Hvammstangi: Fundað um atvinnumál í V-Húnavatnssýslu Hvammstanga. FORSTJÓRI Byggingastofnun ar, Guðmundur Malmquist, Pálmi Jónsson alþingismaður og Vilhjálmur Egilsson 1. varaþingmaður voru frummælendur á almennum fundi sem Sjálfstæðisfélögin í...

Hvammstangi: Fundað um atvinnumál í V-Húnavatnssýslu Hvammstanga.

FORSTJÓRI Byggingastofnun ar, Guðmundur Malmquist, Pálmi Jónsson alþingismaður og Vilhjálmur Egilsson 1. varaþingmaður voru frummælendur á almennum fundi sem Sjálfstæðisfélögin í Vestur-Húnavatnssýslu boðuðu til í Félagsheimilinu Ásbyrgi 19. apríl sl. Fundarstjóri var Júlíus Guðni Antonsson. Fundarefnið var erfið staða atvinnulífs á landsbyggðinni og leiðir til úrbóta. Fundinn sóttu um 70 manns.

Guðmundur Malmquist sagði frá starfsemi Byggðastofnunar í helstu atriðum. Taldi hann tvær leiðir tilað bæta atvinnuástand á landsbyggðinni, byggðastefna yrði aukin með stjórnvaldsaðgerðum og/eða stórefldum heimastjórnum til aukningar hagvaxtar í héruðum. Reynsla liðinna ára sýndi að í góðæri væri ekki hugað sem skyldi að eflingu atvinnulífs á landsbyggðinni. Heimamenn yrðu að koma sér saman um aðalmarkmiðin í heimabyggð í uppbyggingu atvinnulífs. Samræma þurfi aðgerðir fagstofnana og ráðuneyta til að sem bestur árangur náist. Fremur þurfi að laga rekstrargrundvöll fiskveiða og vinnslu, en reka þær á auknum lánum.

Fyrirsjáanleg byggðaröskun er mjög óheppileg vegna nýtingar verðmæta á landsbyggðinni, s.s. fasteigna og hlunninda. Óæskileg þensla er nú á höfuðborgarsvæðinu, sagði Guðmundur.

Pálmi Jónsson sagði stöðu atvinnulífs í ýmsum byggðum mjög alvarlega. Vestur-Húnavatnssýsla væri sterkt landbúnaðarhérað með vaxandi útgerð og fiskiðnað, ásamt þjónustu og smáiðnaði. Nánast er nú hrun í ullariðnaðinum og hallarekstur á rækjuvinnslu. Krafist hefur verið að verðjöfnunarsjóður rækju verði endurgreiddur af sölu ársins 1987.

Hluta vandamálsins má rekja til rangrar gengisskráningar og viðskiptahalla ríkissjóðs. Hafnaði hann fullyrðingum um almennt slæman rekstur fyrirtækja á landsbyggðinni. Skapa verði undirstöðuatvinnuvegunum rekstrargrundvöll, þá muni annað fylgja eftir í jákvæða átt. Sjálfstæðisflokknum beri skylda til að taka á þessum erfiðu málum. Með kjarasamningum hafi verið stóraukið fé til húsnæðismála, sem síðan hafi skapað þensluástand á höfuðborgarsvæðinu, ásamt stórauknum erlendum lántökum.

Vilhjálmur Egilsson sagði aðkoma yrði á jafnvægi í gjaldeyrismálum, útflutningsfyrirtækin berjist í bökkum en innflutningur blómstri. Færa eigi gengisskráninguna til viðskiptabankanna og taka upp markaðsskráningu á gengi. Hlutur einkaaðila í erlendum lántökum sé innan við 10% af heildarskuldum erlendis, opinberra aðila um 50% og bankanna um 30%. Viðskiptahalla á árinu 1988 er spáð jafnháum og sem nemur útflutningsverðmæti sjávarafurða til USA á yfirstandandi ári. Jafnvægi í gengismálum yrði besta aðgerðin til björgunar atvinnumálum á landsbyggðinni. Leggja beri niður bindiskyldu Seðlabanka gagnvart viðskiptabönkunum.

Þórður Skúlason, sveitarstjóri á Hvammstanga, vildi færa gengisskráninguna til ríkisstjórnarinnar. Á Hvammstanga sagði hann erfiðleika í rekstri fyrirtækja og sveitarfélagsins. Samdráttur væri í sveitum og þungt hjá fiskvinnslunni. Íbúum á Hvammstanga fækkaði um 14 - eða 2% - á sl. ári. Gerði hann samanburð á rekstrartekjum Hvammstanga og Reykjavíkur. Aðstöðugjald á Hvammstanga er mest af frumframleiðslu, 0,3-0,5%, en í Reykjavík mest af verslun og þjónustu, eða 1-1,3%. Fasteignagjöld í Reykjavík væru hærri hundraðshluti en á landsbyggðinni. Þá ræddi Þórður um skerðingu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og ríkisstjórnarákvörðun um álagningu útsvars 1988, sem hann taldi of lágt. Misrétti í orkuverði væru pólitískar ákvarðanir hverju sinni. En umfram allt yrðu fyrirtækin að fá grundvöll til að skila hagnaði.

