Forsætisráðherra ræðir plútóníumflutninga við Bandaríkjastjórn FULLTRÚAR allra þingflokka lýstu, í umræðum utan dagskrár í sameinuðu þingi í gær, yfir áhyggjum sínum af fyrirhuguðum flutningum flugleiðis á geislavirku plútoníumi frá Frakklandi til Japan.

Forsætisráðherra ræðir plútóníumflutninga við Bandaríkjastjórn

FULLTRÚAR allra þingflokka lýstu, í umræðum utan dagskrár í sameinuðu þingi í gær, yfir áhyggjum sínum af fyrirhuguðum flutningum flugleiðis á geislavirku plútoníumi frá Frakklandi til Japan. Flutningar þessir verða liður í samstarfi Bandaríkjanna og Japan um friðsamlega nýtingu kjarnorku. Þorsteinn Pálsson, forsætisráðherra, skýrði frá því að hann myndi skýra Bandaríkjastjórn frásjónarmiðum Íslendinga í opinberri heimsókn sinni til Bandaríkjanna síðar í mánuðinum.

Flutningar þessir eiga að hefjast árið 1990 eða 1991 en utanríkisráðherra hefur þegar gefið út fyrirmæli um að hvorki verði veitt lendingarleyfi á Íslandi fyrir flugvélar sem hafa slíkan farm innanborðs né verði þeim heimilað að fljúga um lofthelgi Íslands. Einnig hefur utanríkismálanefnd Alþingis beint því til ríkisstjórnarinnar að hún reyni að koma í veg fyrir þessa flutninga og leita samstarfs um málið við grannþjóðir okkar.

Í máli þingmanna komu fram miklar áhyggjur um hvaða afleiðingar það gæti haft ef flugvél með svona farm færist á hafsvæðinu í grennd við Ísland. Þorsteinn Pálsson, forsætisráðherra, sagði að ríkisstjórnin myndi fyrir sitt leyti gæta hagsmuna Íslands eins og hægt væri. Höfðað yrði til ákvæða alþjóðasamninga til að verja lögboðna hagsmuni Íslands og gerði hann ráð fyrir að gera Bandaríkjastjórn grein fyrir viðhorfum Íslendinga í opinberri heimsókn sinni þangað síðar í mánuðinum.