Ingvar Jónsson fæddist 15. október 1927. Hann lést á líknardeild Landakotsspítala 11. mars 2011. Ingvar var sonur hjónanna Jóns Helgasonar bólstrara og listmálara frá Reykjavík og Maríu Majasdóttur frá Bolungarvík. Ingvar var einn af sex systkinum, en þau voru auk hans Helgi, Torfi Kristinn og Aldís, sem eru öll látin. Eftirlifandi eru Sólveig María og Kristbjörg. Eftirlifandi eiginkona Ingvars er Kristín Magnúsdóttir, f. 25. október 1929. Kristín er dóttir hjónanna Magnúsar Jenssonar bónda frá Gullhúsá á Snæfjallaströnd við Ísafjarðardjúp og Jensínu Arnfinnsdóttur frá Brekku í Langadal við Ísafjarðardjúp. Ingvar og Kristín eiga þrjú börn, þau eru: Magnús, f. 1950, María Kristín, f. 1952, og Bjarni Þór, f. 1958, auk þess átta barnabörn og tíu barnabarnabörn. Útför Ingvars fer fram frá Langholtskirkju í dag, föstudaginn 18. mars 2011, kl. 15.

Í minningu um afa minn Ingvar Jónsson.
Ég man þegar ég var að alast upp hvað það var alltaf mikill spenningur hjá mér að fara í heimsókn til afa og ömmu, hvernig ég fylltist allur af gleði því að ég vissi að það var alltaf eitthvað sem ég gat baukað með afa og ömmu, hvort sem það var í bílskúrnum hjá honum, þar sem hann smíðaði ýmisleg leikföng fyrir mig eða ég lék með honum í garðinum að týna ánamaðka eða borða rabbabara. Lengi kallaði ég hann hafi því ég var svoldið málvilltur og það fannst honum fyndið þegar ég söng krummi krunkar úti og söng það vitlaust og hann gafst ekki upp fyrr en hann var búinn að kenna mér að segja þetta rétt. Ég man það svo vel þegar hann gaf mér leikfangavörubíl sem hét Dúi. Eftir sumrin var farið með hann til afa þar sem hann var lagaður og málaður. Gerði ég í því að reyna að nota hann mikið svo afi gæti lagað hann fyrir mig. Afi hafði alltaf tíma fyrir mig hvort sem það var að teikna eða lesa og hafði hann mjög gaman af því að kenna og sýna mér. Ef ég spurði hann hvort við gætum farið að veiða, þá var það yfirleitt aldrei neitt mál og fórum við oft saman með bræðrum mínum að veiða að Hafravatni, þá sagði hann okkur sögur af því þegar hann var að alast upp og frá leikjum sínum við Hafravatn þar sem hann hafði verið í sveit, þótt ég heyrði sömu söguna oft þá var alltaf jafn gaman að hlusta á þær og sjá hann brosa útað eyrum.
Börnin mín, Styrmir Ingi og Isabella Stjarna héldu mikið upp á langafa sinn, þar sem hann gaf sér góðan tíma til að spjalla við þau, teikna og spila, enda sagði hann að börnin væru skemmtilegasta fólkið og var hann mikill barnagæla. Sonur minn Styrmir Ingi býr í Bandaríkjunum og er hjá okkur á sumrin, þá er hann í fótboltaskóla hjá KR meðan hann er hér. Styrmir var harðákveðinn að hann sjálfur væri stærsti KR aðdáandinn, en eftir að hafa eytt degi með afa sínum, vissi hann betur. Þegar ég sótti hann til afa segir hann stoltur að langafi sinn sé stærsti aðdáandi KR, því hann væri bæði með KR kaffibolla og stóran KR fána í bílskúrnum. Afi var mikill KR-ingur og var mikið í skíðadeild KR á uppvaxtarárum. Jón Helgason faðir hans var mikill frumkvöðull í skíðamálum og var í KR. Fyrir áramót hafði ég samband við skíðadeild KR og sagði þeim frá skíðum og bindingum sem afi minn vildi gefa félaginu, sem hefði verið í eigu föður hans sem hannaði skíðabindingarnar í kringum 1930. Formaður skíðadeildar KR kom á heimili þeirra fyrir áramót, gaf afi þá skíðadeildinni bindingar og skíðin og gat sagt þeim þá söguna á bak við þau.
Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa fylgt afa síðustu mánuðuðina, allt þar til að hann kvaddi okkur á föstudagsmorgun sl. Á síðustu mánuðum hef ég heyrt skemmtilegar og fróðlegar sögur, bæði af pabba hans og frá þeim tímum sem hann var að alast upp í vesturbænum. Það var alltaf stutt í húmorinn hjá afa og gaman að fíflast með honum. Hann var mikill afi og félagi minn.
Hér er kvæði sem móðir afa orti um hann þegar hann var lítill.

Ingvar ílla lætur alltaf grætur

vekur mömmu og pabba um miðjar nætur.

Ingvar kossapoki með loki

fýkur útí roki með beinu koki.

Eitt er það sem Ingvar kann

alltaf rífa og tæta

annað þarflegt iðkar hann

ávallt gólfin væta.

Þessu kvæði hafði hann mjög gaman af og sé ég stríðnisbrosið hans fyrir mér eins og hann væri að segja það sjálfur.
Minning þín mun alltaf fylgja mér og ég veit í hjarta mínu að þú fylgir mér ávallt.
Sakna þín afi minn.

Kjartan Valur Guðmundsson.