Sóknarmenn Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir hafa náð góðum árangri í viðskiptalífinu.
Sóknarmenn Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir hafa náð góðum árangri í viðskiptalífinu. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BAKSVIÐ Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

BAKSVIÐ

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Icelandair Group og tvíburabræðurnir Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir hafa undanfarin sex ár kannað möguleika á því að opna löglegan spilasal eða casino hérlendis að danskri fyrirmynd til styrktar íslensku atvinnulífi. Þeir segja að löglegt casino skapi ný störf, efli ferðaþjónustuna og búi til nýjan skattstofn, en þeir áætla að árlegar tekjur ríkisins yrðu um 450 til 750 milljónir króna.

Ábyrg spilamennska ehf., félag sem bræðurnir hafa stofnað með Icelandair Hotels, dótturfélagi Icelandair Group, hefur safnað saman upplýsingum um rekstur casinos og sett saman í kynningarbók, sem byrjað er að kynna þeim sem málið varðar. Ósk félagsins er að Alþingi skipi nefnd allra sem hlut eiga að máli til að fara rækilega ofan í málið með það að markmiði að leggja spilin á borðið og fræða almenning um hvað sé hér á ferðinni frekar en að líta framhjá ólöglegri starfsemi.

Ólögleg starfsemi og spilafíkn

Bræðurnir benda á að nú séu starfræktir ólöglegir spilaklúbbar í Reykjavík, tvö casino og á annan tug pókerklúbba auk fjárhættuspila á netinu. Spilamennska sé stunduð í sjoppum, verslunarmiðstöðvum, á veitingastöðum, börum og víðar. Fjármunir séu auk þess lagðir undir í Lottói, á Lengjunni og í hvers konar happdrættum. Það eina sem vanti sé löglegt casino, sem ríkið hafi tekjur af í formi skatta.

Arnar segir að verði casino bannað áfram sé augljóst að mikil fjárhættustarfsemi færist enn frekar neðanjarðar. Reynsla erlendis sýni að betra sé að svona rekstur sé allur á yfirborðinu til að hægt sé að hafa eftirlit með starfseminni og hafa opinberar tekjur af henni. Lögleg starfsemi hafi líka sýnt að rekstur ólöglegra klúbba hafi snarminnkað í kjölfarið.

Góð reynsla í Danmörku

Dr. Daníel Þór Ólason, lektor við sálfræðideild Háskóla Íslands, vann skýrslu fyrir dóms- og kirkjumálaráðuneytið um spilahegðun og algengi spilavanda Íslendinga 2007. Þar kemur meðal annars fram að algengi spilafíknar á Íslandi er 0,3% í einni rannsókn og 0,5% í annarri, 0,3% í Noregi, 0,5% í Bretlandi og Kanada og 0,1% í Danmörku. Bræðurnir benda á að Norðmenn leyfi casino aðeins um borð í skemmtiferðaskipum en annars sé fjárhættuspil aðeins bannað á Íslandi í hinum vestræna heimi. Með öðrum orðum hafi ráðamenn ákveðið að betra væri að lögleiða casino en banna starfsemina. Reynslan í Danmörku sé góð og Ísland eigi að vera í fararbroddi þegar komi að ábyrgri spilamennsku. Núverandi ástand sé engum til góðs nema eigendum ólöglegra klúbba. Bjarki segir að tvöfeldni ríki í þessum málum hérlendis. Ýtt sé undir spilafíkn hjá börnum og unglingum með spilakössum í söluturnum og víðar, en aldurstakmark sé inn í casino og strangt eftirlit með gestum. Slíkt eftirlit geti beint spilafíkli á rétta braut. Þeir vilji vinna náið með Samtökum áhugafólks um spilafíkn og SÁÁ í þessu sambandi og færa megi fyrir því rök að spilafíkn minnki með löglegri starfsemi. Tíðni spilafíknar sé t.d. hlutfallslega minnst í Danmörku þar sem mikið og strangt eftirlit sé.

Bræðurnir minna á að um 1990 hafi Danir ákveðið að auka hlut ferðaþjónustunnar og hafi lögleitt casino. Síðan hafi leyfin verið endurnýjuð í þrígang og fyrirhugað sé að opna nýtt casino í Tívolí í ár. Hér þurfi að fjölga ferðamönnum á veturna og Harpan skapi ný tækifæri fyrir fjölmennar ráðstefnur. Mikil samkeppni ríki á þessu sviði og casino geri Reykjavík samkeppnisfærari.

Hugmyndin er að opnað verði casino á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu. Bræðurnir hafa kynnt málið fyrir hagsmunasamtökum og alþingismönnum og segjast hafa opnað augu margra fyrir nýjum tekjustofni. Þeir benda á að eyrnamerkja mætti hluta tekna ákveðnu góðgerðarverkefni eða átaki eins og til dæmis kynningu á vetrarferðum til Íslands. Aðalatriðið sé að eyða fordómum og auka fræðslu um kosti og galla löglegs casinos. Í því sambandi leggja þeir áherslu á að Alþingi kynni sér málið og komi á laggirnar nefnd sem kafi ofan í málið, en í nefndinni yrðu fulltrúar stjórnvalda, lögreglu, ferðaþjónustu, spilafíkla og SÁÁ. „Hvorki við né fyrirtæki á borð við Icelandair með mjög virta stjórnendur myndum nokkurn tímann mæla með casino nema hafa trú á að lögleiðingin væri í sátt og samlyndi við samfélagið,“ segir Arnar. „Mikilvægt er að umræðan sé fagleg og ef betri hugmyndir kvikna í kjölfarið er það af hinu góða.“

ÁBYRG SPILAMENNSKA

Tekjur og fleiri ferðamenn

Í október 2009 var iðnaðarráðherra sent bréf þar sem farið var fram á að hafinn yrði undirbúningur frumvarps til laga sem heimili rekstur á casino hérlendis undir ströngu eftirliti stjórnvalda. Ráðuneytið svaraði í apríl í fyrra og sagði að með hliðsjón af afstöðu heilbrigðisyfirvalda myndi ráðuneytið ekki, að svo stöddu, beita sér fyrir slíkum undirbúningi.

Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir segja að umræðan sé villandi og byggist á hræðsluáróðri. Þeir leggja áherslu á að fjárhættuspil hafi ekkert að gera með fíkniefni og vændi heldur sé þetta afþreying, sem skili viðkomandi ríkjum háum skatttekjum. Þeir hafi enda fengið góð viðbrögð, þegar þeim hafi gefist tækifæri til að útskýra málið.