Félagsmálaráðherra: Fjórða kæran vegna ráðhússins komin ÍBÚAR við Tjarnargötu hafa kært til félagsmálaráðherra veitingu byggingarleyfis fyrir væntanlegt ráðhús við Tjörnina og er það fjórða kæra íbúanna vegna ráðhússins.

Félagsmálaráðherra: Fjórða kæran vegna ráðhússins komin

ÍBÚAR við Tjarnargötu hafa kært til félagsmálaráðherra veitingu byggingarleyfis fyrir væntanlegt ráðhús við Tjörnina og er það fjórða kæra íbúanna vegna ráðhússins. Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra segir að byggingarleyfið taki ekki gildi fyrr en borgarstjórn hafi staðfest fundargerð byggingarnefndar á fundi sínum 5. maí næstkomandi.

Kæra íbúanna vegna veitingu byggingarleyfisins, sem afgreitt var á fundi byggingarnefndar 28. apríl, barst ráðuneytinu með símskeyti fyrir helgi. Þar segir að á næstu dögum muni íbúarnir senda ráðuneytinu greinargerð máli sínu til stuðnings. "En á það ber að líta að byggingarleyfið tekur ekki gildi fyrr en borgarstjórn hefur staðfest það," sagði Jóhanna. "Ég lít því svo á að ekkert byggingarleyfi sé í gildi á þessu augnabliki." Þegar byggingarleyfið hefur verið staðfest og ráðuneytinu borist greinargerð íbúanna verður leitað umsagnar skipulagsstjórnar ríkisins og byggingarnefndar Reykjavíkur.

Kæra íbúanna vegna stækkunar á byggingarreit ráðhússins var vísað frá af félagsmálaráðherra en úrskurðar vegna kæru á veitingu graftarleyfis er að vænta á næstu dögum. Beðið var umsagna skipulagsstjórnar ríkisins og byggingarnefndar Reykjavíkurborgar en í umsögn beggja aðila er veiting graftarleyfis talin lögleg.

Þá hafa íbúarnir ennfremur sent félagsmálaráðuneytinu kæru vegna stærðar ráðhússlóðar og bíður ráðherra umsagnar skipulagsstjórnar ríkisins og byggingarnefndar Reykjavíkurborgar um hana.