Ásgerður Ágústa Pétursdóttir fæddist í Jónasarbæ í Stykkishólmi 11. apríl 1919. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík 29. mars 2011. Foreldrar Ásgerðar voru Pétur Einar Einarsson bóndi, f. að Ási í Stykkishólmi 19. maí 1885, d. 12. janúar 1961, og Jóhanna Jóhannsdóttir húsfreyja, f. í Öxney á Breiðafirði 24. nóvember 1889, d. 31. desember 1970. Ásgerður var fjórða í röð níu barna þeirra hjóna, Lára Karen (Kalla) er ein eftirlifandi, systkini Ásgerðar eru hér upptalin í aldursröð: a) Svava Halldóra, f. 8. janúar 1915, d. 15. janúar 1992, b) Guðrún Sigríður, f. 14. ágúst 1916, d. 24. desember 2006, c) Jóhann, f. 18. febrúar 1918, d. 3. apríl 2006, d) Einar Jón, f. 6. júlí 1920, d. 5. maí 1998, e) Guðrún Arnbjörg , f. 30. september 1921, d. 3. ágúst 2009, f) Sigvaldi, f. 26. júní 1923, d. 30. mars 2004, g) Ingibjörg Eygló, f. 17. janúar 1927, d. 23. mars 2000, h) Lára Karen, f. 6. október 1931. 1. júní 1940 giftist Ásgerður Vilhjálmi Guðmundssyni heildsala, f. 20. september 1912, d. 6. nóvember 1971. Foreldrar Vilhjálms voru Guðmundur Ari Gíslason bóndi og hómópati, f. 1880, d. 1956, og Sigríður Helga Gísladóttir húsfreyja, f. 1891, d. 1970. Ásgerði og Vilhjálmi varð fjögurra barna auðið sem hér eru talin og niðjar þeirra: 1) Pétur, f. 10. 11. 1940, maki Auður Sjöfn Tryggvadóttir, f. 1943. Þeirra börn eru, a) Sigrún, f. 1977, í sambúð með Ólafi Jens Sigurðssyni, f. 1973 , dóttir þeirra er Auður Sjöfn, f. 2009, b) Vilhjálmur, f. 1981 og c) Tryggvi Áki, f. 1983. 2) Sigríður, f. 26. ágúst 1942, maki 1; Þormóður Eggertsson, f. 1937, d. 1999, þau skildu. Þeirra börn eru a) Jakobína, f. 1962, d. 2002, b) Guðmundur Ari, f. 1963, og c) Guðrún Hulda, f. 1968, d. 1980. Maki 2; Ásmundur Valur Sigurðsson, f. 1940, þau skildu. 3) Jóhanna, f. 20. nóvember 1944. Maki 1; Hörður Þorvaldsson, f. 1942, d. 2011, þau skildu. Þeirra börn eru, a) Hrönn, f. 1965, gift Magnúsi Rúnari Guðmundssyni, f. 1961, þeirra dætur eru Hanna Kristín, f. 1987 í sambúð með Einari Péturssyni, f. 1986 og eiga þau Rebekku Hrönn, f. 2010, og Arna Margrét, f. 1993, og b) Vilhjálmur Bogi, f. 1970, d. 2000, sonur hans er Gabríel Sveinn, f. 1998. Maki 2; Örn Guðmarsson, f. 1943. Þeirra synir eru, c) Höskuldur Örn, f. 1980, giftur Hjördísi Guðnýju Guðmundsdóttur, f. 1980, þeirra börn eru Héðinn, f. 2004, og Dagbjört , f. 2007, og d) Gunnar Ingi, f. 1981, í sambúð með Hildigunni Magnúsdóttur, f. 1985, þeirra synir eru Jökull, f. 2007, og Ívar Freyr, f. 2010. 4) Jóhann Sigurfinnur, f. 25. apríl 1950. Maki; Guðmunda Siggeirs Ingjaldsdóttir, f. 1950, þau skildu. Þeirra börn eru; a) Hjördís Ólöf, f. 1967, gift Jörgen Hrafni Magnússyni, f. 1970, þeirra börn eru Jóhann Ólafur, f. 1997, og Laufey, f. 1998, b) Ásgerður Ágústa, f. 1968, í sambúð með Ólafi Vestmann, f. 1970. Sonur Ásgerðar er Snorri Rafn, f. 1991, c) Guðmundur Halldór, f. 1970, giftur Írisi Björk Tanya Jónsdóttur, f. 1969. Fyrir átti Guðmundur Annie Marín, f. 1989, sem á Hrafn Óðinn, f. 2009, Halldór, f. 1995, og Elínu, f. 1999, d) Íris, f. 1977, var gift Einari Nielsen, f. 1967, þau skildu, þeirra börn eru Pétur Einar, f. 1999, Ragnar Már, f. 2000, og Eva Marín, f. 2004. Íris á einnig Lily Karen, f. 2010. Barnsmóðir Jóhanns er Ásdís Magnúsdóttir, f. 1951, og þeirra sonur er e) Jóhann Þórir, f. 1967, í sambúð með Helgu Rakel Guðrúnardóttur, f. 1977. Ásgerður ólst upp í foreldrahúsum í Stykkishólmi, í Jónasarbæ til átta ára aldurs og svo á Ökrum