Vinnuveitendur undirbúa afgreiðslubann: Fjórða umferð samningalotunnar hafin VR hefur viðræður við KRON og Miklagarð ÞRETTÁN félög verslunarmanna héldu í gærkvöldi áfram viðræðum við vinnuveitendur eftir að hafa fellt miðlunartillögu sáttasemjara.

Vinnuveitendur undirbúa afgreiðslubann: Fjórða umferð samningalotunnar hafin VR hefur viðræður við KRON og Miklagarð

ÞRETTÁN félög verslunarmanna héldu í gærkvöldi áfram viðræðum við vinnuveitendur eftir að hafa fellt miðlunartillögu sáttasemjara. Viðræðurnar gengu þó hægt og ekki var að heyra á samningsaðilum í gærkvöldi að þeir væntu árangurs í bráð, en samningafundurinn stóð enn, þegar Morgunblaðið hafði síðast fréttir af honum, um eittleytið í nótt. Verslunarmannafélag Reykjavíkur hóf í gærkvöldi samningaviðræður við Miklagarð og KRON, sem ekki voru aðilar að miðlunartillögunni, en VR aflýsti verkfalli sínu á laugardagskvöldið eftir að úrslit atkvæðagreiðslunnar lágu fyrir. Vinnuveitendur hófu í gær undirbúning að afgreiðslu- og viðskiptabanni á þau fyrirtæki, sem samið hafa við stéttarfélögin sem nú eru í verkfalli.

"Þetta er nú fjórða umferð viðræðna við þessi verslunarmannafé lög, þannig að það segir sig sjálft að menn eru farnir að tapa frjóleik anum," sagði Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri VSÍ, í gærkvöldi. Hann sagðist fremur svartsýnn á að samningar næðust við svo búið og að ástandið væri orðið verulegt áhyggjuefni. Hann sagði að ekki hefðu verið teknar ákvarðanir hjá vinnuveitendum um fyrstu skref afgreiðslu- og viðskiptabanns á fyrirtæki, sem gert hafa sérsamninga við verslunarmannafélögin, en verið gæti að í fyrstu yrði bannið takmarkað við ákveðnar vörutegundir. Það verður rætt á framkvæmdastjórnarfundi VSÍ klukkan 16 í dag.

Steini Þorvaldsson, formaður Verslunarmannafélags Árnessýslu, sagði að verslunarmenn hefðu farið yfir launaliði með fulltrúum vinnuveitenda í gær, og þeir þyrftu nú sinn umhugsunartíma. "Það eru allir sammála um að þessi deila verður að leysast sem fyrst, þannig að fyrirtækin geti farið að starfa eðlilega aftur," sagði Steini.

Magnús L. Sveinsson, formaður VR, sagði að enn hefði ekki náðst árangur í samningum við KRON og Miklagarð. Hann sagði einnig að engar ákvarðanir hefðu verið teknar um hugsanlegar samúðaraðgerðir VR til stuðnings hinum félögunum 13.

Sjá einnig fréttir og frásagnir á miðopnu, á Akureyrarsíðu bls. 38 og síðum 64 og 65.

Morgunblaðið/Björn Blöndal

Enn kom til stympinga í flugstöð Leifs Eiríkssonar í gærmorgun er verkfallsverðir reyndu að hindra farþega í að komast í gegn um tollhliðin. Nokkrir gerðu sér þá lítið fyrir, klifruðu upp á skilrúmin við vegabréfsskoðunina og skriðu eftir þeim þar til þeir gátu stokkið niður að baki verkfallsvarða. Myndin sýnir sænskan ferðamann, sem ætlaði sér augljóslega ekki að verða strandaglópur á Íslandi. Engin verkfallsvarsla var í flugstöðinni síðdegis í gær, en Magnús Gíslason, formaður verslunarmanna á Suðurnesjum, sagði í gærkvöldi að liðsauki hefði verið boðinn frá Borgarnesi, Akranesi, Hafnarfirði og Selfossi.