Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands: Rekstrarafgangur 4,4 millj. króna Á AÐALFUNDI Krabbameinsfélags Íslands, sem haldinn var sl. föstudag, sagði Gunnar M. Hansson, gjaldkeri félagsins, að rekstrarafgangur á ársreikningi félagsins fyrir sl. ár hefði...

Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands: Rekstrarafgangur 4,4 millj. króna

Á AÐALFUNDI Krabbameinsfélags Íslands, sem haldinn var sl. föstudag, sagði Gunnar M. Hansson, gjaldkeri félagsins, að rekstrarafgangur á ársreikningi félagsins fyrir sl. ár hefði numið 4,4 milljónum króna. Þegar skýrslur aðildarfélaga Krabbameinsfélags Íslands voru fluttar kom í ljós að Krabbameinsfélag Akureyrar er orðið fjölmennasta aðildarfélagið. Á fundinum var Almar Grímsson, lyfjafræðingur, kosinn formaður Krabbameinsfélags Íslands.

Í stjórn Krabbameinsfélags Íslands voru einnig kosin Guðrún Agnarsdóttir, læknir og alþingismaður, Ragnar Pálsson, deildarstjóri, og Jón Þorgeir Hallgrímsson læknir.

Gestur fundarins, Arthur Holleb, læknisfræðilegur forstjóri Bandaríska krabbameinsfélagsins, flutti erindi um starfsemi félagsins og sagði m.a. að það fengi engan fjárstuðning frá hinu opinbera. Dr. Gunnlaugur Snædal, fráfarandi formaður Krabbameinsfélags Íslands, flutti erindi um starfsemi félagsins á sl. ári, Hermann Ragnar Stefánsson sagði frá Samtökum krabbameinssjúklinga og aðstandenda þeirra, Kristján Sigurðsson, yfirlæknir, flutti erindi um nýskipan legháls og brjóstakrabbameinsleitar, Helga Ögmundsdóttir, yfirlæknir, fjallaði um rannsóknir til að auka skilning á eðli krabbameins og Höskuldur Frímannsson, rekstrarráðgjafi, talaði um árangur endurskipulagningar Krabbameinsfélagsins.