Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Myndlistarsýningin Koddu sem nú stendur yfir í Nýlistasafninu og í Alliance-húsinu úti á Granda, er líklega sú umræddasta hér á landi í seinni tíð og þá einkum vegna eins verks af mörgum sem á henni má finna. Sýningin er sögð fjalla um „íslensku leiðina – uppganginn, hrunið og þjóðarsjálfið“, og spanna allt frá „tilurð þjóðlegs myndmáls, virkni ímynda í samtímanum til birtingarmynda og tákngervinga góðærisins og hrunsins“, eins og því var lýst í umfjöllun í Morgunblaðinu 16. apríl sl. Verkið sem deilt hefur verið um ber titilinn „Fallegasta bók í heimi“ og er efniviður þess bókin Flora Islandica en sýningarstjórar Koddu settu milli blaðsíðna í henni mat ýmiss konar, m.a. brauðálegg. Bókin er þó ekki verkið allt því utan um hana hefur verið byggður lítill skáli og yfir henni hangir „Hreðjabirta“, lampi með skermi úr nautspungahúð eftir forstöðumann Reðasafnsins, Sigurð Hjartarson.
Flora Islandica prýða málverk listmálarans Eggerts Péturssonar af íslenskum hájurtum við texta Ágústs H. Bjarnasonar en bókin var gefin út í 500 tölusettum eintökum árituðum af Eggerti. Árið 2009 hlutu hönnuðir bókarinnar, Snæfríð Þorsteins og Hildigunnur Gunnarsdóttir, fyrstu verðlaun fyrir hana í virtri, alþjóðlegri hönnunarkeppni, The Cup Awards, í flokki útgáfuverka, en útgefandi bókarinnar er Crymogea. Í frétt frá því í fyrra á vef Crymogeu segir frá verðlaununum undir fyrirsögninni „Flora Islandica er fegursta bók heims“. Sýningarstjórar Koddu keyptu eina af bókunum 500 og breyttu henni með fyrrnefndum hætti og brást útgefandi Crymogeu, Kristján B. Jónasson, við með þeim hætti að krefjast þess af stjórnendum Nýlistasafnsins að verkið yrði fjarlægt af sýningunni. Nýlistasafnið varð við því en sýningarstjórar færðu það yfir í sýningarrýmið í Alliance-húsinu í fyrradag og stendur það nú þar. Kristján benti á ákvæði í höfundarlögum er varða sæmdarrétt, að óheimilt væri að breyta verki höfundar eða birta með þeim hætti að skert gæti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni. Kristján sagði í gær að Crymogea beindi þeim tilmælum til sýningarstjóra að verkið yrði tekið af sýningunni og því eytt. „Ég bið þau um, kurteislega, að eyða verkinu,“ sagði Kristján.
Bókin sem helgigripur
Blaðamaður ræddi við Hannes Lárusson, einn sýningarstjóra Koddu, um verkið í gær.– Hver er hugmyndin að baki þessu verki, hið listræna inntak?
„Til að byrja með þá snýst þetta um bókina sem helgigrip og tákn og ég held að viðbrögðin staðfesti að í íslenskri menningu hefur bókin annan sess en flestir aðrir hlutir. Þeir sem þykjast eiga eða hafa yfirráð yfir bókinni, í menningarlegu og pólitísku tilliti, því þetta er nú oftast samtengt, telja sig jafnframt hafa yfirráð yfir eða eignarhald á menningunni og eiginlega þjóðarsálinni. Ég held að þetta sé lykilatriði í þessu og ég held að þetta sé á misskilningi byggt. Og sérstaklega á síðustu árum og áratugum, þegar hið sýnilega og sjónræna, landið og landslagið, er komið í forgrunn sem e.k. þjóðarímynd þá fellur bókin sjálfkrafa í skuggann af landinu sjálfu. Ég held að þetta sé m.a. þau átök, sú átakalína sem er verið að útskýra á sýningunni og í katalógnum, þ.e. að orðið og bókin eru ekki lengur þau tæki og þau tól sem bíta á þann veruleika sem við búum í. Þannig að bókin sem helgigripur hefur misst töframáttinn, getum við sagt. Þetta er orðið meira tákngervingur án inntaks,“ segir Hannes.
