Gísli Ólafsson
Gísli Ólafsson
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is „Það hefur komið til greina að ég fari til Japans en engar ákvarðanir verið teknar.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

„Það hefur komið til greina að ég fari til Japans en engar ákvarðanir verið teknar. Við höfum verið að samhæfa aðgerðir samtakanna héðan frá Genf frá því að hamfarirnar dundu yfir,“ segir Gísli Ólafsson í samtali við Morgunblaðið en hann starfar fyrir samtökin NetHope með aðsetri í Genf í Sviss. Gísli hefur langa reynslu við björgunarstörf erlendis en hann fór m.a. fremst í flokki í íslensku rústabjörgunarsveitinni á Haítí í fyrra.

NetHope eru regnhlífarsamtök 32 stærstu hjálparsamtaka heims og hafa það meginverkefni að samhæfa og annast upplýsingatækni og fjarskipti innan sinna aðildarsamtaka, á borð við alþjóða Rauða krossinn og Barnaheill (Save the Children). Verkefni Gísla er að sjá um samhæfingu í tengslum við hamfarir, þannig að eftir að ósköpin dundu yfir í Japan hefur hann staðið vaktina, bæði dag og nótt.

„Ég er búinn að vera í því síðustu viku að samhæfa og vinna í hlutum í tengslum við fjarskipti og upplýsingatækni fyrir þau samtök sem eru í Japan, eins og starfsmenn Rauða krossins og Barnaheilla. Eitt af því er að koma fjarskiptabúnaði á vettvang en það hefur reynst flókið mál þar sem Japanir eru með strangar reglur varðandi innflutning á gervihnattabúnaði,“ segir Gísli.

Sem fyrr segir hefur ekki verið ákveðið að senda Gísla til Japans en hann segir það geta breyst fljótt, eða um leið og staða mála skýrist betur á hamfarasvæðunum, eins og varðandi geislavirknina. Hann segir gríðarlegt verkefni blasa við í Japan við björgunarstörf næstu mánuðina.

„Það er alltaf erfitt að eiga við hlutina við margs konar hamfarir; fyrst jarðskjálfta, síðan fljóðbylgju og nú þessa geislavirkni. Þó að Japanir hafi verið mjög vel búnir undir hamfarir, og með gott viðbragðskerfi, þá teygist á því til hins ýtrasta með því að fá þetta þrennt yfir sig,“ segir Gísli og telur ljóst að öflugt viðbragðskerfi Japana hafi komið í veg fyrir að hundruð þúsunda manna fórust. Tölur um að fjöldi látinna sé upp undir 20 þúsund séu vissulega skelfilegar en hafa beri í huga að Japönum tókst að rýma stór og þéttbýl svæði við austurströndina áður en flóðbylgjan skall á. Reynslan sýni nú að fjármunum í viðbragðskerfi sé vel varið.