sem faðir hennar byggði. Hún kom til Reykjavíkur 19 ára gömul, var vinnukona á nokkrum stöðum áður en hún giftist Vilhjálmi Guðmundssyni. Í hjúskapartíð þeirra var Ásgerður heimavinnandi. Bjuggu þau í Reykjavík fyrst um sinn en keyptu sér síðar hús við Víðihvamm í Kópavogi sem var þeirra heimili þar til Vilhjálmur féll frá. 1973 giftist Ásgerður Kristjáni Magnússyni bónda í Drangshlíð undir Austur-Eyjafjöllum, f. 1917, d. 1999. Stundaði hún þar búskap. Þau skildu. Eftir það vann Ásgerður ýmis störf í Reykjavík, lengst af hjá Pósti og síma. Frá árinu 2008 bjó Ásgerður á hjúkrunarheimilinu Sóltúni. Útför Ásgerðar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 7. apríl 2011, og hefst athöfnin klukkan 15. Jarðsett verður í Fossvogskirkjugarði.

Amma átti sér enga líka. Minningarnar sem streyma fram nú þegar hún er fallin frá eru ótalmargar. Ég man óljóst eftir þeim ömmu og afa í Víðihvamminum, ömmu í eldhúsinu og afa í stofunni með pípuna í munnvikinu. Ég var að nálgast fimm ára aldurinn þegar afi fellur frá svo með tímanum hættir maður að gera sér grein fyrir hvað er eiginleg minning lítillar stelpu og hvað er lært af myndum og sögum. Í minningunni er notaleg tilfinning tengd Víðihvamminum.Þegar amma fluttist til Drangshlíðar dvöldum við barnabörn hennar sem þá höfðu aldur til á sumrin í Drangshlíð og ég á góðar minningar og reynslu þaðan. Það var grenjað þegar farið var í rútuna á Umferðarmiðstöðinni í maí að loknum skóla og svo var aftur grenjað á haustin þegar farið var í rútuna og haldið aftur í bæinn eftir sumarið.  Það að fá að vera í sveit og umgangast dýrin, vera áhyggjulaus við leik og störf með krakkahópnum og kynnast gangi lífsins í sveitinni var mér ómetanlegt. Ég man enn nöfn hundanna, sumra heimalninganna og hestanna að ógleymdum Hnoðra, fýlsunganum sem féll úr fjallinu og vængbrotnaði og við reyndum að bjarga með því að hafa hann í bala og gefa honum haframjöl. Það var agi hjá ömmu, allt var í föstum skorðum og verkum var skipt. Bakstursdagur var einu sinni í viku og þá fékk maður aldeilis að hjálpa til við að baka og heilt borð var fyllt af bakkelsi og kökum. Amma var í Náttúrulækningafélaginu og með alls kyns hollustu á takteinum. Ömmugrautur var í morgunverð á hverjum morgni, uppfullur af hveitikími og hveitiklíði sem var keypt í sekkjavís og geymt í þurrkherberginu. Sekkirnir og dunkarnir komu sér vel fyrir Ásu systur sem átti það til að fela sig með vasaljós og bók undir borði á bak við sekkina þegar kom að uppvaskinu. Meinhollur morgunverður sem var borðaður við misjafnar vinsældir. Ég man eftir einu skipti að grauturinn var vel heitur og ég kvartaði eitthvað, þá var bara meiri mjólk til kælingar og svo gutlaði grauturinn í maganum á hestbaki í reiðskólanum. Sumar eftir sumar keyrði amma okkur í reiðskólann á Steinum og tilhlökkunin var mikil í hvert sinn. Umhverfið í Drangshlíð var ævintýraheimur. Kaðallinn til að klifra upp í Kerið, hellarnir í Drangnum og búið okkar í torfkofanum þar sem sandsteinninn var skafinn til að hella upp á. Njósnavaktirnar af torfþökunum ofan við bæinn. Ég á einhverjar myndir frá þessum tíma í sveitinni, þar eru tvær sem ég held mikið uppá af ömmu. Á annarri stendur hún á tröppunum við gestainnganginn, roggin á svip og búsældarleg að fylgjast með krakkaskaranum, á hinni er hún skælbrosandi með rauðan tóbaksklút á höfðinu á dráttavél með fullan vagn af böggum í eftirdragi. Það hefur eflaust verið álíka sýn þegar hún fór