Fyrstu þrír mánuðir ársins: Afkoma ríkissjóðs hagstæðari en áætlað var AFKOMA ríkissjóðs varð 500 milljónum hagstæðari á fyrsta ársfjórðungi ársins en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Fyrstu þrír mánuðir ársins: Afkoma ríkissjóðs hagstæðari en áætlað var

AFKOMA ríkissjóðs varð 500 milljónum hagstæðari á fyrsta ársfjórðungi ársins en áætlanir gerðu ráð fyrir. Heildarinnheimtatekna nam 13,8 milljörðum fyrstu 3 mánuðina sem var 500 milljónum yfir áætlun en heildarútgjöld voru tæplega 16 milljarðar sem var 700 milljónum yfir áætlun. Rekstrarhalli ríkissjóðs var því tæpum 200 milljónum meiri en ráð var fyrir gert en heldur minna útstreymi á lánsreikningum gerði það síðan að verkum að greiðsluafkoma ríkissjóðs var betri en fjármálaráðuneytið áætlaði. Fjármálaráðuneytið segir að þessar tölur gefi ekki tilefni til að ætla annað en skattkerfisbreytingin um áramótin muni skila áætluðum tekjum og ríkissjóður verði rekinn án halla á árinu.

Í áætlun fjármálaráðuneytisins var gert ráð fyrir að greiðsluafkoma yrði ÷2,25 milljarðar fyrstu þrjá mánuði ársins þar sem stórir tekju póstar, svo sem fyrstu skil á vörugjaldi, eru ekki farnir að innheimtast enn, meðan gjöldin dreifast jafnar á árið. Niðurstaðan varð sú að greiðsluafkoma varð ÷1,76 milljarðar fyrstu þrjá mánuðina.

Á fréttamannafundi sem fjármálaráðuneytið hélt kom fram að staðgreiðslukerfi skatta virtist ætlað að skila þeim tekjum sem áætlað var og fór innheimtan raunar 160 milljónum fram úr áætlun. Þá skilaði söluskattur 500 milljón krónum meira í ríkissjóð en áætlað var sem stafar m.a. af mikilli veltu í desembermánuði og bættri innheimtu að því er virðist.

Á fundinum kom fram að efnahagshorfur hafa breyst nokkuð frá því fjárlög voru samþykkt í lok desember, en þess hafi aðeins gætt að litlu leyti í afkomu ríkissjóðs á fyrsta ársfjórðungi enda launa- og verðlagsþróun fyrstu mánuði ársins að mestu í samræmi við fyrri áætlanir. Fyrirsjáanlegt væri að verðlags- og launabreytingar á næstu mánuðum yrðu talsvert meiri en gert var ráð fyrir á fjárlögum. Þar væru enn ýmsir þættir óljósir og því ekki unnt að meta nákvæmlega hvaða áhrif breyttar efnahagsforsendur hefðu á afkomu ríkissjóðs á þessu ári. Hins vegar væri líklegt að áhrifin kæmu nokkuð jafnt við tekjur og gjöld og því ekki ástæða til að ætla að áætlanir um hallalausan rekstur ríkissjóðs ættu að bregðast.

Áætlun Útkoma

Fjárlög 1. ársfj. 2. ársfj. 3. ársfj. 4. ársfj. 1. ársfj.

Tekjur 63.579 13.312 15.736 16.574 17.957 13.820 Gjöld -63.526 -15.291 -16.011 -16.103 -16.121 -15.966 Rekstrarafgangur 53 -1.979 -275 471 1.836 -2.146 Útstreymi lánar. -5.175 -1.854 -1.583 -645 -502 -1.560 Lántökur 5.165 1.580 1.945 950 810 1.946

Greiðsluafkoma 43 -2.253 87 776 2.144 -1.760 Í þessari töflu sést í stórum dráttum hvernig rekstur ríkissjóðs hefur gengið miðað við áætlanir fyrstu 3 mánuði ársins. Í fremsta dálkinum eru niðurstöðutölur fjárlaga, í næstu fjórum dálkum er þeim skipt milli ársfjórðunga samkvæmt áætlun fjármálaráðuneytisins og í aftasta dálki er útkoma ríkissjóðs á fyrsta ársfjórðungi.