Stóri dagurinn Frjáls stíll einkennir brúðarmyndir í dag, segir Kristín.
Stóri dagurinn Frjáls stíll einkennir brúðarmyndir í dag, segir Kristín.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Myndar mikla fegurð í lífi hjóna. Kristín Þorgeirsdóttir ljósmyndari segir fólk óhrætt við að velja eigin stíl í myndunum. Laugardalur er vinsæll fyrir myndatökur.

Brúðarmyndir eru öðruvísi en allar aðrar. Þetta er stóra stundin í lífi fólks þar sem hamingjan og ástin blómstra. Hún er ólýsanlega falleg og gaman að sjá mikla fegurð í lífi hjóna,“ segir Kristín Þorgeirsdóttir ljósmyndari. Hún hefur starfað sem ljósmyndari sl. sautján ár og fyrir nokkrum árum opnaði hún eigið stúdíó við Grænatún í Kópavogi. Í starfi sínu sinnir hún fjölbreyttum verkefnum og yfir sumarið eru brúðarmyndir þar stór hluti.

„Nei, ég get ekki sagt að tíska eða séróskir séu áberandi í brúðarmyndum í dag. Hver hefur sinn stíl og fólk er óhræddara við að fara eigin leiðir, vill ekki hafa myndatökuna of formlega eins og var hér áður fyrr. Sjálf reyni ég að fanga ástina í augnablikinu sem streymir á milli nýgiftra hjóna. Kannski er brúðarkjólaúrvalið það sem mest hefur breyst. Ég man til dæmis eftir sumri þar sem flestar brúðir sem ég myndaði voru í samskonar kjól,“ segir Kristín sem bætir við að stíll brúðgumanna sé sömuleiðis frjálsari en áður.

„Einu sinni voru þeir alltaf í svörtum smóking. Nú eru þeir hins vegar stundum í hvítum jakkafötum og séu fötin svört bregða þeir stundum upp pípuhatti. Þessi frjálsi stíll er skemmtilegur og gerir myndirnar skemmtilegri en ella.“

Geislandi af hamingju

Sú var tíðin að jól og áramót voru vinsæll tími þegar fólk vildi ganga í heilagt hjónaband. Svo er vissulega enn, þótt langflestar giftingar fari fram á sumrin.

„Það er nóg að gera hjá mér á sumrin við brúðkaupsmyndatökurnar, sem mér finnst mjög skemmtilegar. Nei, ég hef lítið gert af því að mynda brúðhjón fyrir athöfn. Er eiginlega á móti því, það gerist eitthvað í kirkjunni sem breytir fólki og brúðhjónin verða svo geislandi af hamingju,“ útskýrir Kristín sem segir Grasagarðinn í Laugardal og Hellisgerði í Hafnarfirði alltaf vinsæla staði staði fyrir brúðarmyndatökur.

„Sumum kann að finnast einhæft að brúðarmyndir séu svo oft teknar á sama staðnum, t.d. í Laugardal. En mér finnst slíkt í góðu lagi; rjóðrin þar eru síbreytileg, gróðurinn skiptir litum og birtan er aldrei eins,“ segir Kristín.

Töfrandi ævintýralönd

En það er fleira skemmtilegt í boði í myndatökum. Þær Kristín og Elsa Nielsen, grafískur hönnuður, hafa tekið til sinna ráða og hleypa nú ungum sem öldnum inn í ævintýralönd með því að færa ljósmyndir af þeim yfir á töfrandi bakgrunn með aðstoð tölvutækninnar. Ekki þarf að óttast að allir rati inn í sama ævintýraheiminn, því einungis er notast við sama grunninn í ákveðnum fjölda mynda. Hver grunnur er þrjátíu myndir. Ævintýramyndirnar eru t.d. fyrir barna-, stúdents- og brúðkaupsmyndatökur.

sbs@mbl.is

www.krissy.is