Hannes segir það hafa verið listræna ákvörðun sýningarstjóra að nota mat, lífrænt ferli og lykt, í verkið. „Eigum við ekki að segja bara að það sé aðferð til að ná þessum hola helgigrip niður á jörðina, gæða hann jörðinni. Jarðtengja helgigripinn. Ég held að það sé aðalhugmyndin að baki því og síðan er þarna um að ræða lífrænt ferli sem mun halda áfram án þess að nokkur mannshönd komi þar nálægt.“ Hannes bendir einnig á skyldleikann við readymade-hugmyndina í myndlist, readymade geri áhorfandann að geranda eða skapanda í verkinu, undirstriki hans þátt. Í verkinu sé ferli sem listamaðurinn hafi ekki stjórn á, eins og viðbrögðin við verkinu sýni.
Fyrst og fremst bókbandið
Hannes segir mörg dæmi þess í listasögunni að listamenn hafi notað verk annarra listamanna í sín eigin, t.d. keypt málverk eftir minniháttar málara eða listamenn og hreinlega málað yfir þau, notað strigann. Það sé lítið sem ekkert fjallað um það í listasögunni. „Þarna erum við að taka verk sem í þessu tilfelli er að vísu fjöldaframleitt, það er ekkert óeðlilegt við það að verk eftir einn listamann sé tekið af öðrum listamanni og gert úr því annað verk og í einhverjum tilfellum betra og kannski í þessu tilfelli betra en frumhráefnið var,“ segir Hannes. Listamenn víða um heim stundi slíka iðju á hverjum degi. Hannes segir það hroka að dæma annað verkið merkilegra en hitt og segir það aldrei hafa komið til greina hjá sýningarstjórum að biðja um leyfi frá útgefanda bókarinnar fyrir því að fá að gera þetta við bókina. „Það hefði verið betra fyrir verkið okkar ef þessar frumstæðu blómamyndir hefðu ekki verið í bókinni, það er ágætt að það komi fram. Þetta snýst ekkert um bókina nema að því leyti að þetta snýst um hana sem fallegan bókbandsgrip, það er fyrst og fremst bókbandið sem við vorum að kaupa. Að það skuli vera blómamyndir í henni skiptir litlu máli en það gæti gert verkið fallegra í augum einhverra annarra. Ég held við höfum ekki verið að kaupa blómamyndir til að hafa á sýningunni.“Spurður að því hvort hann og hinir sýningarstjórarnir hafi ekki átt von á þessum hörðu viðbrögðum segir Hannes svo ekki vera. „Þetta er að öllu leyti bara algjörlega viðtekið í listsköpun og mitt álit er það að þetta verði að vera viðtekið og leyft og opið til að listsköpun geti átt sér stað,“ segir hann. „Ég held að menn vilji að menn geri eitthvað gott úr hlutlausu hráefni, að menn taki eitt verk og geri annað betra úr því. Þá græða allir.“
„Fallegasta bók í heimi“ verður á sýningunni til loka hennar, 15. maí, að sögn Hannesar.
„Kaldhæðni og skítkast“
Eggert Pétursson myndlistarmaður, höfundur myndverkanna í Flora Islandica, segist hafa lítið meira um málið að segja en fram hafi komið í fjölmiðlum nú þegar, en Eggert sagði í samtali við RÚV að hann teldi níðingsverk hafa verið unnið á bókinni. Eggert gefur lítið fyrir listrænar útskýringar Hannesar á verkinu „Fallegasta bók í heimi“. Í verki Hannesar og sýningarstjóranna sé vísað í Dieter Roth og segir Eggert að hann hafi verið nemandi hans og gert sín fyrstu blómaverk á þeim tíma, verk sem markað hafi upphaf ferils hans sem listamanns sem fáist við plöntur. „Þá er náttúrlega verið að skjóta á mig,“ segir Eggert um verkið á Koddu. „Þetta verk er bara kaldhæðni og skítkast.“– Nú er verkið komið aftur í sýningu, ætlið þið útgefandinn að aðhafast eitthvað meira í málinu?
„Það er nú frekar að spyrja Kristján að því, hann sér eiginlega um þá hlið. Það er þá bara lögfræðilegt,“ svarar Eggert. Beðið hafi verið um að bókin, með áritun Eggerts, yrði fjarlægð af sýningunni. „Bæði er verið að brjóta sæmdarrétt og höfundarrétt,“ segir Eggert.
