13. mars 2011 | Sunnudagsmoggi | 561 orð | 2 myndir

Mannskætt flugslys við Búðardal

Á þessum degi 13. mars 1947

Forsíða Morgunblaðsins 14. mars 1947.
Forsíða Morgunblaðsins 14. mars 1947.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mennirnir á ferjubátnum sem fylgst höfðu felmtri slegnir með framvindunni reru lífróður út að flugvélinni.
Í gærdag hrapaði í sjóinn vestur við Búðardal Grumman flugbátur er var að leggja af stað. Í honum voru átta manns. Af sjö farþegum fórust fjórir. Tvær konur, önnur hjeðan úr Reykjavík, en hin frá Búðardal, og tveir karlmenn. Annar frá Ísafirði en hinn frá Búðardal. Af þeim fjórum sem bjargað var slapp aðeins einn ómeiddur. Er slysið vildi til, var veður hið besta og ládauður sjór.“

Með þessum orðum hófst frétt á forsíðu Morgunblaðsins föstudaginn 14. mars 1947.

Vélin var að koma frá Vestfjörðum, þar sem hún tók farþega um borð á Ísafirði og Djúpuvík. Hún settist á sjóinn skammt fyrir framan Búðardal og fimm farþegar, sem ætluðu að taka sér far með flugvélinni til Reykjavíkur, voru fluttir þangað út á bát. Eftir litla stund renndi flugmaðurinn vélinni til flugs og lyftist hún, að sögn sjónarvotta, lítið eitt upp frá sjávarfletinum. Síðan sáu menn sér til mikillar skelfingar að vélin tók að hallast, hvolfdist yfir á vinstri væng og snerist með þeim afleiðingum að hún lenti á hvolfi í sjónum, maraði þar í kafi.

Mennirnir á ferjubátnum sem fylgst höfðu felmtri slegnir með framvindunni reru lífróður út að flugvélinni. Fimm af þeim átta sem í vélinni voru höfðu komist út af sjálfsdáðum gegnum dyr vélarinnar, þeirra á meðal flugmaðurinn. Í samtali við Morgunblaðið daginn eftir sagði Eiður Sigurðsson, sem var í ferjubátnum ásamt Aðalsteini Guðmundssyni, að greiðlega hefði gengið að bjarga þeim sem út úr vélinni komust. Gerði hann ráð fyrir að liðið hefðu um 15 til 20 mínútur frá því að flugvélin hrapaði þangað til fólkið var komið í bátinn. En að því búnu taldi hann að ekkert viðlit hefði verið að bjarga þeim sem inni í vélinni voru. Flugvélin var þá löngu orðin full af sjó og sennilega hefðu farþegarnir aldrei náð að losa sig úr sætisbeltum.

Eiður og Aðalsteinn reru í land með farþegana fimm. Fjórir voru með meðvitund en einn ekki með lífsmarki. Þegar í land var komið hóf héraðslæknir lífgunartilraunir en þær báru ekki árangur. Flugmaðurinn særðist á höfði, kona handleggsbrotnaði en tveir karlar sluppu lítið sem ekkert meiddir úr þessum hildarleik.

Við komuna í land stukku aðrir menn strax út í ferjubátinn og ætluðu að freista þess að ná þeim sem fastir voru í flugvélinni. Þeir voru ekki komnir nema skammt frá landi þegar flugvélarflakið sökk.

Þau sem fórust með flugbátnum voru frú Elísabet Guðmundsdóttir, Búðardal, kona Magnúsar Rögnvaldssonar verkstjóra; frú María Guðmundsdóttir, ekkja Guðjóns Gamalíelssonar húsameistara, frá Bergstöðum við Bergstaðastræti, Reykjavík; Einar Oddur Kristjánsson, gullsmiður á Ísafirði. Hann lét eftir sig konu og þrjú uppkomin börn; Magnús Sigurjónsson frá Hvammi í Dölum. Hann var ungur maður og einhleypur.

Við rannsókn slyssins kom fram að flugmaðurinn taldi að vinstri hreyfill flugvélarinnar hefði bilað. Hann hafði heyrt annarlega skelli frá hreyflinum. Hann hafði gert tvær misheppnaðar tilraunir til að koma vélinni á loft áður en það tókst í þriðju atrennu. Ísing var á framrúðu vélarinnar. Skyndilega tók vélin að halla yfir á vinstri hlið og gerði flugmaðurinn, að því er fram kom við rannsóknina, ítrekaðar tilraunir til að rétta hana af en án árangurs. Hún féll því stjórnlaus í hafið. Þremur dögum síðar tókst að ná flugvélinni af hafsbotni og líkunum þremur sem í henni voru. Við aðgerðina brotnaði flakið í tvennt.

Í skýrslu sinni um viku eftir slysið komst skoðunarmaður flugvéla að þeirri niðurstöðu að annað tveggja hefði valdið slysinu, vélarbilun eða ofris.

orri@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.