti ef eitthvað er að styðja betur við upplýsingatækniiðnaðinn.“