– Ef beðið hefði verið um leyfi frá höfundum verksins og útgefanda fyrir þessari notkun á því, hefði það þá verið veitt?
„Ég held ekki. Aftur á móti, ef ég hefði veitt leyfi fyrir þessu hefði ég látið þá fá gallað, óáritað eintak til að vinna með,“ svarar Eggert. Bókin hafi verið seld í 500 árituðum eintökum og eigendur skráðir. „Ég hef líka sýnt þetta verk sem listaverk eftir mig á sýningu þannig að ég hef gefið út það statement að það sé hægt að líta á blómaskreytingar sem listaverk.“
Lítið gert úr listamanninum
Blaðamaður sló á þráðinn til Gunnars J. Árnasonar listheimspekings og leitaði álits hans á verkinu umdeilda. „Það eru eiginlega að takast á tvö sjónarmið. Annars vegar þetta listræna sjónarmið um listrænt frelsi sem Hannes er að vísa í, það sem listamenn hafa verið að vinna með í framúrstefnulist, að nota efni úr umhverfinu,“ segir Gunnar. Hannes hafi gert mikið af því. Hins vegar sé það sjónarmiðið hvort réttlætanlegt sé að nota þetta tiltekna efni, Flora Islandica, með þeim hætti sem gert sé.„Það er ekki bara verið að endurskapa verkið í einhverjum nýjum, listrænum tilgangi heldur beinlínis verið að beina spjótum sínum að þessum tiltekna hlut sem menn þá viðurkenna sem sjálfstætt höfundarverk. Það er þessi athöfn sem fer fyrir brjóstið á mönnum, að afmynda eða afskræma verkið og greinilega líka í þessum krítíska, neikvæða tóni, í samhengi þessarar sýningar þar sem verið er að bendla þetta verk við eitthvað sem þykir mjög neikvætt, þ.e. hrunið. Að verkið eigi einhverja hlutdeild í því.“ Gunnar bendir á að Flora Islandica sé áritað verk og því ekki eins og hver önnur bók, gefið út í takmörkuðu upplagi. „Það sem manni finnst vafasamt við þetta, ef það er eitthvað, er að í raun og veru er verið að nýta verk annars listamanns, ekki bara til þess að skapa nýtt verk heldur líka til þess að gera lítið úr honum og hans verkum með því að setja þau í þetta samhengi.“ Gunnar segir verkið virka þannig á sig að verið sé að nota það sem e.k. táknmynd um spillingu, jafnvel glæpsamlegt athæfi, að það sé dæmigert fyrir þann kúltúr sem var við lýði í aðdraganda hrunsins. „Það er ekki verið að nýta það til að búa til e.k. nýja mynd eða nýja hugmynd heldur lítur út fyrir að verið sé að beina ákveðinni reiði eða biturð, sem brýst út gagnvart þessum atburði, gegn listamanninum og hans verki.“
Sæmdarréttur
Sæmdarréttur nefnist sá hluti eða þáttur í höfundarrétti sem varðar öðru fremur álit höfundar og heiður. Sæmdarréttur fylgir höfundi verks og getur hann ekki afsalað sér honum nema í einstökum, skýrt tilgreindum tilvikum.Í 4. grein fyrsta kafla höfundarlaga segir í 2. málsgrein: „Óheimilt er að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni.“ Um þetta ákvæði snýst deilan í raun, hvort höfundar „Fallegustu bókar í heimi“ hafi brotið á þessum rétti höfunda bókarinnar Flora Islandica.
Föstudaginn nk., 29. apríl kl. 12.10, bjóða ReykjavíkurAkademían og Meistaranám í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst til málstofu í húsakynnum ReykjavíkurAkademíunnar, Hringbraut 121, um sæmdarréttinn í íslenskum höfundarlögum og í menningarlegu samhengi undir yfirskriftinni „Er sæmdarréttur tímaskekkja?“. Frummælendur eru tveir. Teitur Skúlason lögfræðingur heldur fyrirlestur með yfirskriftinni „Sæmdarréttur í stafrænu umhverfi“ og Egill Viðarsson, meistaranemi í þjóðfræði við HÍ fjallar um rannsókn sína á höfundarrétti í tengslum við höfundalaust efni, eins og segir í tilkynningu um málstofuna.