Aðalbjörn Benediktsson Hvammstanga sagði að menn mættu ekki glata sameiginlegum hagsmunum í innbyrðis deilum og nefndi þar gjaldheimtu á Norðurlandi vestra. Taldi hann flest kosningaloforð um hagsmuni landsbyggðarinnar hafa gleymst og Alþingi þess í stað samþykkt léleg sveitarstjórnarlög ásamt slæmum húsnæðismálalögum. Ríkisstjórnin verði að bæta ráð sitt eða segja af sér að öðrum kosti.

Hólmfríður Bjarnadóttir, Hvammstanga, spurðist fyrir um áform um eflingu heimastjórna. Einnig um könnun á fjárstreymi til höfuðborgarinnar og viðbrögð stjórnmálamanna við hugmyndum Vilhjálms Egilssonar í gengismálum.

Egill Bjarnason, Sauðárkróki, vildi rjúfa þing hið fyrsta, svo ríkisstjórnin gæti farið að stjórna. Ríkið yrði sjálft að gæta aðhalds í rekstri. Egill rakti einnig mjög slæma stöðu loðdýrabænda.

Benedikt Ragnarsson, Barkar stöðum, taldi stjórnvöld stefna bændum í stór samyrkjubú og flytja "umframbændur" til Reykjavíkur. Gefa verði bændum meira frelsi í búskap sínum.

Karl Sigurgeirsson, Hvammstanga, taldi atvinnurekstur í frumframleiðslugreinum ekki þola þessa háu vexti, þar sem veltuhraði væri lítill. Stöðva yrði fjárstreymi til Reykjavíkur í formi sjóðagjalda hvers konar, fjármagnið ætti að ávaxtast í heimabyggð. Hann lagði áherslu á að dreifbýlisfólk mætti ekki missa trú á, að hægt væri að búa "úti á landi".

Böðvar Sigvaldason, Barði, ræddi um nýtingu veiðivatna og markaðssetningu silungs. Hafði hann áhyggjur af virðisaukaskatti og áhrifum hans á sölu veiðileyfa, sem nú væru mjög há. Trúlega yrðu bændur að taka skattinn á sig.

Sigfús Jónsson, Söndum, ræddi misgengi lánskjaravísitölu og rauntekna. Taldi hann það hafa stuðlað að meiri vandræðum og erfiðleikum hjá almenningi, en sæist á yfirborðinu.

Júlíus Guðni Antonsson, Þorkelshóli, sagði frá fundi í Þorkelshóls hreppi, þar sem leitað var hugmynda um fjölbreytni í atvinnumálum utan hefðbundins landbúnaðar.

Guðmundur Malmquist svaraði fyrirspurnum, m.a. að ótækt væri að binda gengi krónunnar við erlenda reikningseiningu. Hugmyndum gengisskráningu viðskiptabanka góð, spurning um framkvæmd. Ullariðnaðurinn hlaut að verða fyrir áföllum vegna stóraukinna launakrafna og lélegrar vöruþróunar. Nýi Álafoss hf. á í miklum rekstrarerfiðleikum. Kannað verði með fjárstreymið til Reykjavíkur. Heimamenn verði að hafa frumkvæði til atvinnuuppbyggingar, Byggðastofnun komi svo inn með aðstoð. Bændum muni fækka og búskapur trúlega leggjast af í einstökum sveitum. Veitt verði aðstoð til fóðurstöðva loðdýra, en til aðkoma fóðurverði á æskilegan grundvöll þyrfti hundruð milljóna króna.

Pálmi Jónsson svaraði einnig fyrirspurnum. Sagði hann að gengisbreytingar væru ávallt gerðar meðvitund og á ábyrgð ríkisstjórna. Vilji væri fyrir hendi hjá ríkisstjórn að virðisaukaskattur taki gildi 1. júlí 1989. Taldi hann gjaldheimtur geta verið hjá fógetum, líkt og verið hafi. Sveitarstjórnarmenn verði að halda sínum hlut gagnvart ríkisvaldinu. Verð innlendrar orku hafi lækkað í raun frá árinu 1984 og sé nú sambærilegt við olíu, sem þó hafi lækkað. Verðjöfnun allrar orku innanlands verði ekki raunhæft, t.d. er mjög misjöfn staða hitaveitna, sem eru í eigu sveitarfélaga. Sjóðakerfi landbúnaðarins verði að endurskoða. Vaxtafrumvarp Eggerts Haukdals verði ekki afgreitt á þessu þingi.

Vilhjálmur Egilsson sagði kenningu sína í gengismálum ekki falla í kramið hjá stjórnmálamönnum, en sífellt fleiri litu á málið af áhuga. Spáði hann gengisfellingu fyrir júnílok.

Hér að framan hefur verið drepið á flesta þætti í máli manna á fundinum, eftir fundinn heyrði fréttaritari menn tala um að fleiri hugmyndir um úrbætur hefðu þurft að heyrast. En orð eru til alls fyrst.

- Karl

Morgunblaðið/Karl Sigurgeirsson

Þórður Skúlason, sveitarstjóri á Hvammstanga, í ræðustóli.