með okkur að Skógum eða Seljavöllum í sundlaug í baðferðir, amma á dráttarvélinni með fullan vagn af krökkum. Fyrir mér var þetta algert ævintýri en maður getur ímyndað sér athyglina sem þetta og mörg önnur uppátæki ömmu vöktu í sveitinni. Eitt uppátækið var að sauma okkur pollabuxur úr áburðarpokum sem við bundum utan um okkur með baggabandi, snilldarhugmynd sem virkaði, þvotturinn og grasgrænan snarminnkaði og mér fannst nú lítið mál að klæðast þessum ósköpum. Ég get ekki annað en rifjað upp búðarferðir okkar Hrannar að Skarðshlíð. Ef einhver fékk nammi sent að sunnan fór það allt í svokallaða kistu sem boðið var úr á laugardögum svo allir fengju jafnt. Við notuðum því tækifærið og keyptum okkur kannski nokkrar karamellur, rifum upp tíglafóðrið á úlpunni minni á gaddavír á bakaleiðinni og stungum karamellum þar inn. Úlpunni var svo hent uppá háaloft og við Hrönn laumuðumst þar upp og gæddum okkur á góðgætinu í friði og ró og þóttumst ógurlega klárar. Ég man einnig eftir að hafa verið í Drangshlíð tvö jól ásamt hluta systkina minna og frændsystkina. Í minningunni fékk ég mislinga og rauða hunda sitthvor jólin. Amma var oft með sérstakar skoðanir á ýmsum hlutum, í þetta sinn var hún sannfærð um að í svona veikindum væru sjónvarpsgeislar ekki hollir svo ég man að ég varð að sitja á stól í dyragætt stofunnar við að horfa á sjónvarpið á meðan veikindin vörðu svo fjarlægðin væri nægileg. Amma spilaði óspart við okkur, kenndi okkur rommý og það var oft mikið fjör, við vorum handviss um að hún væri ekki öll þar sem hún væri séð við spilamennskuna og hagræddi sé í hag. Við hlustuðum á útvarpssögur og tónlist í eldhúsinu. Það eru svo margar minningar tengdar dvölinni í sveitinni sem koma upp í hugann að það er erfitt að hætta að rifja upp. Eftir að amma kom í bæinn aftur bjó hún í Hamrahlíðinni í fjölda ára. Ég bjó hjá ömmu í smá tíma 19 ára. Ég var að spila tónlist sem maður ætlaði nú ekki að væri ömmu að skapi en þar var ömmu kannski vel lýst, hún hækkaði í botn og skipaði mér að koma að dansa með sér við tónlistina í stofunni. Hún ræddi við mig um tilgang lífsins og allt milli himins og jarðar, það var enginn tepruskapur í ömmu og hún kom sér hreint og beint að efninu. Maður var ekkert alltaf sammála og ef manni fannst of langt gengið var bara að segja það, þá virti hún sjónarmið mín.  Eftir að amma flutti svo í Árskógana gerði ég nokkrar tilraunir til að kenna henni að rata til mín þar sem það var svo stutt á milli, ég keyrði á undan henni fram og til baka en á endanum komumst við að því að það var bara einfaldara að sækja hana. Amma keyrði bíl mjög lengi, maður var nú oft logandi hræddur í bíl með henni, hún var með einfalt mottó við aksturinn, ef hún gaf stefnuljós var það bara hinna að víkja og vara sig, hún var búin að gera sitt.

Ég tel það forréttindi barna minna að fá einnig að kynnast og muna eftir langömmu sinni. Amma vílaði ekki fyrir sér að leggjast á gólfið í leik með þeim, spjalla og spila. Amma var lífsglöð og gjafmild og það sem gerði ömmu svo einstaka og sérstaka í mínum huga var það að hún var óhrædd við að lifa lífinu, lét sér ekki leiðast, átti góða félaga sem hún ferðaðist með um landið, dansaði með og spilaði meðan hún hafði heilsu til. Hún var bara hún sjálf, oft með sérstakar skoðanir og lífssýn og það var bara allt í lagi.

Nú dansar amma eflaust langþráðan dans við afa Villa. Hvíl í friði elsku amma og takk fyrir allt.

Hjördís Ólöf Jóhannsdóttir.