Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra: Ríkisbankarnir eiga að greiða arð á þessu ári TILLAGA til þingsályktunar um að gerðar verði ráðstafanir er tryggi að viðskiptabankar í eigu ríkisins greiði "eðlilegan arð af eigin fé bankanna í ríkissjóð" kom til umræðu í...

Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra: Ríkisbankarnir eiga að greiða arð á þessu ári

TILLAGA til þingsályktunar um að gerðar verði ráðstafanir er tryggi að viðskiptabankar í eigu ríkisins greiði "eðlilegan arð af eigin fé bankanna í ríkissjóð" kom til umræðu í sameinuðu þingi á laugardag. Flutningsmenn tillögunnar eru þeir Guðmundur H. Garðarsson (S/Rvk) og Eyjólfur Konráð Jónsson (S/Rvk). Jón Sigurðsson sagði í umræðum um málið að ríkisstjórnin hefði ákveðið að ríkisfyrirtæki skyldu greiða arð í ríkissjóð og hefði hann skrifað Landsbankanum og Búnaðarbankanum bréf þarsem þessi samþykkt hefði verið kynnt. Eðlilegt væri að leggja þessar kvaðir á bankana og taldi hann ríkisstjórnina þegar hafa framkvæmt það sem lagt var til í tillögunni.

Guðmundur H. Garðarsson (S/Rvk) sagði nú liggja fyrir tölur um afkomu banka síðastliðið ár. Samkvæmt þeim hefði bankastarfsemi gengið vel á árinu 1987 og hagnaður verið umtalsverður. Það vekti athygli að einkabankarnir greiddu hluthöfum sínum ákveðinn arð af hlutafjáreign og hefði þessi greiðsla almennt verið um 10% af hlutafé. Á sama tíma hefði engin sambærileg greiðsla átt sér stað hjá viðskiptabönkum í ríkiseign þrátt fyrir mjög góða afkomu.

Flutningsmenn teldu því eðlilegt miðað við aðstæður að viðskiptabankar í eign ríkisins greiddu ákveðinn arð af hlutafé og væri því þessi þingsályktunartillaga fram borin. Það hlyti að teljast eðlilegt að ríkisstjórnin gerði þær kröfur til viðskiptabanka í ríkiseign að þeir greiddu hið minnsta 10% arð af eigin fé í ríkissjóð. Í þessu fælist einnig nokkur jöfnun á samkeppnisaðstöðu milli viðskiptabanka í ríkiseign annarsvegar og einkabanka og sparisjóða hins vegar.

Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sagðist vilja taka það framað ríkisstjórnin hefði gert ráðstafanir til þess að viðskiptabankar í eigu ríkisins greiddu arð til ríkissjóðs. Við undirbúning gildandi fjárlaga hefði verið ákveðið að ríkisfyrirtæki skyldu greiða arð í ríkissjóð á árinu 1988. Í tekjuhlið fjárlaganna væri því gert ráð fyrir slíkum greiðslum.

Eftir athugun á síðasta hausti hefði verið talið heppilegast að setja slíka arðgreiðslukvöð á ríkisfyrirtæki án lagasetninga og verið ákveðið að reyna að koma henni á með sérstakri ríkisstjórnarsam þykkt sem einstök fyrirtæki skyldu síðan fylgja eftir. Hefði slík samþykkt síðan verið formlega gerð 4. febrúar sl. Í samþykktinni væri fyrirtækjum sem ríkið ætti að öllu eða verulegu leyti skipt í 4 flokka, í fyrsta lagi fyrirtæki sem greiða skyldu arð til ríkissjóðs á árinu 1988 fimmtung af meðalhagnaði síðustu þriggja ára. Í þessum hópi værum.a. ýmis fyrirtæki sem stunduðu margvíslegan atvinnurekstur. Í öðru lagi fyrirtæki sem greiða skyldu til ríkissjóðs 1% af eiginfé sínu í árslok 1987. Í þennan flokk í samþykktinni féllu Landsbankinn og Búnaðarbankinn. Í þriðja lagi væru svo fyrirtæki í hlutafélagsformi þar sem ríkið ætti stóran hlut. Þeim væri ætlað að greiða 5% af nafnverði hlutafjár í árslok 1987. Í þennan flokk félli Útvegsbanki Íslands hf. Í fjórða lagi væri svo loks ítrekað að Landsvirkjun skyldi greiða arð í samræmi við ákvæði laga um það fyrirtæki.

