Jón Valur Jensson
Jón Valur Jensson
Eftir Jón Val Jensson: "Bretar brjóta gegn reglum EES um mismunun – vextirnir þrefalt of háir"
Með Icesave-III er tekin hrikaleg áhætta, það hafa hagfræðingar á borð við Gunnar Tómasson, Jón Helga Egilsson og Ólaf Ísleifsson sýnt fram á og Reimar Pétursson hrl. fært lagaleg rök fyrir. Hér verður ekki farið yfir meginrök máls, heldur tvö þungvæg atriði sem hafa vart komizt í umræðuna, enda ekki nema tveir dagar síðan upplýst var um annað þeirra.

3,3% vextir brezka hlutans á Icesave-kröfunni eru brot á jafnræðisreglum EES-samningsins: Fyrir utan að höfuðstólskrafan á hendur ísl. skattborgurum er ólögvarin (og óheimil skv. ESB-tilskipun 94/19/EC, að sögn norsks prófessors í þjóðréttarfræði, Peters Ørebech, sjá thjodarheidur.blog.is/blog/thjodarheidur/entry/1087872/), er Íslendingum mismunað freklega með kröfu um 3,3% vexti, þar sem brezk stjórnvöld veittu eigin tryggingasjóði margfalt hagstæðara lán.

31.12. 2008 sendi fjármálaeftirlitið brezka (FSA) bönkum bréf vegna tryggingaiðgjalda (fsa.gov.uk/pubs/other/fscs_levies.pdf). Þar kemur fram að FSCS, tryggingasjóður innistæðueigenda í Bretlandi, muni fjármagna kostnað sinn með lánum frá HM Treasury (brezka ríkissjóðnum) á afar hagstæðum kjörum, á LIBOR-vöxtum auk 30 punkta álags (0,3%). Lánin eru afborganalaus fyrstu þrjú árin (mgr. 16), vextirnir greiddir í 6 mánaða skömmtum (mgr. 17). LIBOR-vextir voru 2,38% í des. 2008 og 1,9% í jan. 2009, en hafa hríðlækkað, eru nú 0,78%. Skv. þessu var lán brezka ríkissjóðsins til FSCS á 2,2% vöxtum í upphafi, en nú 1,1%.

Þetta sýnir okkur, að hagfræðingurinn dr. Daniel Gros hafði rétt fyrir sér að 5,55% vextir á „lán“ til Tryggingasjóðs innstæðueigenda (TIF) og (!) til ríkissjóðs okkar væru gersamlega ólöglegir, eins og raunar 3,3% vextirnir á Icesave-III eru líka. (Sjá um þær Gros-uppljóstranir í nóv. 2009: 'Enn um Icesave-vexti: Í yfirgangi sínum brjóta Bretar lög um jafnræði í EES: snuða okkur um (185 til) 270 milljarða fyrstu sjö árin!' = krist.blog.is/blog/krist/entry/983418/ og hér: 'Það skeikar hundruðum milljarða í Icesave-vaxtaútreikningum fjármálaráðherrans!' = krist.blog.is/blog/krist/entry/983941/).

Fjármálaráðherra og samninganefndin hafa þannig stöðugt hlunnfarið þjóðina – ekki staðið vörð um rétt okkar í þessu frekar en öðru! Lárus Blöndal hefur heldur ekki staðið vörð um rétt TIF til að borga í ísl. krónum (9. gr. laga nr. 98/1999: „Ávallt skal heimilt að endurgreiða andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár í íslenskum krónum, óháð því hvort það hefur í öndverðu verið í annarri mynt.“)

Aukist greiðslukrafan á hendur íslenzka ríkinu umfram þá 60 milljarða, sem nú (eftir 4-5% gengissig frá áramótum) er reiknað með út frá fallvöltum forsendum skilanefndar bankans, geta þessir 2,2% umframvextir, auk gengisáhættu, orðið meðvirkir í að búa til hrikalegan spíral gegn okkur í hundraða milljarða reikningi.

Til hliðsjónar má hafa frétt í Mbl. 29/3 sl., „Milljarða hagnaður Breta og Hollendinga“. Þar kemur fram, að Br. & H. „hafa nú þegar hagnast um rúma 20 milljarða kr. á Icesave-samkomulaginu,“ – þeir hafi „fjármagnað sinn kostnað með „rúllandi“ útgáfu þriggja mánaða ríkisvíxla [og] vaxtakostnaður þeirra frá okt. 2008 til dagsins í dag numið um 10,8 milljörðum króna“ en „áfallinn vaxtakostnaður TIF og þar með ísl. ríkisins á sama tíma nemur hins vegar um 31,6 milljörðum króna. Mismunurinn er því um 20,8 milljarðar króna,“ þ.e. vaxtagróði Br. & H. bara á þessu tímabili!

Allar ríkiseignir að veði?

Ísl. ríkið afsalar sér friðhelgisrétti eigna sinna í ákvæði ('waiver of sovereign immunity') í Icesave-III eins og í fyrri samningum. Seint í ferlinu var íhugað að hafa undantekningar frá þessu, enda höfðu þingmenn o.fl. gert kröfu í þá átt. Í des. 2010, er samningurinn hafði verið tölvuprentaður, var loksins skrifað inn ákvæði um að undanskilja þessar ríkiseignir: náttúruauðlindir, Seðlabankann og þær stofnanir ríkisins sem það þurfi á að halda til að starfa sem fullvalda.

Þetta var gert með þeim hætti sem sérfræðingurinn Lárus Jónsson telur (Mbl. 7. þ.m. bls. 16) að myndi ekki halda gagnvart dómstólum, einkum þegar dæmt er að enskum lögum (skv. Icesave-III-samningnum) í hollenzkum dómstóli sem heldur sitt dómþing í Englandi. Undantekningar-ákvæðið var krotað inn á eitt eintak samningsins án þess að samningarnefndarmenn vottuðu það sem sitt ákvæði, en réttarhefð Breta er þannig að gerðar eru stífar kröfur um að allt, sem á sé byggt í samningum, sé tryggilega vottfest, á öðru er ekki tekið mark.

Lárus reyndi ítrekað að fá svör fjármálaráðuneytisins íslenzka og hins brezka til að fá staðfest, hvort gögn um þetta mál, sem birt eru á vefsíðu ráðuneytisins, séu „frumrit af þeim gögnum sem verða undirrituð ef frumvarpið verður samþykkt í þjóðaratkvæði.“ Engin svör fékk hann, í 3 vikur, þrátt fyrir ítrekanir til ráðuneytisins, að því beri að svara erindi hans innan 7 daga skv. upplýsingalögum. Engin svör hefur hann fengið frá brezka ráðuneytinu!

Þetta mál er í algeru uppnámi. Allar eignir ríkisins gætu verið hér að veði, þ.m.t. vatns- og jarðhitaréttindi, fasteignir og jarðir ríkisins.

Höfnum Icesave!

Höf. er guðfræðingur, prófarkalesari, form. Þjóðarheiðurs – samtaka gegn Icesave og félagi í Samstöðu þjóðar gegn Icesave.