Sauðárkrókur: Sæluvika yfirstaðin Sauðárkróki. SÆLUVIKU Skagfirðinga lauk með stórdansleik í félagsheimilinu Bifröst fyrir nokkru, þar sem hljómsveit Geirmundar lék fyrir dansi.

Sauðárkrókur: Sæluvika yfirstaðin Sauðárkróki.

SÆLUVIKU Skagfirðinga lauk með stórdansleik í félagsheimilinu Bifröst fyrir nokkru, þar sem hljómsveit Geirmundar lék fyrir dansi. Mikill fjöldi var á dansleiknum og Græni salurinn opinn, en þar hittast menn til þessað taka lagið, og ekki var sungið minna né verr nú en venjulega.

Sæluvika hófst með svonefndum Forsæludansleik föstudaginn 8. apríl með hljómsveit Geirmundar Valtýssonar, en eins og stundum áður var Geirmundur áberandi og gerði sitt til þess að halda uppi góðu fjöri á þessari gleðiviku Skagfirðinga.

En ýmislegt fleira var til afþreyingar á sæluviku en dansleikirnir. Á laugardag, 9. apríl, var opnuð í Safnahúsinu sýning á ljósmyndum og teikningum Daniels Bruun frá ferðum hans um Ísland. Kl. 16.00 þann dag hélt Ásgeir Björnsson lektor erindi í Safnahúsinu, um Bruun og ferðir hans og rannsóknir á Íslandi. Fjölmargir komu og hlustuðu á skemmtilegt erindi Ásgeirs, en að því loknu gengu gestir um og skoðuðu myndasýninguna undir leiðsögn þeirra Ásgeirs og Örlygs Hálfdánarsonar bókaútgefanda, sem skýrðu það sem fyrir augu bar.

Kirkjukvöld í Sauðárkrókskirkju

Eins og á undanförnum Sæluvik um voru kirkjukvöld í Sauðárkrókskirkju á mánudags- og þriðjudagskvöld. Þar söng kór kirkjunnar undir stjórn Rögnvaldar Valbergssonar og einnig léku á þverflautu og píanó þær Katharine L. Seedell og Sólveig L. Einarsdóttir. Ræðumaður á mánudagskvöldi var sr. Bernharður Guðmundsson en á þriðjudagskvöldi sr. Dalla Þórðardóttir. Að venju var aðsókn ágæt bæði kvöldin.

Tvö leikrit í gangi

Leikfélag Sauðárkróks fékk til liðs við sig leikstjórann Sigurgeir Schewing frá Vestmannaeyjum, sem setti upp söngleikinn Okkar maður eftir Jónas Árnason. Sigurgeir er Skagfirðingum að góðu kunnur, og hefur áður leikstýrt verkum hjá Leikfélagi Sauðárkróks. Ungmennafélagið Tindastóll sýndi revíuna Hvað heldurðu, stílfærða skopstælingu á vinsælasta sjónvarpsefni hérlendis þessa dagana, með hagyrðingum og öllu tilheyrandi. Höfundur og leikstjóri var Hilmir Jóhannesson. Bæði þessi leikrit eru vel til þess fallin að kitla hláturtaugarnar og hafa fengið ágæta aðsókn, oftast sýnd fyrir fullu húsi.

Söngur á vinnustöðum

Ágæt tilbreyting var það á föstudaginn að karlakórinn Heimir, sem þessa dagana býr sig sem ákafleg ast til Ísraelsfarar, heimsótti sjúkrahús og vinnustaði og söng nokkur lög á hverjum stað. Á Hótel Mælifelli kom fram á laugardagskvöldið Halla Margrét og söng fyrir matargesti en hljómsveitin Miðaldamenn lék fyrir dansi. Í Sælkera húsinu voru svo á sama tíma Gaut arnir frá Siglufirði en nú er nokkuð síðan þessi vinsæla hljómsveit var endurvakin eftir nokkurra ára hlé og er vissulega ánægjulegt að heyra í Gautunum aftur.

Þá var í Bifröst barna- og unglingadagur þar sem þrjár eldhressar bílskúrshljómsveitir skemmtu yngri kynslóðinni frá kl. 19.00 og framyfir miðnætti.

Þrátt fyrir heldur leiðinlegt veður allt í kringum okkur sæluvikudag ana kom ófærð innanhéraðs ekki í veg fyrir að menn gætu slett úr klaufunum á Sæluvikunni og sól skein í heiði á alauða jörð á Sauðárkróki á sunnudagsmorgni þegar síðustu gestir sem vitað var um, af lokadansleik, gengu til náða.

­ BB

Morgunblaðið/Björn Björnsson

Ásgeir Björnsson lektor flytur fyrirlestur um Daniel Bruun.

Morgunblaðið/Björn Björnsson

Gestir skoða sýningu á verkum Daniels Bruun, "Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár", undir leiðsögn Ásgeirs Björnssonar og Örlygs Hálfdánarsonar.

Morgunblaðið/Björn Björnsson

Leikhúsgestir í Bifröst.