Viðskiptaráðherra sagði að í samræmi við þennan grundvöll hefði hann skrifað Landsbankanum og Búnaðarbankanum og kynnt þeim samþykkt stjórnarinnar. Hann hefði líka gert bankaráði Útvegsbankans grein fyrir þessari samþykkt og á aðalfundi bankans hefði hann lagt til fyrir hönd ríkisins að greiða skyldi arð sem svaraði 5% á heilu ári af nafnverði hlutafjárins eða sem svaraði nálægt 3,5% vegna rekstr artímabilsins sem var maí-des ember hjá hinu nýja hlutafélagi. Þessi tillaga var samþykkt. "Af þessu sést að ríkisstjórnin hefur þegar gert það sem til er lagt í þingsályktunartillögunni," sagði viðskiptaráðherra. Það væri líka eðlilegt að leggja slíka kvöð á ríkisbankana. Arðgreiðslurnar hlytu hins vegar hverju sinni aðgæta þess að upp væru byggðir eðlilegir varasjóðir í slíkum fyrirtækjum til að mæta sveiflum, áföllum í lánveitingum og fleiru af því tagi. Þarna ættu bankaleg sjónarmið að ráða. Þannig væri að hans mati ekki hægt að slá fastri einni tölu fyrir öll fyrirtæki í sömu grein.

Viðskiptaráðherra vildi líka benda á að hlutfall hlutafjárins af eigin fé í fyrirtækjum væri mjög breytilegt. Í viðskiptabönkum í hlutafélagsformi hefði það til dæmis verið á bilinu 55% í árslok 1987 upp í 81,5%. Iðnaðarbankinn hefði lægst hlutfall hlutafjár af eigin fé en Útvegsbankinn langhæst.

Það væri líka rétt hjá flutningsmanni að hagnaður af rekstri viðskiptabanka hefði verið umtalsverður á síðasta ári. Þannig hefði hagnaður Landsbankans verið um 5,3% af eigin fé, Búnaðarbankans 9,5%, Útvegsbankans 9,3%, Iðnaðarbankans 15,4%, Verslunarbankans 9,6%, Samvinnubankans 10,6% og Alþýðubankans 24,3%. Þetta væru mjög misjafnar tölur og vekti það athygli að hvorki Búnaðarbanki, Landsbanki né Verslunarbanki næðu 10% tölunni sem tillagan gerði ráð fyrir.

Það væri heldur ekki rétt að arðgreiðslur einkabankanna hefðu almennt verið 10% af hlutafé fyrir árið 1987. Hún hefði, samkvæmt upplýsingum Bankaeftirlitsins, verið eftirfarandi: Iðnaðarbanki 9,5% af nafnverði hlutafjárins eða um 5,2% af bókfærðu eigin fé í árslok. Verslunarbankinn úthlutaði 10% af nafnvirði hlutafjárins, en það svarar til 6,1% af bókfærðu eigin fé. Samvinnubankinn úthlutaði 5% af nafnvirði hlutafjárins, sem samsvarar 2,2% af eigin fé bankans. Alþýðubankinn greiddi ekki út arð af hlutafé þrátt fyrir góða afkomu í hlutfalli við eigin fé. Það hefði verið gert til að byggja upp eiginfjárstöðu bankans.

Útvegsbankinn mundi greiða 5% miðað við heilt ár eða sem svaraði 4,1% af eigin fé í árslok. Þetta væri miklu nær því sem væri hjá einkabönkunum heldur en virðast kynni við fyrstu augsýn. Það væri líka staðreynd að arðsúthlutun í fyrra væri hjá sumum einkabankanna til muna meiri en verið hefði undanfarin ár.

Af þessu væri ljóst, sagði ráðherrann, að því færi fjarri að einkabankarnir væru jafnan að greiða sem svaraði 10% af eiginfé. Tillagan væri því að hans dómi ekki byggð á samræmingu milli aðila í sambærilegum rekstri og ræki sig einfaldlega á þann vegg að Landsbankinn hefði alls ekki þann hagnað af rekstri sínum í fyrra að hann gæti greitt þetta og raunar teldi hann að slík greiðsla myndi stefna lausafjárstöðu þessara mikilvægu þjónustustofnana undirstöðuatvinnu veganna í landinu í tvísýnu. Þetta þyrfti þess vegna að athuga miklu betur. Það væri þó eðlilegt aðleggja sambærilegar kvaðir á þá sem stunduðu sambærilegan rekstur hvort sem um væri að ræða ríkis- eða einkafyrirtæki. Það væri líka stefna stjórnarinnar. Þessi stefna væri þegar komin í framkvæmd og henni yrði beitt eftir því sem breytilegar aðstæður krefðust. Það væri þó ekki heppilegt að slá þessu föstu með einfaldri tíund.

Guðmundur H. Garðarsson sagði að flutningsmönnum hefði ekki verið kunnugt um þessi bréfaskrif ráðherrans til ríkisbankana. Hann sagði að það virtist sem ráðherrann væri kominn í einhverja sérstaka varnarstöðu fyrir ríkisbankana. Tíu prósentin hefðu einungis verið lögð fram sem ábending um hverju stefna bæri að, viðskiptaráðherra hefði dregið óþarflega sterkar ályktanir um tilgang flutningsmanna.

Jón Sigurðsson sagði þetta ekki hafa verið neina varnarræðu, bankarnir gætu varið sig sjálfir. Tillagan rækist einungis á þá staðreynd að hagnaður eftir skatt næði ekki þeim tölum sem flutningsmenn bentu á. Hann vildi ekki draga af þessu víðtækar ályktanir heldur einungis benda á það.