"Dæmigerð misþyrming á lýðræðinu" ­ segir Magnús L. Sveinsson, formaður VR um niðurstöður atkvæðagreiðslunnar um miðlunartillöguna "Ég verð að segja þá skoðun mína að mér finnst þetta alveg dæmigerð misþyrming á lýðræðinu, að 1.925 atkvæði skuli vigta...

"Dæmigerð misþyrming á lýðræðinu" ­ segir Magnús L. Sveinsson, formaður VR um niðurstöður atkvæðagreiðslunnar um miðlunartillöguna "Ég verð að segja þá skoðun mína að mér finnst þetta alveg dæmigerð misþyrming á lýðræðinu, að 1.925 atkvæði skuli vigta minna en 1.885. Á sama tíma nægja þrjú atkvæði fyrir samþykki hjá Sambandinu. Það er auðvitað mjög slæmt að svonalagað skuli gerast og það liggur alveg ljóst fyrir að það stríðir gegn allri réttlætiskennd manna," sagði Magnús L. Sveinsson, formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur aðspurður um niðurstöður atkvæðagreiðslunnar um miðlunartillögu ríkissáttasemjara.

Hann sagði að VR hefði gert athugasemd við það að stjórnir vinnuveitendasamtakanna hefðu greitt atkvæði, en verslunarmanna félögunum væri uppálagt að félagarnir sjálfir greiddu atkvæði en ekki stjórnirnar. "Við óskum eftir að því verði fundinn staður í lögunum að það gildi ekki sömu reglur fyrir báða aðila. Við erum að athuga hvernig við tökum á þessu. Þó ekki væri nema upp á framtíðina að gera, þarf að fást úr þessu skorið. Það lítur afskaplega einkennilega út ef annar aðilinn getur látið sex manna klúbb taka ákvörðun, en við þurfum að bera það undir fleiri þúsundir manna," sagði Magnús.

Hann sagði að félagar VR ættu erfitt með að sætta sig við að meirihlutinn þyrfti að beygja sig fyrir minnihlutanum, eins og hefði gerst í þessari atkvæðagreiðslu og hann hefði ekki átt von á þessari niðurstöðu.

"Ég átti von á meiri kjörsókn og ég bjóst við að yfirborgaða fólkið kæmi og greiddi samningunum atkvæði. Við urðumn hins vegar varir við það að þetta fólk taldi ekki rétt að það færi á kjörstað til þessað samþykkja samninginn og setja þannig fótinn fyrir að það væri hægt að knýja fram launabættur fyrir lægstlaunaða fólkið. Ég tel að þetta sé vitnisburður um að umræðan um hin lágu laun og sá áróður okkar að öllum beri skylda til aðkoma laununum upp í 42 þúsund krónur hafi borið árangur," sagði Magnús.

Aðspurður hvort VR gæti með einhverjum hætti beitt samúðarað gerðum til stuðnings þeim 13 félögum sem enn eru í verkfalli, sagði Magnús að lögformlega væri ekkert sem kæmi í veg fyrir það. "Ég get ekki neitað því að þetta hefur komið til tals, en það er ekki komið á það stig að við höfum tekið afstöðu til þess."

"Sú mikla eining og baráttuvilji, sem hefur komið fram hjá verslunarmönnum um allt land að undanförnu er einstakur og er öðrum gott fordæmi. Ég held að það sé langt síðan önnur eins samstaða hefur sést innan verkalýðshreyfingarinnar og aðrir gætu dregið lærdóm afþví," sagði Magnús að lokum.